Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 7. september 2024 kl. 10:22

Fjör og fjöldi í kjötsúpu á Ljósanótt

Mikill fjöldi mætti í kjötsúpu Skólamatar og tónlistardagskrá á ráðhústorginu í Reykjanesbæ. „Þetta er alltaf jafn gaman,“ sagði Axel Jónsson, stofnandi Skólamatar en hann var þarna með börnum sínum sem stýra fyrirtækinu í dag og starfsmönnum en öll voru þau að gefa fólki ljúffenga kjötsúpu.

Meðal þekktra tónlistarmanna voru Jón Jónsson og Keflvíkingurinn Magnús Kjartansson sem tók nokkur af sínum frægustu lögum í gegnum tíðina. Klukkan níu hófust heimatónleikar og gengu þeir ágætlega þrátt fyrir bleytu en flestir voru þeir innandyra.

Veðurguðirnir létu til sín taka og sendu rigningu inn í Ljósanóttina og voru ekki í góðu skapi þegar leið á kvöldið.