Matti Óla: „Bíddu, ætli ég sé dáinn?“
Sjómaðurinn Matti Óla hefur komist í hann krappann á sjónum, lent í sjávarháska tvisvar en líka tekið þátt í björgun tveggja skipverja. Upplifunin að vera í brú Steindórs GK berjast um í brimi undir Krýsuvíkurbjargi, fyrir 30 árum, markaði líf Matta Óla. Hann átti síðan eftir að tapa aleigunni í hruninu, upplifa erfiða ástvinamissi og loks að lenda í því að velta olíuflutningabíl í Ísafjarðardjúpi. Þá hélt Matti að hann væri dáinn. Hér er sagan af bílslysinu.
Eftir að hafa keyrt stóra olíuflutningabíla í tæp tuttugu ár lenti Matti Óla í ótrúlegu óhappi í Ísafjarðardjúpi með 40 þúsund lítra af bensíni í tönkunum. Hann missti stjórn á bílnum sem endaði á stórum kletti. Þar rankaði Matti Óla í bílstjórasætinu, horfði upp til himins og hélt að hann væri kominn yfir móðuna miklu.
„Já, ég hef starfað núna í áratugi við að flytja olíu um landið, og það eru tvær gerðir af bílstjórum. Það eru þeir sem hafa velt þessum bílum, og þeir sem hafa ekki gert það. Ég er í fyrri hópnum. Ég hef velt svona bíl. Það var í janúar 2012 og ég var á ferðinni inni í Ísafjarðardjúpi. Það er komið fram á kvöld, vegurinn er auður en það er rigningarúði. Búið að vera fínasta færi, en svo kem ég inn í Hestfjörð og er að koma inn í botn á firðinum þegar ég er allt í einu kominn út á svartan ís, alveg rennandi blautan svartan ís. Ég finn bara hvernig ég er að missa bílinn, sem betur fer var ég ekki á mikilli ferð, ég var ekki á nema svona 60-70 kílómetra hraða, en á fulllestuðum bíl, með yfir 40 þúsund lítra af bensíni í bílnum. Ég er að slást við bílinn og finnst ég vera að ná tökum á honum, þá kemur svona smá hnykkur á hann og þá finn ég það, og maður gerði sér alveg grein fyrir því, að þá var ég er búinn að missa bílinn. Það var bara þannig. Bíllinn snýst á götunni og það er klettur beint á móti, ég sé bara hvernig hann kemur æðandi á móti mér. Það kemur svona augnablik, ég var samt alveg sallarólegur. „Jæja, þá er þetta búið kallinn minn.“ Og ég keyri beint inn í klettinn og hann var bara þverhnípt stálið.
En ég var svo heppinn að vagninn var ekki alveg beint á eftir bílnum. Sem gerir það að verkum að þegar ég keyri inn í klettinn, þá ýtir vagninn bílnum til hliðar og skautar svo með honum. Ef hann hefði verið beint fyrir aftan, þá hefði hann kramið mig upp í klettinn. En hann snýst, fer til hliðar við mig og veltur. Ég rotaðist ekki en svona hálf vankaðist og ég þurfti smá tíma til að átta mig á því þegar allt var yfirstaðið hvar ég var og hvað var í gangi. Ég ligg í bílstjórasætinu og horfi út um framrúðuna sem var farin og það rignir á andlitið á mér. Í eitt augnablik hugsa ég með mér „bíddu, ætli ég sé dáinn?,“ en það var ekki, ég var ennþá hérna megin. Fékk þarna einn séns í viðbót. Þeir eru orðnir nokkrir. Ég klöngrast út úr bílnum, út um framrúðuna og horfi niður og þá voru bara fleiri fleiri metrar niður, því að vagninn lá á hliðinni utan við veginn og bíllinn stóð svona upp á endann, ofan á vagninum. Og ég var í bílstjórasætinu þarna uppi. Ég bara trúði þessu ekki, hvernig þetta gat verið svona. En ég náði að klöngrast niður bílinn og niður á vagninn og stökkva niður á veg. Það var svartamyrkur og á meðan á þessu gengur þá er einn annar bíll að keyra í djúpinu. Hann keyrir framhjá mér akkúrat þegar ég er að klöngrast út úr bílnum. Ég lá alveg til hliðar við veginn og hann keyrir alveg meðfram flakinu, lendir ekki á því. Hann þurfti einhverja hundruð metra til að stoppa bílinn en nær því og kemur labbandi til baka með sígarettu í kjaftinum. Og þarna flæddu þúsundir lítra af bensíni um Hestfjörðinn. Ég sé bara glóðina þegar hann kemur nær og nær og ég kalla til hans og bið hann um að drepa í sígarettunni því það flæddi þarna bensín um allan veg. En hann karlgreyið, fór bara í hálfgert taugaáfall. Hann drap í sígarettunni og var í verra ástandi heldur en ég sem var sallarólegur yfir þessu, en hann var alveg í taugahrúgu ef hann hefði nú sprengt þetta allt saman upp. En þetta fór nú allt vel.“
Það hefði nú orðið bíómyndasprengja?
„Já, það hefði nú bara enginn orðið vitni af því nema við tveir því það er langt yfir á Súðavík. Það tók þá langan tíma að komast en hann var með síma og náði að hringja á eftir hjálp. Það var stórmál að komast til okkar vegna hálku, bæði slökkvilið, lögregla og sjúkrabíll. Ég var fluttur beint til Ísafjarðar á sjúkrahúsið þar, ég bað nú um að fá að vera þarna á staðnum að aðstoða þá við að ganga frá en þeir vildu það ekki, þeir vildu senda mig í einhverja skoðun. En það var ekkert að mér, bara sært stolt.
Að vera kominn í hópinn sem hafði velt olíuflutningabíl?
„Já, fram að þessu var ég í seinni hópnum, sem hafði ekki velt. En svona er nú lífið.“
Myndina af slysstað tók Hafþór Gunnarsson.