„Ég get læknað þig“ - Baráttusaga Sóleyjar í Suðurnesjamagasíni
Sóley Björg Ingibergsdóttir er opinská og ófeimin þegar hún ræðir lífsreynslu sína í Suðurnesjamagasíni í kvöld. Hún greindist með krabbamein fyrr á árinu sem hefur tekið mikinn toll í lífi hennar. Í viðtali við Víkurfréttir segist hún ekki vera sama Sóley og hóf baráttuna sem á tímabili var algjört helvíti. Það var hins vegar mikill gleðidagur þegar læknirinn hennar hringdi nokkrum dögum eftir umfangsmiklar sýnatökur og sagði: „Ég get læknað þig“.
Sóley Björg var aðeins 26 ára gömul þegar hún greindist með krabbamein í hægra brjósti. Þar sem Sóley er með BRCA2 arfberi voru bæði brjóst hennar fjarlægð með skurðaðgerð í sumar auk eitla við hægri handlegg. Hún hefur nú nýlokið við erfiða lyfja- og geislameðferð og segir áhorfendum Suðurnesjamagasíns sögu sína í einlægu viðtali í þessari viku.
Þátturinn er á dagskrá Hringbrautar og vf.is á fimmtudagskvöld kl. 19:30 og er helgaður þessu eina málefni.
Í viðtalinu lýsir Sóley því hvernig krabbameinsferlið hefur verið sem helvíti og hvernig þar er fyrir unga konu, aðeins 26 ára, að fá þær fréttir að hún sé með krabbamein og fjarlægja þurfi bæði brjóst hennar. Hún sýnir áhorfendum einnig myndir úr ferlinu. Þá stendur nú yfir ljósmyndasýning í Gallery Ramskram, Njálsgötu 49 í Reykjavík, þar sem sýndar eru myndir sem Þórdís Erla Ágústsdóttir tók í krabbameinsmeðferð Sóleyjar.