Sjónvarp: Hasar í hrauninu við Grindavík
– í nýrri myndskreyttri barnabók Sigríðar Etnu
Barnabókin Hasar í hrauninu er komin úr prentun. Bókin fjallar um vinina Þórkötlu, Gnúp og Járngerði. Þau þyrstir í ævintýri og ákveða að fara að leika sér í hrauninu í kringum bæinn sinn. Þar kynnast þau hraunbúunum Seltu, Súld, Frosta og Varma. Saman lendir hópurinn í óvæntum atburði sem leiðir þau í spennandi ferðalag í hrauninu. Bókin minnir á mikilvægi vináttunnar og hve nauðsynlegt það sé að standa saman og sýna hugrekki þegar á reynir. Höfundur bókarinnar er Sigríður Etna Marinósdóttir en Freydís Kristjánsdóttir, frænka Sigríðar Etnu, myndskreytti.
„Ég lofaði fyrir ári síðan að ég ætlaði að gera bók um Grindavík og setti svolitla pressu á sjálfa mig. Bókin er um vinina Gnúp, Járngerði og Þórkötlu sem ákveða að fara út í hraun eftir skóla og þar kynnast þau hraunbúum. Þau fara með þessum fjórum hraunbúum, sem eru systkini, í ævintýraferð hér í kringum Grindavík.“
– Og gerast ævintýri?
„Já, heldur betur. Þau byrja á að fara upp á Þorbjörn, það umtalaða fjall, og þar kemur hrútur sem stelur derhúfunni hans Gnúps. Þau fara að eltast við hrútinn og þess vegna fara þau hér í kringum bæinn. Þau fara upp á Þorbjörn og niður í Selskóg, að Gálgaklettum og út á Hópsnesið. Þau fara þar sem bryggjan er og í fjöruna við Bótina, Einisdal, Bláa lónið og svo kemur í ljós hvað gerist eftir það.“
– Þannig að þú ert að tengja söguna við staði hér í kringum Grindavík?
„Algjörlega og þetta eru í rauninni perlurnar í Grindavík. Ég spurði nokkrar manneskjur áður en ég skrifaði bókina hvaða staðir því myndu finnast spennandi á svæðinu og það var einn staður sem ég hafði ekki hugsað um eða farið á og það var Einisdalur. Ég hef núna farið tvisvar þangað og það er ótrúlega flottur staður.“
– Þannig að þetta er ævintýrabók sem gerist í sjávarbænum Grindavík?
„Já og mér fannst einmitt mikilvægt, þar sem þetta er eitt stærsta sjávarplássið á landinu, að höfnin kæmi við sögu. Hafnarvörðurinn er í bókinni og bátarnir sjást vel. Svo langaði mig einnig að það væru dýr í bókinni, því börn elska dýr og dýrin laða að sér og þess vegna er hrúturinn kjörið tækifæri.“
– Þú sagðir okkur fyrir viðtalið að það væri stolt meðal bæjarbúa en ekki allir með sögulega þáttinn á hreinu?
„Það er það sem ég var að upplifa. Ef maður fór út fyrir Grindavík þá voru allir Grindvíkingar í gulu og stoltir – en þegar maður fór að skoða umhverfið þá voru fáir með svör og því fór ég á bókasafnið og sótti mér bækur og fann upplýsingar. Svo var ég að segja manninum mínum, sem er fæddur og uppalinn hér, vissir þú að þetta fjall heitir þetta út af þessu. Ég er búin að læra mikið um Grindavík og líka þegar ég var að gera bókina því ég vildi vera með svo margt á hreinu. Hvaða nöfn átti ég að nota og ýmislegt þannig.“
– Er bókin hugsuð fyrir ákveðinn aldurshóp?
„Þetta er erfið spurning því það er svo ólíkt hvernig börn eru. Þú getur alltaf sýnt tveggja ára barni þessar myndir og talað út frá þeim en þetta er alveg klárlega bók fyrir börn á aldrinum þriggja til tíu ára. Þetta er bók fyrir börn á öllu landinu en klárlega bók sem allir Grindvíkingar verða að eiga, alla vega grindvísk börn. Ég vona að foreldrar og skólastofnanir nýti bókina og kenni söguna um Járngerði og Þórkötlu, þegar verið var að nema land hérna og fari á þessa staði sem eru í bókinni.“
Lestur er mikilvægur
„Það er alltaf verið að tala um að við eigum að lesa fyrir börnin, sem er hárrétt. Foreldrar verða líka að lesa, því við erum fyrirmyndir. Það þarf líka einhver að skrifa svona bækur með mörgum myndum fyrir börn til að kveikja áhugann þegar þau eru ung og að þau sjái okkur þegar við erum líka að lesa. Ekki bara lesa fyrir börnin ykkar, lesið líka sjálf.“
Ævintýrið í hrauninu er ekki fyrsta barnabók Sigríðar Etnu. Hún hefur áður gefið út tvær bækur um systkinin Etnu og Enok. Fyrri bókin er um sveitaferð þeirra og seinni bókin þegar þau hitta jólasveinana en sögusviðið er á Tálknafirði, þar sem Sigríður Etna er fædd og uppalin. Hún segist hafa verið undir pressu að koma með bók sem tengdist Grindavík, sem nú er komin út. Þriðja og síðasta bókin um Ernu og Enok er síðan í vinnslu núna og mun gerast á þeim Covid-tímum sem nú eru.
Sigríður Etna hefur búið í Grindavík síðustu sex ár. Þegar hún flutti til Grindavíkur fannst henni ekki vera nein fjöll á svæðinu, ólíkt því sem er á Tálknafirði sem er umvafinn fjöllum. Hún segist hafa grínast með að Þorbjörn væri bara hóll. Það var ekki fyrr en hún fór í hjólatúr austur fyrir bæinn og var að koma hjólandi niður Festarfjall og stoppaði til að njóta útsýnis að hún upplifði fjöllin og fegurðina og var sannfærð um að nú væri hún orðin Grindvíkingur. „Vá hvað þetta er fallegt og ég fann fyrir einhverju stolti. Nú upplifi ég Þorbjörn sem mjög stóran fyrir mér,“ segir hún brosandi.
Sigríður Etna segir að það sé ekki mikið upp úr því að hafa að vera rithöfundur í dag. Hún sé hins vegar með svo margar hugmyndir í kollinum sem hún þurfi að koma frá sér. Hún upplifir rithöfundinn í sér frekar sem áhugamál og það sé ástríðan fyrir því að segja sögur sem haldi henni í faginu. „Það eru ekki peningarnir,“ segir hún og vonar að fólk taki vel í söguna um Hasarinn í hrauninu við Grindavík.
– Við verðum samt að spyrja þig hvort jarðskjálftar komi við sögu?
„Sko. Það verður náttúrlega að vera jarðskjálfti eftir árið 2020. Söguhetjurnar fara í Einisdal þar sem þau ná hrútnum en þá kemur þessi svakalegi jarðskjálfti og þau missa takið á hrútnum og hann hleypur í burtu,“ segir Sigríður Etna um nýjustu bókina sína.