Fréttir

Ellert Eiríksson látinn
Miðvikudagur 15. nóvember 2023 kl. 11:02

Ellert Eiríksson látinn

Ellert Eiríksson, fyrrverandi bæjarstjóri Reykjanesbæjar, lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 12. nóvember síðastliðinn, 85 ára að aldri.

Ellert var Suðurnesjamaður í húð og hár og fæddist að Járngerðarstöðum í Grindavík árið 1938 en flutti til Keflavíkur þriggja ára gamall. Hann var í fyrsta útskriftarhópnum úr Gagnfræðaskólanum í Keflavík og stundaði síðan ýmis störf. Ellert hóf störf hjá Keflavíkurbæ 14 ára gamall sem flokksstjóri í unglingavinnu yfir sumarið sem þá var starfrækt í fyrsta sinn. Næstu árin stundaði hann fjölbreytt störf sem messagutti, kokkur, barþjónn og var lærlingur í slitlagagerð hjá bandarísku verktakafyrirtæki á Keflavíkurflugvelli. Ellert kom til starfa aftur hjá Keflavíkurbæ á sjöunda áratugnum og varð yfirverkstjóri hjá Áhaldahúsi bæjarins. Ellert varð snemma pólitískur og gekk til liðs við Sjálfstæðisflokkinn aðeins 12 ára gamall. Árið 1987 varð hann varamaður til þings.

Viðreisn
Viðreisn

Ellert varð sveitarstjóri í Gerðahreppi 1982 til 1990 og bæjarstjóri í Keflavík næstu fjögur árin. Ellert varð síðan fyrsti bæjarstjóri sameinaðs sveitarfélags Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna sem fékk nafnið Reykjanesbær árið 1994 og gegndi því starfi til ársins 2002.

Ellert kom að ýmsum öðrum félagsmálum og var félagi í JC Suðurnes og Lionsklúbbi Keflavíkur. Hann var mikill áhugamaður um keflvískan körfubolta og var reglulegur gestur á leikjum liðanna.

Eftirlifandi eiginkona Ellert er Guðbjörg Sigurðardóttir. Þau eignuðust saman dótturina Guðbjörgu Ósk. Börn Ellerts frá fyrra hjónabandi eru Eiríkur (látinn), Jóhannes og Elva. Börn Guðbjargar eru Sigurður Ingi, Páll og Una Björk.

Útför Ellerts verður frá Keflavíkurkirkju fimmtudaginn 23. nóvember kl. 13. Útförinni verður streymt https://www.facebook.com/groups/ellert/