Djúprista báta
Marsmánuður orðinn hálfnaður og veðurfarslega séð þá hefur verið nokkuð gott veður það sem af er og bátar því getað róið nokkuð duglega.
Inni í Faxaflóa hafa netabátarnir verið á veiðum sem hafa verið að landa í Keflavík og eru það bátarnir sem eru á vegum Hólmgríms sem og Erling KE. Addi Afi GK er kominn með um 40 tonn í tíu róðrum og um 8,5 tonn mest í róðri. Sunna Líf GK 20.6 tonn í átta róðrum. Friðrik Sigurðsson ÁR með 118 tonn í átta róðrum og um 24 tonn mest í róðri, Erling KE 266 tonn í ellefu róðrum og mest 32 tonn.
Reyndar þá réri Dímon GK á færum líka frá Keflavík í mars og var hann líka að veiða fyrir Hólmgrím, fékk um 6 tonn í sex róðrum.
Ansi mikill fjöldi báta er búinn að vera á veiðum utan við Sandgerði og hefur ýsuveiði verið mjög góð hjá bátunum.
Kristján HF sem hefur landað allan mars í Sandgerði, er kominn með 151 tonn í ellefu róðrum og mest um 20 tonn í róðri. Eins og staðan er núna þá er Kristján HF fjórði aflahæsti báturinn í sínum flokki á landinu. Óli á Stað GK með 125 tonn í tólf og mest um 15 tonn. Indriði Kristins BA með 141 tonn í átta og mest 27 tonn en af þessum afla þá hefur báturinn landað um 91 tonni í Sandgerði, restin er í Ólafsvík. Margrét GK með 78 tonn í átta, Hópsnes GK með 62 tonn í sjö, mest um 15 tonn og Geirfugl GK með 55 tonn í sjö róðrum.
Einhamars bátarnir hafa að mestu verið að landa í Grindavík, Vésteinn GK er með 88 tonn í ellefu, Auður Vésteins SU með 77 tonn í tíu og Gísli Súrsson GK með 22 tonn í tveimur róðrum, fyrri löndunin í Sandgerði, Fjölnir GK með 88 tonn í sjö og af þeim afla eru 15,5 tonn í Sandgerði, restin í Grindavík. Reyndar er Fjölnir GK núna í slippnum í Njarðvík, báturinn skemmdist smá í mikla sjóganginum sem var snemma í mars.
Stóru línubátarnir tveir hafa landað í Grindavík og Hafnarfirði. Sighvatur GK er kominn með 234 tonn,og Páll Jónsson GK með 217 tonn, báðir í tveimur.
Heldur er að glæðast aflinn hjá dragnótabátunum og Sigurfari GK fór í smá ferðalag, hann fór austur undir Þjórsárósa, og var þar við veiðar sem og í kringum Vestmannaeyjar, túrinn var í heildina um tveir dagar og kom báturinn með í land um 45 tonn.
Ekki langt frá honum var annar bátur á vegum Nesfisks en það var togarinn Pálína Þórunn GK sem hefur landað um 130 tonnum í tveimur löndunum og báðar landanir í Sandgerði.
Það er nokkuð merkilegt að bera þessa tvo báta saman, Sigurfara GK og Pálínu Þórunni GK. Báðir voru smíðaðir í Huangpu skipasmíðastöðinni í Kína og báðir sama árið, 2001.
Smá lengdarmunur er á þeim, Sigurfari GK er 28,91 metri á lengd og 9 metrar á breidd, Pálína Þórunn GK er 28.62 metrar á lengd, og 9,17 metrar á breidd. Vélarstærðin í þeim er þannig að í Pálínu Þórunni GK er 952 hestafla vél, en í Sigurfara GK er 1115 hestafla vél.
Það sem vekur kannski mesta athygli við að bera bátanna saman er djúpristan þeirra en Pálína Þórunn GK ristir 6.05 metra á meðan að Sigurfari GK ristir 6,65 metra.
Núverandi Sigurfari GK hefur aldrei verið á trollveiðum en gamli Sigurfari GK sem heitir í dag Jóhanna ÁR, var á trollveiðum í ansi mörg ár, áður en skipt var um veiðarfæri og gamli báturinn fór að stunda dragnótaveiðar.