Íþróttir

Jóhann Birnir ætlar að taka eitt ár í viðbót
Hér er Jóhann með Hauki Inga og Gunnari M. Jónssyni, en þeir þrír skipuðu þjálfaratríó Keflavíkurliðsins í sumar eftir að Kristján Guðmundsson fékk reisupassann.
Laugardagur 17. október 2015 kl. 12:52

Jóhann Birnir ætlar að taka eitt ár í viðbót

Jóhann Birnir Guðmundsson, sem þjálfaði Keflavíkurliðið í sumar með Hauki Inga Guðnasyni er hvergi hættur og ætlar að spreyta sig með hópnum undir stjórn Þorvaldar Örlygssonar. „Alla vega eitt ár í viðbót,“ sagði hann.

Jóhann Birnir á langan og farsælan leikmannaferil með Keflavík og lék sem atvinnumaður um tíma m.a. hjá Watford í Englandi, Lyn í Osló, Örgryte og GAIS í Svíþjóð. Hann verður 38 ára í desember nk. og verður því á 39. aldursári þegar hann hleypur inn á Nettó-völlinn á næsta ári.

Ekki er enn vitað um stórar breytingar á leikmannahópi Keflavíkur en nokkrir voru viðstaddir þegar Þorvaldur skrifaði undir samninginn við Keflavík sl. laugardag. Einn af þeim var Hólmar Örn Rúnarsson sem kom aftur til Keflavíkur fyrir síðasta tímabil og markvörðurinn efnilegi, Sindri Kristinn Ólafsson sem þótti standa sig mjög vel í sumar. Þegar tíðindamaður VF spurði þá þremenninga út í nýju ráðninguna á nýjum þjálfara sögðust þeir mjög sáttir og stefndu ekkert annað en að taka baráttuna með bítlabæjarliðinu á næsta keppnistímabili.

Jón Ben formaður stjórnar sagði að allir útlendingar sem léku með Keflavík í sumar séu farnir og munu ekki verða með liðinu á næsta ári.