Iðandi mannlíf í Sandgerði á laugardagskvöld
Sandgerðingar og nærsveitungar geta notið menningar á laugardagskvöld en þá fara tveir viðburðir fram. Tríóið Raïto leikur á Kaffi Golu úti á Hvalsnesi og hefjast tónleikarnir kl. 20 og er ókeypis inn.
Kl. 22 verður svo talið í sveitaball á Sjávarsetrinu sem er í Sandgerði.
Arna Björk Unnsteinsdóttir er önnu eigenda Sjávarsetursins.
„Við viljum reyna bjóða upp á lifandi tónlist af og til og gerðum þessa tilraun um daginn. Þá leiddu saman hesta sína tveir Sandgerðingar, þeir Ólafur Þór Ólafsson sem leikur á gítar og syngur, Pálmar Guðmundsson sem leikur á bassa, Grindvíkingurinn Sibbi og trommuleikarinn Sverrir Örn Leifsson, sem býr í Reykjanesbæ. Sverrir verður ekki með núna en í staðinn kemur trommarinn Ólafur Ingólfsson sem er frá Njarðvík svo það má sjá að þetta er mikil Suðurnesjatenging í bandinu. Þeir spiluðu hjá okkur 1. mars og eru Sandgerðingar enn að tala um hversu mikið stuð var og þeir lofa jafn miklu ef ekki meira stuði á laugardagskvöldið.
Eldhúsið verður að sjálfsögðu opið og hvet ég alla til að panta borð, þá er öruggt að fá sæti. Við tökum fagnandi á móti öllum og lofum miklu stuði,“ sagði Arna.
