Reykjanesapótek stuðlar að auknu öryggi við lyfjanotkun
– Talið er að ekki nema 30–50% lyfja séu tekin rétt
Sigríður Pálína Arnardóttir, lyfjafræðingur og eigandi Reykjanesapóteks, svífur um á bleiku skýi þessa dagana en Reykjanesapóteki var veittur þriggja milljóna króna styrkur frá heilbrigðisráðuneytinu til að ráðast í tilraunaverkefni sem miðar að því að auka öryggi lyfjameðferðar og bæta meðferðarheldni sjúklinga.
Þjónusta sem þessi er þekkt erlendis undir heitinu „new medicine service“ en hefur fengið heitið lyfjastoð á íslensku. Markmiðið er að draga úr rangri lyfjanotkun, tryggja öruggari innleiðingu meðferðar hjá sjúklingum, bæta lyfjaöryggi þeirra sem nota mörg lyf og auka öryggi lyfjanotkunar þegar um áhættusöm lyf er að ræða. Rannsóknir benda til að mest þörf á leiðsögn og upplýsingagjöf sé á fyrstu vikum lyfjameðferðar – á fyrstu dögunum til að stuðla að meðferðarheldni og um mánuði eftir að meðferð hófst til að veita sjúklingi upplýsingar ef fram hafa komið einhver vandamál tengd lyfjagjöfinni.
Tilraunaverkefni Reykjanessapóteks miðast við að bjóða sjúklingum sem eru að hefja lyfjameðferð þátttöku í verkefninu. Viðkomandi verður boðið viðtal við lyfjafræðing apóteksins einni til tveimur vikum eftir meðferð og svo annað viðtal þremur til fimm vikum síðar. Samstarf verður við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS) sem á þess kost að vísa sjúklingum á þessa þjónustu.
Búin að vera með þetta verkefni í maganum í mörg ár
Þeir sem versla lyfin sín í Reykjanesapóteki ættu að þekkja þessa brosmildu konu í hvíta sloppnum sem er ávallt öll af vilja gerð til að liðsinna þeim sem til hennar leita. Þjónustulundin hreinlega geislar af lyfsalanum og það kunna viðskiptavinir hennar vel að meta. Víkurfréttir tóku hús á Sigríði Pálínu Arnardóttur, betur þekkt sem Sigga Palla, og fengu að heyra meira um tilraunaverkefnið lyfjastoð.
„Ég er búin að vera að vinna að þessu í mörg ár, þetta er búinn að vera draumurinn til margra ára,“ segir Sigríður Pálína, lyfjafræðingur og eigandi Reykjanessapóteks. „Það er æðislegt að þetta sé loksins komið í gegn.“
Kemur þú kannski með þessa hugmynd með þér frá Noregi, bjóstu ekki þar?
„Jú, ég var búin að búa þar og vinna í mörg ár. Þar kynntist maður þessu náttúrlega svona, eins og við erum að gera þetta núna. Þetta er prógram að norskri fyrirmynd.
Þetta er svona lyfjafræðileg ráðgjöf, þannig að maður geti komið í apótek og farið yfir verkunarmáta og milliverkanir, hvenær maður á að taka inn lyfin og svoleiðis.“
Það sem læknar ættu að vera að ráðleggja með eða hvað?
„Já og þá er þetta svona samstarf milli lækna og lyfjafræðinga. Þú ferð til læknis og færð ávísað lyfi, svo vakna kannski upp spurningar eftir að maður er kominn heim og þá er ágætt að geta pantað tíma í apóteki og fengið viðtal því tengt.
Það má segja að við lyfjafræðingar séum framlína heilbrigðisþjónustunnar, aðgengi að okkur er svo gott. Það er gott að nýta okkur og það viljum við.“
Léttir á heilbrigðisstofnunum
Mikið hefur farið fyrir umræðu um vanda heilbrigðiskerfisins á síðustu misserum, vöntun er á starfsfólki og álag á heilbrigðisstarfsfólk, eins og lækna og hjúkrunarfólk, er gríðarlega mikið um land allt. Það álag er ekki síst hér á Reykjanesi þar sem Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, fjársvelt stofnun, nær ekki að sinna öllum þeim íbúafjölda sem býr orðið hér með þeirri gríðarlega hröðu íbúafjölgun sem hefur átt sér stað. Sigga Palla bendir á að með því að færa lyfjaráðgjöf yfir í apótekin létti það upp að vissu marki á læknum.
Eru mörg apótek að taka þátt í þessari tilraun?
„Þetta er svona tilraunaverkefni sem heilbrigðisráðuneytið veitir okkur. Verkefnið kallast lyfjastoð og er til reynslu í sex mánuði, við metum svo stöðuna eftir þrjá mánuði; hvað hefur gengið vel og úr hverju megi bæta. Ef vel tekst til er meiningin að öll apótek, sem þess óska, komi til með að veita þessa þjónustu.“
Tilraunaverkefnið lyfjastoð beinist í fyrstu atrennu einungis að blóðþrýstingslyfjum, blóðþynningar-/segavarnarlyfjum og blóðfitulækkandi lyfjum en Sigga Palla segir að þau myndu vilja veita ráðgjöf með öllum áhættulyfjum.
„Auðvitað hefði maður mestan áhuga á að taka þátt í að leiðbeina við inntöku á öllum áhættulyfjum, allri áhættumeðferð. Til dæmis hvernig sé hægt að trappa niður ávana- og fíknilyf. Það eru blóðþrýstingslækkandi, blóðfitulækkandi og blóðþynningarlyf sem þetta verkefni einskorðast við en auðvitað eru allir velkomnir í viðtöl hjá lyfjafræðingi í sambandi við alla lyfjagjöf. Það er hluti af okkar sérhæfða starfssviði en því miður veit almenningur ekki alltaf að þessi þjónusta er til staðar.“
Þetta er enginn ákveðinn úrtakshópur sem er að taka þátt. Á þetta við alla sem eru á þessum lyfjum?
„Já, læknirinn getur vísað á okkur og við höfum fengið nokkra svoleiðis, við erum byrjuð að veita viðtalstíma. Læknirinn getur sett ábendingu á lyfseðilinn inni í lyfjastoð, eins og við köllum þetta, og þá pantar viðkomandi tíma. Svo getur maður líka komið beint af götunni og óskað eftir viðtali. Viðtalið fer fram eftir stöðlum, spurningaskeminn eru staðlaður, þannig að það sé hægt að mæla árangurinn. Þetta er afmarkað verkefni.“
Þið byrjið á þessum blóðfitulækkandi lyfjum og fleirum, fer það svo eftir reynslunni hvort þið farið í að veita ráðgjöf með fleiri lyfjum?
„Já, við vonumst til þess að öll apótek muni taka þátt í þessu eftir þessa sex mánuði. Það er líka í umræðunni að bæta lyfjagjöf við sykursýki 2 inn í lyfjastoð, það er hópur sem væri gaman að einblína á – og kvíðalyfin, þunglyndislyfin og öll áhættulyfin. Lyfjaform; hvernig á að nota augndropa, hvernig á að nota sprautulyf, listinn heldur áfram.“
Nú þurftum við að gera hlé á samtali okkar því Sigga Palla þurfti að taka á móti viðskiptavini þótt komið væri vel fram yfir opnunartíma apóteksins en í þessu tilviki hafði heilsugæslan sett sig í samband við Siggu Pöllu og beðið hana að hafa opið örlítið lengur þar sem sjúklingur væri á leið til hennar.
Röng lyfjanotkun er lífshættuleg
Talið er að ekki nema 30–50% lyfja séu tekin rétt en það sé mjög áhættusamt að taka lyfin rangt.
„Þetta er okkar innlegg inn í það að gera lyfjainntöku áhættuminni. Oft þegar fólk verður vart við aukaverkanir er það tregt að hafa sambandi við lækna, það veit af álaginu sem þeir eru undir og vill ekki trufla þá. Þetta er gott samspil milli heilbrigðisstétta, einn hlekkurinn í því að láta fólki líða betur og hjálpa því að ná bata,“ segir Sigga Palla.
Eins og þetta er núna þá eruð þið og HSS að vinna saman að þessu verkefni. Veistu af hverju þið urðuð fyrir valinu?
„Sko, ég var eiginlega búin að vinna að þessu verkefni síðan 2004. Ég fór svo til Noregs árið 2004 og þá kynntist ég betur þessari ráðgjöf þar. Í ár höfum við staðfast verið að vinna að þessu verkefni hér í apótekinu með hliðsjón að því sem er að gerast í Noregi. Ég hafði samband við norska apótekarafélagið og þeir vildu endilega að við notuðum öll þeirra gögn, þeim finnst gaman að fygjast með því sem við erum að gera en auðvitað erum við búin að staðfæra það.
Landlæknisembættið og Alþjóðlega heilbrigðisstofnunin (WHO) hafa verið að vinna að verkefninu Lyf á skaða og það var svolítið til að ýta okkur út í að fara alla leið. Nú skildum við gera þetta. Eins eru klínískir lyfjafræðingar farnir að vinna á heilsugæslum í Reykjavík, eru þar að fara yfir lyfjasögu og lyfjarýni, og það varð líka til þess að örva okkur – nú skildum við hoppa á vagninn og framkvæma þetta.“
Sigga Palla segir að í verkefninu séu veitt tvö viðtöl sem lyfjafræðingar framkvæma með stöðluðum spurningum, þeir hafa farið í gegnum sérstaka endurmenntun í tengslum við þessa ráðgjöf.
„Við erum áskrifendur að norsku endurmenntunarprógrammi sem við förum öll í gegnum til að geta veitt sem besta ráðgjöf. Þótt við séum öll með okkar próf þá þarf maður alltaf að ganga í gegnum endurmenntun. Við erum fjórir lyfjafræðingar hér í apótekinu svo þess vegna höfum við tíma til að gera þetta. Það er líka þáttur í að við hrintum þessu af stað.
Við göngum öll í gegnum þetta prógram, svo unnum við þetta með Lyfjastofnun, ráðfærðum okkur við klíníska lyfjafræðinga á Landspítalanum og lyfjafræðinga í háskólanum. Við vorum búin að vinna áætlun um hvernig við ætluðum að vinna þetta og lögðum það fyrir þessa aðila, þeim leist bara vel á það sem við vorum með í höndunum og þá var bara næsta skref að fara með þetta í ráðuneytið. Síðan höfum við verið að vinna þetta með ráðuneytinu í nokkra mánuði og þetta er niðurstaðan – við fáum styrk til að vinna þetta verkefni.
Þetta er svo gaman, alveg stórkostlegt. Gekk hratt og vel fyrir sig og við erum í skýjunum yfir niðurstöðunni.“
Þú hefur þá verið farin að huga að þessu áður en þú fórst til Noregs.
„Já, ég var búin að lesa mér til um þetta. Ég var búin að vera með reykbindindisnámskeið hér áður og það er í raun ekkert ósvipað þessu því þá vorum við bæði með hópaviðtöl, þar sem við hittumst í apótekinu á kvöldin. Ég hafði farið til Danmerkur að læra það, þetta var ekkert ósvipað AA eða þannig, þetta voru alvöru fundir með flottu prógrammi. Svo var ég vorum við búin að þróa það yfir í einkaviðtöl þar sem var pantaður tími svipað og er gert í lyfjastoð.
Maður var líka að spyrja sig: „Af hverju að verða lyfjafræðingur ef maður er ekkert að segja fólki hvernig lyfin virka?“ Það má segja að þegar ég útskrifast vorum við að blanda lyf, fengum lyfseðla sem voru bara forskriftir og maður þurfti að búa til mixtúrur, krem og svoleiðis. Svo má eiginlega segja að apótekslyfjafræðin sé búin að vera í hálfgerðri kreppu síðan, þekking lyfjafræðinga ekki búin að nýtast nógu vel síðan starfið breyttist og varð eiginlega bara afgreiðslustarf. Við erum of mikið alltaf á bak við einhvern vegg, langt frá skjólstæðingnum. Þetta er eitthvað sem við erum búin að tala um í mörg ár í stéttinni svo hér er draumurinn sannarlega að rætast – og við ætlum að gera þetta vel svo ekki verði hætt við verkefnið,“ segir Sigga Palla að lokum og það fer ekkert á milli mála að henni er þetta hjartans mál.