Til leigu (Skólamatur)
Til leigu (Skólamatur)

Íþróttir

Grindvíkingar unnu í háspennuleik
Sverrir Þór var glaður í leikslok.
Sunnudagur 27. janúar 2013 kl. 16:34

Grindvíkingar unnu í háspennuleik

Tæpara mátti það ekki standa

Grindvíkingnar eru komnir í úrslit Powerade-bikars karla eftir spennusigur gegn grönnum sínum í Keflavík. Lokatölur urðu 83-84 þar sem litlu mátti muna að Keflvíkingar næðu í sigurinn á lokasekúndu leiksins. Grindvíkingar voru sterkari aðilinn bróðurpart leiks en Keflvíkingar komu sterkir til leiks í fjórða leikhluta.

Þegar fyrsta leikhluta lauk voru Grindvíkingar með forystu 18-25 og voru þeir töluvert sprækari. Grindvíkingar börðust vel og spiluðu fantagóða vörn. Aaron Broussard byrjaði af krafti hjá gestunum og skoraði 11 stig í fyrsta leikhluta. Grindvíkingar héldu áfram 5-6 stiga forystu en framan af leik var ekki mikið skorað. Keflvíkingar reyndu mikið af þriggja stiga skotum sem einfaldlega voru ekki að rata í mark. Grindvíkingar tóku góða rispu undir lok fyrri hálfleiks og juku forskot sitt í 14 stig. Staðan var 31-45 í hálfleik. Sigurður Ingimundarson var allt annað en hress þegar gengið var til búningsklefa og hefur væntanlega látið menn fá orð í eyra.

Það virtist verður að segjast að leikurinn var ekki mikið fyrir augað og bæði lið hafa oft leikið betur. Um miðbik þriðja leikhluta vöknuðu Keflvíkingar til lífsins og byrjuðu að spila eðlilega. Þegar sex mínútur voru til leiksloka voru Grindvíkingar þremur stigum yfir 67-70 en Darrel Lewis minnkaði muninn í eitt stig. Þakið ætlaði þá að rifna af kofanum og Grindvíkingar slegnir út af laginu. Micahel Craion kom síðan Keflvíkingum yfir og leikurinn virtist vera að snúast heimamönnum í hag. Samuel Zeglinski setti þá niður þriggja stiga körfu og kom Grindvíkingum í gang. Á þessum tímapunkti varð leikurinn fyrst eins og alvöru bikarleikur. Sigurður Gunnar Þorsteinsson braut tvisvar á Vali Orra Valssyni í sömu sókninni og fékk í kjölfarið að setjast á bekkinn. Enda kominn með fimm villur. Staðan var 73-73 þegar fjórar mínútur voru eftir af leiknum. Gríðarlega barátta í gangi enda sæti í úrslitum í húfi. Allt var í járnum og jafnt þegar Þorleifur Ólafsson kom Grindvíkingum yfir 77-79 og strax í næstu sókn stálu Grindvíkingar boltanum. Þannig var staðan þegar innan við mínúta var eftir og Darrel Lewis fór á línuna. Hann setti bæði vítin niður og Grindvíkingar héldu í sókn. Þorleifur fyrirliði reyndist þar vel og hann keyrði að körfunni og skoraði að harðfylgi. 79-81 þegar 34 sekúndur voru eftir á klukkunni.

Michel Craion tróð svo yfir hálfa Grindavíkurvörnina og jafnaði leikinn fyrir Keflavík. Aaron Broussard kom Grindvíkingum aftur yfir eftir mikla baráttu hinum megin. Keflvíkingar áttu boltann þegar 16 sekúndur voru eftir. Valur Orri fann þá Michael Craion í teignum sem skoraði og fékk villu að auki. Hann mmisnotaði vítið og Aaron Broussard náði frákastinu. Valur Orri braut á honum þegar átta sekúndur lifðu leiks. Aaron Broussard sótti að körfunni og á honum var brotið. Hann setti niður seinna vítaskotið og Keflvíkingar héldu í sókn. Á fimm sekúndum komst Billy Baptist alla leið að körfunni og náði skoti. Það dansaði hins vegar af hringnum og Grindvíkingar því sigurvegarar. 83-84 og tæpara mátti það ekki standa.

Tröllatroðsla hjá Craion.

 

Davíð Ingi Bustion leitar að samherja.

 

Valur Orri brunar að körfu Grindavíkur.


Grindvíkingar fagna eftir æsispennandi lokasekúndur.