Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Pistlar

Er allt steindautt í höfnunum núna?
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 18. júní 2021 kl. 08:45

Er allt steindautt í höfnunum núna?

Alltaf merkilegt að horfa á Suðurnesin yfir sumartímann.  Á árunum frá u.þ.b. 1970 og fram til aldamótanna 2000  þá var mikið líf í höfnunum á Suðurnesjunum yfir sumarið. Grindavík, Sandgerði, Keflavík – og líka smá í Vogum, Höfnum og meira segja í Garðinum líka. 

Já, það var landað fiski í öllum þessum höfnum. Mikið var um humarbáta sem réru og lönduðu þeir flestir í Grindavík og Sandgerði. Sömuleiðis voru bátar á Eldeyjarrækjunni.  Síðan voru nokkrir stærri bátanna t.d. á útilegu á grálúðunetum og sigldu svo með aflann í hafnir á Suðurnesjum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í dag er þetta allt breytt. Því segja má að þrátt fyrir mjög mikla útgerð og fiskvinnslu á Suðurnesjunum yfir sumartímann áður fyrr þá er oft á tíðum afskaplega lítið um að vera í þeim því stærsta breytingin er orðin sú að bátarnir landa ekki í höfnum á Suðurnesjum heldur er landað t.d. fyrir norðan og austan og öllum aflanum er ekið suður til vinnslu – og að auki er mjög miklum fiski ekið til vinnslu frá svo til öllum höfnum landsins yfir nætur, sem er þá keyptur á fiskmörkuðum.

Þetta er ansi mikil breyting og kannski ekkert skemmtileg breyting, í það minnsta fyrir fólk sem hefur gaman að rúlla á bryggjurnar og sjá hvað er um að vera þar.

En er þá allt steindautt í höfnunum núna? Nei, reyndar ekki – eða jú, í Keflavík. Því núna það sem af er júní þá hefur ekki einu grammi af fiski verið landað í Keflavík.

Í Grindavík hefur verið landað alls 1.925 tonnum af fiski en inni í þeirri tölu eru reyndar 1.357 tonn frá frystitogurunum og stendur eftir 568 tonn frá bátum. Vörður ÞH er með 183 tonn í tveimur löndunum, Áskell ÞH 93 tonn í einni, Páll jónsson GK 87 tonn í einni, Valdimar GK 74 tonn, Sighvatur GK 73 tonn, Jóhanna Gísladóttir GK 45 tonn, allir í einni löndun. Það má geta þess að allir þessir bátar eru farnir annað og Valdimar GK er hættur veiðum í bili.

Af minni bátunum þá hafa ekki margir landað afla. Hæstur er Sæfari GK með 2,4 tonn í þremur, Hrappur GK líka með 2,4 tonn í þremur og Sigurvon ÁR 2,2 tonn í tveimur á færum.

Í Sandgerði hafa mun fleiri landanir verið því alls hafa 41 bátar landað þar 374 tonnum af fiski. Hæstur er Sigurfari GK með 91 tonn í þremur, Siggi Bjarna GK 67 tonn í sex, Benni Sæm GK 64 tonn í sex og Pálína Þórunn GK 43 tonn í einni.

Af minni bátunum þá er Guðrún GK t.d. með 4,9 tonn í fimm á grásleppunetum, Sandvík GK 4,5 tonn í sex, Guðrún Petrína GK 4,2 tonn í fimm, Fiskines KE 4,6 tonn í sex, Stakasteinn GK 4,3 tonn í sex, Alla GK 3,7 tonn í fimm og Jói á Seli GK 3,4 tonn í fjórum.

Sunna Líf GK 3,5 tonn í átta róðrum og Garpur RE 2,1 tonn í þremur, báðir á skötuselsveiðum á netum en enginn netabátur rær frá Suðurnesjum núna á þorskanetum.

Langflestir bátanna eru á færum og á strandveiðum nema Ragnar Alfreðs GK sem var með 2,2 tonn í einum róðri og þar af var ufsi 1,8 tonn. Robbi sem gerir út, er skipstjóri á Ragnari Alfreðs GK, hefur um árabil beint bátnum sínum til veiða á ufsa á handfærunum yfir sumartímann og hefur verið sá handfærabátur sem hefur veitt mest af ufsanum á öllu landinu.