Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Pólitískt meðvitundarleysi í París
Föstudagur 17. september 2021 kl. 11:20

Pólitískt meðvitundarleysi í París

Hafandi verið þátttakandi í stjórnmálum nærri hálfa ævina verð ég að viðurkenna að það er soldið sérstakt að horfa á kosningabaráttuna fyrir alþingiskosningarnar úr fjarlægð héðan frá París. Ég hef svo sem ekki skipt mér mikið af pólitíkinni síðan ég yfirgaf stjórnmálin árið 2017 en auðvitað fylgst vel með. Ég mátti alls ekki missa af fréttatíma eða umræðuþætti og hef haft sterkar skoðanir á ýmsum málum þó svo ég hafi haldið þeim að mestu innan veggja heimilisins. Núna hins vegar læt ég mér nægja að skrolla yfir vefmiðlana, les helst bara fyrirsagnirnar nema eitthvað sérstaklega nái athygli minni og hef ekki horft eða hlustað á einn einasta fréttatíma þann mánuð sem liðinn er frá því að ég flutti til Parísar. Þetta er pínu skrítið en það skrítnasta er kannski það hvað þetta er samt lítið skrítið. Það getur nú samt alveg verið að ég eigi eftir að hrökkva í gírinn þegar nær dregur, hver veit.

Þetta pólitíska meðvitundarleysi mitt kemur þó að sjálfsögðu ekki í veg fyrir að ég nýti atkvæðisréttinn minn og í síðustu viku gerðum við frumburðurinn minn okkur sérstaka bæjarferð í íslenska sendiráðið hér í París til að kjósa. Atkvæðið þarf að auðvitað að komast til skila í tæka tíð og minnti ég mig á ömmu Eiríku þegar ég ákvað að drífa okkur á kjörstað þannig að ég gæti „notað ferðina“ eins og amma var fræg fyrir og komið atkvæðinu á vinkonu mína sem var í heimsókn um helgina.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Og þetta var alveg stór stund – nítján ára frumburðurinn að kjósa í fyrsta sinn. Það er merkilegur áfangi og ber að fagna. Hann var auðvitað margsinnis búinn að fá fyrirlesturinn um það hvað það skipti miklu máli að taka þátt og kjósa, lýðræðið er alls ekki sjálfsagt, fyrir því þarf að hafa og fyrir því þarf að berjast. Það skiptir máli hverjir stjórna og það sem mestu máli skiptir að þú hefur ekki rétt á að nöldra ef þú situr heima og tekur ekki þátt. Við mæðginin höfðum talsvert fyrir þessu, gerðum okkar lýðræðislegu skyldu og eru atkvæðin nú komin til Íslands. Við vorum ánægð með okkur og verðlaunuðum okkur auðvitað með góðum hádegisverði og notalegri samverustund.

Þegar ég var í pólitíkinni fannst mér alltaf skemmtilegast að hitta unga kjósendur, fara í framhaldsskólana og taka þátt í eldheitum umræðum um það sem þeim lá á hjarta. Stjórnmál snúast nefnilega um meira heldur en fjárlög og vaxtahækkanir, þau snúast um allt það sem okkur viðkemur. Og við getum haft áhrif með því að taka þátt í pólitísku starfi – ég mæli sannarlega með því. En umfram allt þá höfum við áhrif með því að taka þátt og kjósa og ég vil sérstaklega hvetja unga kjósendur til dáða.

Kannski var þessi pistill sem ég þurfti til að hrista af mér pólitíska meðvitundarleysið – aldrei að vita nema að afmælisveisla yngri sonarins, sem á einmitt afmæli á kjördag, snúist upp í kosningavöku á Rue d‘Aguesseau!