Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 18. janúar 2025 kl. 06:35

Einangruð en aldrei ein

Líf Elínborgar Björnsdóttur hrundi eftir alvarlegt bílslys á Sandgerðisveginum í janúar 2020

Elínborg Björnsdóttir hefur búið í Höfnum frá árinu 2015 en hún er fyrrum afrekskona í íþróttum, hún æfði sund í yfir tíu ár og er margfaldur Íslandsmeistari í greininni. Elínborg, eða Ella eins og flestir þekkja hana, einbeitti sér síðar að pílukasti ásamt eiginmanni sínum, Þresti Ingimarssyni, og þau spiluðu lengi saman í landsliðinu – en þann 18. janúar 2020 breyttist allt. Ella var þá farþegi í bíl vinkonu sinnar og þær á leið heim úr vinnu þegar bíl er ekið yfir á rangan vegarhelming og hann skellur framan á þeim á um 150 kílómetra hraða. Ellu var vart hugað líf eftir áreksturinn og hún lá samtals í fimmtíu og átta vikur á spítala.
Ella gefst ekki upp svo auðveldlega og á síðasta ári varð hún heimsmeistari kvenna í pílukasti fatlaðra. Víkurfréttir heimsóttu Ellu á heimili hennar í Höfnum en um næstu helgi eru fimm ár liðin frá þessum örlagaríka degi.

Aðkoman á slysstað var hræðileg. Beita þurfti klippum til að ná Elínborgu út úr bílflakinu.

Úrkomu hafði verið spáð síðar um daginn

Elínborg og vinkona hennar hjóluðu flesta daga til vinnu sinnar frá Höfnum til Sandgerðis, um fjörutíu og tveggja kílómetra vegalengd fram og til baka, en þann

18. janúar 2020 hafði verið spáð úrkomu seinni partinn og því ákváðu þær að fara á bíl þennan tiltekna dag. Sú ákvörðun átti eftir reynast afdrifarík.

Maður sér að afrekskona eins og þú hefur séð betri daga, þú ert ekki í toppformi. Hvað varð þess valdandi að svona er fyrir þér komið?

„Það var þegar ég lenti í slysinu og fékk í rauninni heilablóðfall í kjölfarið á slysinu og þá lamaðist ég vinstra megin,“ segir Ella. „Þetta var framanákeyrsla. Lögreglan var að elta ungan mann sem var á stolnum bíl og undir áhrifum [vímuefna] og hann lendir framan á bíl sem ég er farþegi í.“

Maðurinn sem olli slysinu var á um 150 kílómetra hraða þegar hann fór yfir á öfugan vegarhelming og lenti framan á bílnum sem Ella var farþegi í. Elínborg margbrotnaði við áreksturinn og lá milli heims og helju um hríð en Ella kemur aldrei til með að ná heilsu á ný og er upp á aðstoð annarra komin allan sólarhringinn. Sú sem keyrði bílinn slasaðist blessunarlega ekki mikið og sama gildir um tjónvaldinn, hann slapp furðuvel frá árekstrinum. Degi fyrr hafði verið farið fram á síbrotagæslu yfir manninum en þeirri beiðni lögreglu var hafnað.

Hvernig fór með vinkonu þína?

„Hún var ekki eins heppin og ég. Mín bein og sár greru en hún var að keyra og það er óvíst hvort eða hvenær það grær,“ segir Ella og á við sárin sem vinkona hennar hlaut á sálinni. „Það er mjög erfitt að vera að keyra þegar einhver slasast svona alvarlega eins og ég gerði.

Ég fór mjög illa út úr þessu, brotnaði öll hægra megin og aðeins vinstra megin – og svo heilablóðfallið,“ segir hún en Ella fékk heilablóðfall í kjölfar slyssins og það lamaði hana vinstra megin.

Fimm ár frá slysinu

Eins og ofangreindar lýsingar gefa til kynna fór Ella mjög illa út úr slysinu sem breytti lífi hennar varanlega. Í dag er hún bundin við hjólastól auk þess sem hún fær NPA-þjónustu sem gerir henni kleift að búa á heimili sínu í Höfnum.

Og þú ert bundin við það að þiggja þjónustu allan sólarhringinn.

„Já, ég er í hjólastól.“

En þetta eru fimm ár síðan og hvernig hefur þessi tími liðið? Hvað hefur gengið á á þessum tíma?

„Það hefur gengið á ýmsu. Ég fékk loks eftir mikinn barning að fá starfsfólk allan sólarhringinn hérna. Ég var fimmtíu og átta vikur á spítala eftir slysið og það var ekkert að mér og mér fannst engin ástæða til að hafa mig inni á spítala. Ég þurfti að berjast lengi fyrir því að koma heim og fá starfsfólk hingað til að hugsa um mig.“

Ella segir að í raun hafi ekkert verið að henni, hún var ekki veik. Henni fannst eins og það væri bara verið að geyma hana inn á stofnuninni. „Það var ekkert að mér, í rauninni var ég bara í geymslu og fékk á einum tímapunkti inni á hjúkrunarheimili – en ég var bara fjörutíu og sjö ára og fannst ég ekki eiga erindi þangað,“ segir hún og bætir við. „Svo þegar ég kom heim og var með aðstoð allan sólarhringinn þá er það líka mjög þrúgandi. Að hafa einhvern yfir þér allan sólarhringinn, alla daga. Það er ekkert einkalíf en annars eru þetta mjög góðar konur sem vinna hjá mér og vinkonur mínar. En eins og ég segi, það er ekkert einkalíf.“

En hvað gerir þú yfir daginn? Starfar þú við eitthvað?

„Nei, því miður. Ég væri alveg til í að eiga einhvern stað sem ég gæti kallað vinnustað hluta úr degi. Það er ýmislegt sem ég get gert þó ég sé í hjólastól.“

Hvernig myndir þú segja að venjulegur dagur væri hjá Elínborgu Björnsdóttur?

„Mér finnst gott að vakna snemma, kem hingað fram, fæ mér kaffi og kveiki á sjónvarpinu. Ég er svolítið að föndra, er með föndurhorn þar sem ég er að vinna með steinaverkefni og annað sem ég kaupi á netinu til þess að föndra.“

Ertu góð í fínhreyfingum og slíku?

„Já, mjög góð í fínhreyfingum.“

Ekki eitt heldur allt

Eins og verkefni Ellu hafi ekki verið ærið fyrir þá til að bæta gráu ofan á svart gerði heimsfaraldurinn Covid-19 innreið sína á Íslandi rúmum mánuði eftir slysið og fyrir vikið fékk Ella takmarkað að hitta vini sína og ástvini á meðan hún barðist fyrir lífi sínu og heilsu. Í maí greindist Þröstur Ingimarsson, eiginmaður hennar, með illkynja heilaæxli og lést þann 19. nóvember sama ár.

Hjónin Elínborg og Þröstur á góðum degi.

„Við eyddum einhverjum vikum saman á HSS en af því að ég þarfnaðist svo mikillar umönnunar þá höfðum við ekki fólk til að annast okkur heima og gátum ekki verið eins mikið saman heima hjá okkur og við vildum.“

Ellu reiknast til að slysið hafi haft fjörutíu og fjórar vikur af þeim hjónum og það á hún erfitt með að sætta sig við.

Þetta er meira en lagt er á flest fólk á allri lífsleiðinni sem þú verður fyrir á þessu eina ári.

„Já, þetta var svolítið mikið.“

Hvernig gekk eiginlega að komast í gegnum þessa skafla?

„Ég er svo sem ennþá að skófla mig í gegnum þetta – en ég er í hrútsmerkinu og set bara hornin niður og veð áfram,“ segir Ella sem segist fara þetta á hörkunni og ákveðinni afneitun. „Stundum veit ég ekki hvernig ég kemst í gegnum þetta, hvernig ég næ að halda þeim fronti.“

Ella og Þröstur voru á kafi í pílukasti og bæði í landsliðum Íslands í greininni þegar Ella lenti í slysinu. Eðlilega datt hún úr landsliðinu eftir slysið en seinna fór Ella að leita á netinu og komst í samband við Heimssamband fatlaðra sem heldur Evrópumeistaramót í pílukasti á Spáni.

„Ég fór í hitteðfyrra í fyrsta skipti í mót á Torremolinos á Malaga. Það var Evrópumeistaramót og ég lenti í öðru sæti þar og líka á síðasta ári,“ segir Ella sem ávann sér rétt til að keppa á heimsmeistaramótinu sem var haldið í ágúst í Skotlandi. „Annan ágúst varð ég heimsmeistari fatlaðra kvenna í pílukasti. Það er flottur titill að bera. Svo er ég að fara aftur til Torremolinos í apríl á þessu ári að taka þátt í Evrópumeistaramótinu.“

Caption

Eitthvað kostar svoleiðis.

„Já, af því að ég þarf að taka aðstoðarfólk með mér. Fyrir tvær vikur tek ég þrjár [starfskonur] með mér. Það þýðir flug og hótel fyrir fjóra og uppihald. Þannig að þetta kostar tvær komma sjö milljónir – og á örorkulaunum er mjög erfitt að ná þessu fram.“

Hvernig hefur það tekist hingað til, er það bara með hjálp fyrirtækja og einstaklinga?

„Já en núna vantar mig alveg eina komma níu milljónir upp á að komast í þessa ferð. Það er svo mikilvægt fyrir mig að geta slakað á í sólinni. Ég er með svo mikla taugaverki eftir slysið og hitinn hjálpar svo til við verkina. Þannig að þetta er mjög mikilvægt fyrir mig.“

Sækir þú æfingar í pílukasti reglulega?

„Nei, því miður geri ég það ekki. Mér finnst mjög erfitt að vera á meðal fólks – sérstaklega á pílumótum. Ég á erfitt með að fara á pílumót þar sem maðurinn minn er ekki með mér – mér líður ekki vel að fara ein á pílumót,“ segir heimsmeistarinn en allt viðtalið við Elínborgu má sjá í spilaranum hér að ofan.