Viðreisn
Viðreisn

Um blaðið

Á myndinni eru Páll Ketilsson og Ásdís Björk Pálmadóttir, eigendur Víkurfrétta.

Útgefandi www.vf.is er:
 
Víkurfréttir ehf.
Krossmóa 4
260 Reykjanesbær

Sími: 421 0000.
Tölvupóstur: pket@vf.is
Kennitala: 710183 0319
VSK nr. 8511

Skrifstofan er opin alla virka daga frá kl. 09-17.

Víkurfréttir eru einn elsti bæjarfjölmiðill landsins en fyrsta blaðið kom út 14. ágúst 1980. Auk vikublaðs rekur fyrirtækið nú tvo vefi, fréttavefinn vf.is sem stofnaður var 1995 og golfvefinn www.kylfingur.is sem hóf göngu sína 2005.

Blaðið var í eigu Prentsmiðjunnar Grágás til loka árs 1982 en 7. janúar tóku Víkurfréttir ehf. við útgáfunni. Páll Ketilsson og Emil Páll Jónsson stofnuðu félagið en Emil fór út því 1993. Frá þeim tíma hefur Páll og fjölskylda rekið félagið sem fagnar 30 ára afmæli 2013.

Í tíð prentsmiðjunnar voru Víkurfréttir gefnar út hálfsmánaðarlega en forveri VF voru Suðurnesjatíðindi sem voru áskriftar- og sölublað sem kom út vikulega. Eftir að rekstri þess var hætt hófst útgáfa Víkurfrétta sem fríblaðs og var því dreift ókeypis í verslanir og fleiri staði í Keflavík og Njarðvík og síðar einnig í nágrannasveitarfélögunum. Nýir eigendur hófu vikulega útgáfu á upphafsmánuðum fyrirtækisins og vegur blaðsins jókst mikið með örari útgáfu. Dreifingu blaðsins var breytt fljótlega og hún styrkt með því að dreifa því inn á hvert heimili á Suðurnesjum.

Nær alla tíð hefur blaðsíðufjöldi rokkað frá 16 til 32 blaðsíðna í hverri viku. Árið 1996 urðu miklar breytingar á útliti blaðsins þegar litprentun gerði innreið sína í vinnsluna en þá var helmingur blaðsins prentaður í lit. Þremur árum síðar var allt blaðið prentað í lit en þá fluttist prentun þess í Prentsmiðjuna Odda í Reykjavík en fram að þeim tíma hafði prentun þess farið fram í Stapaprenti í fimm ár en þar á undan í Grágás frá upphafi. Næsta stóra breyting á útliti blaðsins varð í mars 2011 þegar prentun blaðsins fluttist til Landsprents í Reykjavík en við það stækkaði brotið og pappír breyttist.

Blaðið hefur alla tíð verið í forystuhlutverki á Suðurnesjum og verið stærsta frétta- og auglýsingablað svæðisins og einnig verið leiðandi í útgáfu meðal bæjar- og héraðsfréttablaða á landinu öllu.

Árið 2004 hófu Víkurfréttir ehf. útgáfu VF vikublaðs í Hafnarfirði og Garðabæ. Opnuð var skrifstofa í Hafnarfirði en útgáfu blaðsins var hætt í júlí 2008.

Árið 1995 þegar internetið var á upphafsárum sínum stofnaði VF fréttavefinn www.vf.is sem varð fyrsti ókeypis fréttavefurinn á landinu. Fyrstu árin var efni blaðsins sett á vefinn vikulega en fjórum árum síðar var farið að skrifa fréttir daglega inn á vf.is. sem í dag er í hópi 20 vinsælustu vefja á Íslandi í dag.

Tíu árum eftir stofnun vf.is hófu Víkurfréttir rekstur golfvefjarins www.kylfingur.is. Vinsældir hans hafa aukist á hverju ári.

Í 30 ára sögu Víkurfrétta hafa starfsmenn þess sinnt öðrum störfum samhliða fréttamennsku fyrir eigin miðla. Þar má fyrst nefna fréttaþjónustu fyrir aðra fjölmiðla á Suðurnesjum,  og þá helst fyrir Stöð 2. Páll Ketilsson var í fimmtán ár fréttaritari Stöðvar 2 en aðrir fréttamenn VF hafa einnig komið við sögu í þeim efnum.

Í nokkur ár gáfu Víkurfréttir út veglegt Suðurnesjatímaritið TVF og var það selt í lausasölu.

Stærsta einstaka verkefni Víkurfrétta frá árinu 2000 hefur verið ritstýring og útgáfa Golfs á Íslandi, tímarits Golfsambands Íslands.

Starfsmenn Víkurfrétta ehf. í dag eru um tíu, voru í upphafi 3-4 en fóru hæst í tuttugu. Skrifstofa VF hefur lengst af verið á tveimur stöðum, við Vallargötu í Keflavík og við við Grundarveg 23 í Njarðvíkum. Í júní 2012 flutti fyrirtækið í glæsilegt húsnæði Samkaupa ehf. að Krossmóa 4 í Reykjanesbæ og er þar með skrifstofu á 4. hæð

ISSN 1606-5255