Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Hannar eigin fatalínu í Eldey á Ásbrú
Sunnudagur 22. apríl 2012 kl. 14:02

Hannar eigin fatalínu í Eldey á Ásbrú

Snædís Guðmundsdóttir er nýlega útskrifaður klæðskeri frá Tækniskóla Íslands. Námið tekur fjögur ár og er mjög ítarlegt þar sem farið er djúpt í saumana, í orðsins fyllstu merkingu. Hún hefur unnið með náminu og verið að sauma fyrir vini og ættingja.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Eftir útskriftina ákvað hún hins vegar að setja á stofn eigið fyrirtæki og leitaði til frumkvöðlasetursins á Ásbrú. Í Eldey, byggingu 506 við Grænásbraut, hefur Snædís nú opnað fyrirtæki sitt undir nafninu DíS íslensk hönnun.


„Hér á Ásbrú er ég að búa til mína fatalínu sem ég er að fara af stað með. Ég sé um allt sjálf, að hanna, sníða og sauma. Í framhaldinu er síðan stefnt að því að fara með fatalínuna inn í aðrar búðir eða opna sjálf verslun“.


Saumastofan hjá Snædísi er svokölluð opin vinnustofa þar sem fólk getur komið og skoðað það sem hún er að gera og verslað við hana á staðnum. Þá býður hún upp á þjónustu við þá sem eru með sérþarfir eða þurfa að láta sérsauma á sig fatnað. Þannig tekur hún að sér að sauma brúðarkjóla og fermingarkjóla, svo eitthvað sé nefnt.


Hjá DíS íslenskri hönnun er ekki verið að fara í fjöldaframleiðslu, heldur verða aðeins framleiddar nokkrar flíkur af hverju.


Snædís segist hafa haft áhuga á saumaskap alla æfi. Hún hafi saumað mikið sem krakki en tekið sér pásu upp úr unglingsárunum og þá fengið áhuga á öðrum hlutum. Saumaáhuginn hafi hins vegar alltaf blundað í henni og hún síðan ákveðið að drífa sig í nám og nema fræðin fyrir um fjórum árum.
Aðspurð hvort það hafi ekki verið vandamál að taka sig upp og fara í nám, þá segir Snædís að það hafi ekki verið erfitt. Þá segir hún að það hafi komið á óvart hvað hún hafi haft mikinn aga til námsins.


DíS íslensk hönnun er ekki eina saumakonan í húsinu því handan við ganginn í Eldey er MYR Design að framleiða sína fatalínu. Þessi tvö fyrirtæki hafa ekkert unnið saman en ætla þó að halda sameiginlega tískusýningu á Ljósanótt. Þær viti af hvor annarri og séu alls ekki í samkeppni.


Opið er hjá DíS íslenskri hönnun alla virka daga frá kl. 10-17. Á Facebook er slóðin: http://www.facebook.com/DisIslenskHonnun



Myndin: Snædís Guðmundsdóttir, klæðskeri, hefur hreiðrað um sig í frumkvöðlasetrinu Eldey á Ásbrú.