Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
miðvikudaginn 26. júní 2024 kl. 17:18

Baráttan um bæinn í beinni

Nágrannaliðin Keflavík og Njarðvík munu mætast á HS Orkuvellinum í Lengjudeild karla í knattspyrnu klukkan 18:00 í dag. Þessi lið hafa ekki mæst síðan í maí fyrir tveimur árum en þá áttust Keflavík og Njarðvík við í 32ja liða úrslitum karla.

Keflavík og Njarðvík mæta til leiks fyrir tveimur árum – hvað gerist í dag?

Þeim leik vilja Keflvíkingar sennilega gleyma sem fyrst en þá lék Keflavík í Bestu deildinni en Njarðvík í Lengjudeildinni. Það er skemmst frá því að segja að Njarðvík hafði betur með fjórum mörkum gegn einu og sló því Keflavík úr keppni það árið. Montrétturinn er því hjá Njarðvík sem stendur.

Nú má segja að hlutverk liðanna hafi snúist við, Njarðvíkingar mæta fullir sjálfstrausts til leiks enda á toppi Lengjudeildarinnar á meðan Keflavík er í hlutverki „lítilmagnans“ [e. underdogs] en Keflvíkingum hefur gengið illa að finna taktinn í deildinni í ár og sitja í fimmta sæti sem stendur.

Þessar staðreyndir hafa lítið að segja þegar „El Classico“ verður flautaður á eftir hálftíma. Bæði lið munu berjast til síðasta blóðdropa enda montrétturinn að veði. Keflavík hefur harma að hefna frá því fyrir tveimur árum og Njarðvík er á fleygiferð og virðist ekkert vera að gefa eftir.

Það má fylgjast með leiknum í beinni útsendingu í spilaranum efst á síðunni en Víkurfréttir hvetja alla sem tök hafa á að mæta á völlinn og hvetja sitt lið - sama hvort það er í grænu eða bláu.