Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Íslandsbanki skoðar að fjölga hraðbönkum á svæðinu
Föstudagur 20. maí 2016 kl. 08:00

Íslandsbanki skoðar að fjölga hraðbönkum á svæðinu

„Það hefur staðið til í einhvern tíma að fjölga hraðbönkum hjá okkur á svæðinu og er slíkt á áætlun hjá okkur. Við höfum verið að skoða staðsetningar og komin vel áleiðis í þeirri vinnu. Við vonumst því til þess að geta brugðist við eftirspurn eftir fleiri hraðbönkum á svæðinu mjög fljótlega,“ segir Sighvatur Ingi Gunnarsson, útibússtjóri Íslandsbanka í Reykjanesbæ, í skriflegu svari til Víkurfrétta við spurningu þess efnis hvort til standi hjá bankanum að setja upp hraðbanka á Fitjum eða í Innri-Njarðvík.
Töluverð umræða hefur verið á samfélagsmiðlum síðustu daga um vöntun á hraðbönkum á Fitjum eða Innri Njarðvík. Flestir eru hraðbankarnir í nýjum miðbæ Reykjanesbæjar í útibúum Íslandsbanka og Landsbanka og í verslunarmiðstöðinni Krossmóa. Það er því um nokkurn veg að fara fyrir flesta bæjarbúa til að komast í hraðbanka til að taka út reiðufé eða gera önnur viðskipti í hraðbanka.
 
Landsbankinn rekur 8 hraðbanka á 7 stöðum á Suðurnesjum. Í svari við fyrirspurn Víkurfrétta segir Einar Hannesson, útibússtjóri Landsbankans í Reykjanesbæ, að  Landsbankinn endurskoði þjónustuframboð sitt reglulega og hefur m.a. kannað hvort rétt sé að setja upp hraðbanka  á Fitjum eða í Innri-Njarðvík. „Engin ákvörðun liggur þó fyrir. Þegar ákvarðanir um staðsetningu hraðbanka eru teknar er miðað við ýmsa þætti, s.s. fjölda íbúa, þróun verslunar og þjónustu, vegalengd í næsta hraðbanka, hvort það sé fjárhagslega hagkvæmt að reka viðkomandi hraðbanka o.s.frv.  Landsbankinn rekur víðfeðmasta útibúanet landsins og jafnframt víðfeðmasta hraðbankanetið. Hátt í 80 hraðbankar eru á um 60 stöðum um allt land. Hraðbankar Landsbankans á Suðurnesjum eru í útibúinu í Reykjanesbæ, í Nettó í Reykjanesbæ, í útibúi bankans í Grindavík, við Bláa lónið, í Sandgerði, í Vogum og í Garði,“ segir
Einar Hannessson, útibússtjóri Landsbankans í Reykjanesbæ.
 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024