Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
fimmtudaginn 26. september 2024 kl. 22:41

Aukin hætta fyrir Voga í næstu eldsumbrotum

Aukin hætta er fyrir Voga á Vatnsleysuströnd í næstu atburðum sem geta orðið á Sundhnúkagígaröðinni. Ein af þeim sviðsmyndum sem Veðurstofa Íslands birti á íbúafundi í Sveitarfélaginu Vogum í kvöld gerir ráð fyrir eldgosi á svipuðum slóðum eða norðaustar en síðasta eldgos kom upp þann 22. ágúst síðastliðinn. Húsfyllir var á íbúafundinum, sem haldinn var í Tjarnarsal Stóru-Vogaskóla.

Hraun mun þó ekki ógna byggð í Vogum á fyrstu stigum og hafa yfirvöld meiri áhyggjur af loftmengun vegna eldgosa. Þá kom fram á fundinum að ekki er talin hætta á að kvikugangur nái undir byggð í Vogum eins og í hamförunum við Grindavík 10. nóvember í fyrra. Varnargarðar eru þó til skoðunar við byggðina í Vogum en gríðarlegt magn af hrauni þarf þó að renna áður en það myndi ná að Reykjanesbraut og Vogum. Þó verður að horfa til þess að gosin verða stærri með hverjum atburðinum sem verður og meira magn kviku kemur upp í hverju gosi.

Víkurfréttir ræddu við Víði Reynisson, sviðsstjóra Almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, eftir íbúafundinn í kvöld. Viðtalið er í spilaranum hér að ofan.

Nánar verður fjallað um íbúafundinn á vef Víkurfrétta á morgun, föstudag.

Húsfyllir var á íbúafundinum í Vogum í kvöld. VF/Hilmar Bragi