Til leigu (Skólamatur)
Til leigu (Skólamatur)

Íþróttir

Kian Williams sá rautt á Kaplakrika
Kian Williams fékk að líta rauða spjaldið í upphafi leiks. VF-mynd: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
þriðjudaginn 23. ágúst 2022 kl. 08:08

Kian Williams sá rautt á Kaplakrika

Keflavík og FH áttust við í Bestu deild karla í knattspyrnu í gær. Leikurinn fór fram á Kaplakrikavelli, heimavelli FH, og voru það heimamenn sem reyndust sterkari aðilinn. Leiknum lauk með þriggja marka sigri FH-inga sem léku einum fleiri nánast allan leikinn.

Leikmenn FH virðast hafa gert sér grein fyrir að þeir væru komnir í alvarlega hættu á að lenda í fallsæti enda mættu þeir mjög ákveðnir til leiks og tóku stjórn frá byrjun. Ekki hjálpaði það Keflvíkingum mikið þegar Kian Williams braut af sér á 6. mínútu og fékk að líta rauða spjaldið fyrir vikið – Keflavík einum færri og 84 mínútur eftir af leiknum.

Á sama tíma og Keflavík hitti ekki á sinn besta dag nýttu heimamenn sér liðsmuninn og skoruðu tvö mörk í fyrri hálfleik (24' og 33'), FH innsiglaði 3:0 sigur sinn á 56. mínútu þegar Úlfur Ágúst Björnsson skoraði annað mark sitt og þriðja mark FH en Úlfur ágúst lék á láni með Njarðvík framan af tímabili.

Úlfur Ágúst Björnsson hér í bikarleik með Njarðvík gegn Keflavík í sumar. VF-mynd: JPK

Keflavík situr í áttunda sæti Bestu deildar karla með átján stig, með jafn mörg stig og sama markahlutfall og Fram sem situr í sjöunda sæti með fleiri mörk skoruð. Bæði lið eru þremur stigum frá KR sem er í sjötta sæti og þar af leiðandi í efri hluta deildarinnar en að loknum 22 umferðum verður mótið klárað í tveimur riðlum þar sem efstu sex liðin leika í öðrum riðlinum en neðstu sex í þeim neðri. Keflavík stefnir á að leika í efri hlutanum.