Mannlíf

Slakar á í heitu pottunum  eftir góðan sundsprett
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
sunnudaginn 20. september 2020 kl. 07:11

Slakar á í heitu pottunum eftir góðan sundsprett

Falur J. Harðarson segir að tilfinningin fyrir haustinu og vetrinum sé bara góð. „Þetta eru krefjandi tímar sem ber að tækla af skynsemi. Ég held að það sé hollt að einbeita sér að því sem maður hefur stjórn á sjálfur og huga vel að því að rækta sjálfan sig,“ segir hann í Netspjalli við Víkurfréttir.

– Nafn:

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Falur Jóhann Harðarson.

– Árgangur:

1968.

– Fjölskylduhagir:

Giftur Margréti Sturlaugsdóttur. Við eigum saman Lovísu (1994), Elfu (1998) og Jönu (2005). Urður (2003) er fósturdóttir okkar.

– Búseta:

Keflavík.

– Hverra manna ertu og hvar upp alinn?

Ég er sonur Harðar Falssonar og Ragnhildar Árnadóttur og ólst upp á Heiðarvegi 10 í Keflavík.

Falur og Margrét Sturlaugsdóttir, eiginkona hans saman á golfvellinum.

– Hvert var ferðinni heitið í sumarfrínu?

Ég er búinn að þjóta um landið og spila golf á mjög mörgum stöðum eins og Siglufirði, Húsavík, Sauðárkróki, Hellu, Selfossi, Hveragerði, Borgarnesi og Stykkishólmi til að nefna nokkra. Annars var sumarfríið í Aðalvík á Hornströndum.

– Skipulagðir þú sumarfríið fyrirfram eða var það látið ráðast af veðri?

Fríið í Aðalvík var skipulagt en við eltum veðrið til að spila golf.

– Hvaða staður fannst þér áhugaverðast að heimsækja í sumar?

Aðalvíkin er óviðjafnanleg og alltaf yndislegt að koma þangað, lítið breyst frá því ég kom þar fyrst þegar ég var fjöára enda friðað land. Móðuramma mín var fædd og uppalin í Aðalvík og er húsið sem hún ólst upp í í góðu standi og í eigu fjölskyldunnar.

– Hvað kom skemmtilega á óvart í sumar?

Við áttum alveg frábæra daga þegar við keyrðum um sunnanverða vestfirði á leiðinni heim úr Aðalvík. Stoppuðum nánast alls staðar eins og t.d. Suðureyri, Flateyri, Þingeyri, Menningarsetrinu á Hrafnseyri, við Dynjanda og á Rauðasandi.

– Áttu þér uppáhaldsstað til að sækja heim innanlands?

Það eru mjög margir fallegir staðir og gaman að heimsækja en Aðalvíkin á Hornströndum er einstök.

– Ætlar þú að ferðast eitthvað meira innanlands á næstunni?

Ekki ólíklegt að ég spili golf einhvers staðar á vestur- og suðurlandi og líklegt að ég fari til Eyja til að spila golf.

– Hvert er þitt helsta áhugamál?

Golf, körfubolti og allt sem börnin mín eru að gera.

– Ertu að sinna áhugamálum eins og þú vildir?

Já, svo sannarlega. Ég og Magga erum búin að vera mjög dugleg ásamt vinafólki á golfvöllum í sumar. Varðandi körfuboltann, þá þjálfaði ég Fjölni í Grafarvogi síðastliðin þrjú ár en ætla að taka mér smá pásu frá þjálfun.

– Hvernig slakarðu á?

Fer í heitu pottana í lauginni eftir góðan sundsprett en ég reyni að synda á hverjum degi enda hollt og gott fyrir íþróttaslitin hné.

– Hvaða matur er í uppáhaldi hjá þér?

Góð nautasteik með öllu.

– Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana?

Ég er nokkurn veginn alæta á tónlist en ég hef mjög gaman af íslenskri tónlist og gaman að hlusta og sjá hversu öflugt tónlistarfólk okkar er.

– Horfirðu mikið á sjónvarp og hvernig?

Ég horfi nokkuð mikið á íþróttir en hef samt ekki haft gaman af þeim í Covid-ástandi með enga áhorfendur nema kannski golfið. Annars dett ég í eina og eina seríu annaðhvort á streymisveitu eða sjónvarpsstöð.

– Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu?

Ég kolféll fyrir Yellowstone í sjónvarpi Símans og bíð spenntur eftir fjórðu seríu og þátturinn Með okkar augum er kannski það helsta sem ég missi ekki af enda algjörlega frábær.

– Besta kvikmyndin?

Ég get alltaf horft aftur og aftur á Shawshank Redemption og finnst hún alltaf jafn góð. Annars hef ég mest gaman af góðum grínmyndum.

– Hver er uppáhaldsbókin þín og/eða -rithöfundur?

A Lifetime of Observations and Reflections on and off the court eftir John Wodden. Bækur eftir John Wodden, fyrrum körfuboltaþjálfara UCLA-háskólans, hafa lengi verið í miklu uppáhaldi hjá mér. Annars hef ég mjög gaman af ævisögum en þar er Shoe Dog eftir Phil Knight í miklu uppáhaldi.

– Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu?

Hvað ég er leiðinlegur einn með sjálfum mér!

– Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra?

Undirferli og óheiðarleiki.

– Uppáhaldsmálsháttur eða -tilvitnun:

Iss, þetta er ekki neitt!

– Orð eða frasi sem þú notar of mikið:

Byrja alltof margar setningar á að segja: „Heyrðu ... “!

– Ef þú gætir farið til baka í tíma, hvert færirðu?

Til háskólaáranna í Charleston í Suður-Karólínu 1991–1994.

– Hver væri titillinn á ævisögu þinni?

„Gefðu boltann“.

– Hvernig hefur þú verið að upplifa árið 2020 hingað til?

2020 á klárlega eftir að vera fyrirferðamikið í sögubókum framtíðarinnar. Þetta er búið að vera eftirminnilegt tímabil sem við munum klárlega komast í gegnum.

– Hver er tilfinning þín fyrir haustinu og komandi vetri?

Bara góð. Þetta eru krefjandi tímar sem ber að tækla af skynsemi. Ég held að það sé hollt að einbeita sér að því sem maður hefur stjórn á sjálfur og huga vel að því að rækta sjálfan sig.

Falur og Albert Óskarsson, vinur hans eru duglegir á golfvellinum.