Langbest - velkomin
Langbest - velkomin

Mannlíf

  • Komst á pall á tískuviku í París
    Peysa Höllu Ben sem komst á pall á tískuvikunni í París.
  • Komst á pall á tískuviku í París
    Halla Ben.
Sunnudagur 26. október 2014 kl. 09:00

Komst á pall á tískuviku í París

Hönnuðurinn Halla Ben lætur drauma sína rætast í Danmörku.

Halla Benediktsdóttir er þekktust undir nafni hönnuðarins Halla Ben. Halla hefur verið að gera góða hluti við að kynna íslenska ull í Danmörku, þar sem hún býr ásamt eiginmanni sínum og kvennalandsliðsþjálfaranum, Hrannari Hólm. Halla var stödd á landinu fyrir skömmu og hélt námskeið í Myllubakkaskóla og hjá MSS. Hún sagði Víkurfréttum frá draumum sínum sem hún hefur heldur betur látið rætast.



Hefur skapað sér sérstöðu
„Um leið og þú hefur skapað þér einhverja sérstöðu þá er auðveldara að finna þig. Þegar maður gúglar ‘íslensk ull í Damnörku’ kemur nafn mitt fljótt upp. Ég hef komist þangað sem ég vil vera,“ segir Halla, sem er „freelance“ hönnuður og starfar með hönnuðum sem ráða hana í ákveðin verkefni. „Merkilegast er að ég hef fengið tækifæri til að vinna með hönnuði sem heitir Anne Sofie Madsen sem er rísandi stjarna í Danmörku. Hún er að gera annað en flestir aðrir og það gerir hana sérstaka. Frábært fyrir konu frá Íslandi að fá tækifæri til að vinna með henni.“ Halla kynntist Anne Sofie í hönnunarnámi sem hún lauk síðasta vetur og var prjón stór hluti af lokaverkefni Höllu. Anne Sofie spurði hana hvort hún gæti ekki búið til peysu eins og að búið væri að leysa upp hluta af henni. „Ég fór heim og gerði 20-30 alls kyns prufur út frá myndinni sem hún lét mig fá. Ég hafði prjónað kraga sem er með sérstökum þræði í og prófaði að prjóna bút og blanda þessum þræði, glow in the dark, inn í. Þegar Anne Sofie sá það sagði hún: Þetta er komið!“

Peysan komst á pall í París
Peysan átti aldeilis eftir að vekja athygli því hún komst alla leið á sýningarpall á tískuviku í París fyrir skömmu. „Ég er líklega fyrsta manneskjan af Suðurnesjum sem á flík á sýningarpalli á þessari tískuviku. Ég gerði mér ekki almennilega grein fyrir því að peysa sem ég gerði væri að fara þangað fyrr en ég sá myndir. Ég hugsaði með mér að ég hefði nú átt að skella mér og mér stóð það alveg til boða. Ég áttaði mig bara ekki á hversu merkilegt þetta var og ég er langelst í hópi Anne Sofie. Næst skelli ég mér til Parísar því ég hef fulla trú á að við verðum þar aftur,“ segir Halla ákveðin.

Kennir Dönum að nota ull
Líf Höllu tók algjöra u-beygju þegar hún flutti til Kaupmannahafnar fyrir fimm árum. Hún er menntuð verkgreinakennari og kennir börnum í Hróarskeldu íslensku einu sinni í viku. Auk þess að vera prjónahönnuður er Halla prjónaráðgjafi. „Hlutirnir breytast og allt í einu er maður farinn að fást við það sem maður er góður í og hefur ákveðna sérstöðu. Þar er ég með íslensku ullina. Eitt af markmiðum mínum hefur verið að kenna Dönum að vera í ull. Mér hefur tekist það. Ég stóð að stórum prjónaviðburði í haust þar sem tólf aðilar fá Íslandi komu og kynntu sínar vörur. Þarna var bæði fræðsla og sala og þetta sló alveg í gegn og verður aftur að ári,“ segir Halla og bætir við að hún reyni sífellt að fá fólk til að koma við ullina og sýna því fram á að hægt er að vinna með hana á alla kanta. „Hún stingur en hún er ódýr og það er vel hægt að mýkja hana.“  



Skartgripir úr gúmmíslöngum
Eitt af því sem Halla nýtti tímann í þegar hún dvaldi hér á landi fyrir skömmu í haustfríi sínu var að halda námskeið fyrir verkgreinakennara á Suðurnesjum í Myllubakkaskóla. „Það er mjög danskt að endurnýta hjólaslöngur og ég hef lært að búa til skartgripi úr þeim. Nú er komið í tísku að hjóla á Íslandi og tilvalið að nýta slöngurnar,“ segir Halla.

Verkgreinakennarar á námskeiði hjá Höllu í Myllubakkaskóla.

 

VF/Olga Björt