Gera við Rússaþotu undir byggingaplasti - myndir
Viðgerð á rússnesku Sukhoi Superjet 100 þotunni sem brotlenti á Keflavíkurflugvelli í sumar er langt komin. Unnið er að viðgerðinni í flugskýli 885 á Keflavíkurflugvelli. Þar hefur verið byggð yfir vélina trégrind og hún klædd byggingaplasti til að kynda upp vinnuaðstöðu flugvirkja sem vinna að viðgerðinni.
Gert er ráð fyrir að flugvélinni verði flogið frá Keflavíkurflugvelli þann 28. desember nk.
Fjölmargir starfsmenn frá framleiðanda flugvélarinnar hafa verið hér á landi frá því í sumar, fyrst þegar unnið var að prófunum á vélinni hér á landi áður en brotlendingin varð og síðan þegar farið var að vinna við viðgerðir á vélinni. Starfsliðið hefur m.a. gist á Hótel Keflavík.
Í brotlendingunni í sumar skemmdist botn vélarinnar og mótorar. Komið var með aðra mótora á vélina á dögunum og þá er einnig verið að ljúka við að skipta um botn vélarinnar.
Meðfylgjandi myndir voru teknar í flugskýli 885 á Keflavíkurflugvelli og sýna aðstæður við viðgerð vélarinnar.
Að neðan má svo sjá myndband sem Eyþór Sæmundsson, blaðamaður Víkurfrétta, tók af björgun vélarinnar í sumar.