Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Sameina krafta sína í hönnun og framleiðslu 
á fallegum vörum fyrir heimilið
Mæðgurnar í VIGT, f.v. Guðfinna Magnúsdóttir, Hrefna Magnúsdóttir, Hulda Halldórsdóttir og Arna Magnúsdóttir.
Jón Hilmarsson
Jón Hilmarsson skrifar
föstudaginn 5. nóvember 2021 kl. 06:42

Sameina krafta sína í hönnun og framleiðslu 
á fallegum vörum fyrir heimilið

Hönnunarhúsið VIGT hlaut menningarverðlaun Grindavíkur

VIGT er samstarfsverkefni mægðna í Grindavík sem sameina krafta sína í hönnun og framleiðslu á fallegum vörum fyrir heimilið. VIGT hefur verið starfrækt frá árinu 2013 og hlaut á dögunum menningarverðlaun Grindavíkur.

Í fallegu uppgerðu húsi nálægt höfninni í Grindavík hafa þær mægður, Hulda Halldórsdóttir og dætur hennar Arna, Guðfinna og Hrefna Magnúsdætur komið sér vel fyrir í húsi sem áður fyrr var vigtarhús Grindavíkurhafnar. Nafnið VIGT vísar í þessa fyrrum starfsemi hússins.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Blaðamaður hitti Guðfinnu Magnúsdóttur í VIGT á dögunum og ræddi við hana um það sem þær mæðgur eru að gera, hvað er framundan og verðlaunin sem þær hlutu.

Aldar upp á trésmíðaverkstæði

„Foreldrar okkar hafa rekið trésmíðaverkstæðið Grindin frá árinu 1979. Við ólumst upp við að skoða byggingar og byggingasvæði í Reykjavík á sunnudagsrúntum og höfum lifað og hrærst á þessu sviði. Áhugi okkar á hönnun fyrir heimilið hefur alltaf verið til staðar. Við höfum ólíkan bakgrunn í menntun sem við nýtum vel saman. Við höfðum allar unnið með einum eða öðrum hætti hjá Grindinni og sáum tækifæri í að búa til húsgögn og fylgihluti fyrir heimilið. Hluti sem hafa notkunargildi og fegra heimilið. Við nýtum tækjakost verkstæðisins og í mörgum tilfellum notum við þann efnivið sem þar fellur til. Innblástur að verkunum sækjum við að miklu leyti í hverja aðra“.

Menningarverðlaunin hvatning

„Menningarverðlaunin er góð viðurkenning á því sem við höfum verið að gera og hvatning til að halda áfram. Við höfum frá upphafi lagt áherslu á staðbundna framleiðslu og það er gaman þegar því er veitt eftirtekt. Við fáum heimsóknir frá fólki alls staðar að af landinu og það er ómetanlegt. Tímalaus vörulína hefur verið okkar leiðarljós og að vörurnar njóti sín óháð tískusveiflum“ segir Guðfinna að lokum.