Maður að nafni Bahram er búinn að nálgast þig á Facebook
Sigrún Lína Ingólfsdóttir leitaði uppruna síns
Sigrún Lína er hársnyrtimeistari með kennsluréttindi og getur kennt á framhaldsskólastigi. Hún er gift, þriggja barna móðirog á eina ömmustelpu. Sigrún hefur lokið burtfaraprófi í klassískum söng frá Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og syngur í kirkjukór Keflavíkurkirkju. Útlitslega sést að Sigrún er ekki hefðbundinn Íslendingur, hún er dekkri yfirlitum en flestir enda vissi hún alltaf að blóðfaðir hennar væri af erlendu bergi brotinn – en hún þráði að vita meira.
Ég hef alltaf hugsað um það að mig langi að vita eitthvað. Ég hef alltaf vitað að ég er hálfur Írani, fékk að vita það þegar ég var mjög lítil en hef aldrei þorað, enda var það ekkert auðvelt áður fyrr, að leita. Jú, ég átti þrjár myndir – það var það eina,“ segir Sigrún þegar hún byrjar að segja Víkurfréttum sögu sína.
Í desember 2022 var hún að horfa á þættina Leitin að upprunanum. Sigrún var þá nýbúin að klára prófin í Háskóla Íslands og var bara að vinna en inn á milli segist hún hafa legið yfir þáttunum með dætrum sínum. Svo segi ég allt í einu: „Vá! Ég verð að gera þetta.“

Sigrún Lína ásamt Tryggva, eiginmanni sínum, dætrum þeirra og dótturdóttur.
Ljósmynd/Oddgeir Karlsson
Ákvað að láta slag standa
„Stuttu eftir að ég varð fimmtug, árið 2023, þá komu stelpurnar af stofunni [hárgreiðslustofunni Carino] hérna til mín og ég segi þeim að mig langi svo að gera þetta og ég sé að pæla í að láta slag stnda. Ein vinkona mín, hún Elín Ása [Einarsdóttir], sagði bara: „Ég er til. Ég skal vera með þér í þessu.“ Þannig hófst það.
Ég byrjaði á að sækja um hjá MyHeritage og sendi DNA-sýni út en ég fékk í rauninni engin svör sem hjálpuðu mér. Jú, ég fékk að ég væri frá Íran en þetta var allt svo fjarskylt svo það hjálpaði ekkert.
Þetta var örugglega í enda janúar sem ég gerði þetta og í október sendi ég Sigrúnu Ósk [Kristjánsdóttur] á Stöð 2 póst, segi henni hvað ég sé að gera og spyr hana hvort það sé eitthvað annað sem ég get gert. Hún sendi mér að ég sé að gera allt rétt en Ancestry gæti hjálpað mér eða 23andMe.“
Sigrún segir að hún hafi alltaf ætlað að leita í gegnum 23andMe en einhverra hluta vegna hafi hún ekki komist inn á það þegar hún reyndi. „Þannig að ég hætti alltaf við. Seinna hjálpaði einn kórmeðlimur mér að sækja um, hann Stefán sem er með mér í kirkjukórnum í Keflavíkurkirkju. Ég þurfti senda DNA-sýni og Elín Ása alltaf tilbúin að hjálpa svo ég geri þetta allt rétt, með hanska og allan pakkann, grímuna á sér svo hún smiti ekki. Nema svo fékk ég póst frá þeim sem segir að sýnið sé mengað, hvort ég sé tilbúin að gera þetta aftur og þeir sendi mér nýtt. Ekkert mál.“

Þetta var einhvern tímann í nóvember og þá var allt á haus í vinnunni hjá Sigrúnu svo hún setti málið til hliðar og hætti að hugsa um það.
„Svo var það þrítugasta janúar að ég segi við sjálfa mig að ég verði að fara að gera þetta og ég hringi í Elínu til að biðja hana að hjálpa mér við þetta,“ segir hún og skömmu síðar bárust henni upplýsingar um ættingja sem væru náskyldir henni. „Þannig að ég sendi póst og til að gera langa sögu stutta þá svaraði mér ein.
Ég byrja á að segja „Sæl, ég heiti Sigrún og sé að við erum eitthvað skyldar. Ég er að leita að blóðföður mínum, ég held að hann heiti Barham en ég er ekki hundrað prósent viss að þetta sé rétt skrifað.“ Ég sagði eitthvað svoleiðis og lét ekkert meira koma fram þarna.“
Þú hefur ekki sent henni myndirnar sem þú áttir.
„Nei, ég er svo tölvuheft stundum að ég náði því ekki. Ég ákvað að setja mynd af mér á prófílinn minn á MyAncestry svo hún gæti séð hvernig ég liti út. Bara svo hún héldi ekki að ég væri einhver geðveik gella að leita að einhverjum þú veist, maður hugsar alltaf það versta.
Svo sé ég að hún svarar mér, nema ég las ekki allan póstinn. Las bara að hún væri til í að hjálpa mér en það væri enginn með þessu nafni í fjölskyldunni. Svo spurði hún eitthvað meira, hvort ég gæti sent myndirnar og ég sendi henni Facebook-linkinn minn en hún var ekki með Facebook.“
Eins og Sigrún sagði þá hafði hún ekki lesið allan póstinn og þegar hún fór inn á hann nokkrum dögum síðar þá tók hún eftir að þar var einn með nafninu Bahram, þ.e. há-ið og err-ið víxluðust.
„Daginn fyrir skírdag í fyrra eru dætur mínar hjá mér og ég segi þeim að það sé búið að svara mér. Þannig að ég er að fara inn á póstinn og allt í einu öskra ég upp og þær alveg: „Hvað? Hvað?“ Af því að ég var að fara að lesa fyrir þær póstinn.
Ég stífna upp og þá sé ég að hún er búinn að senda mér póst og segir: „Maður að nafni Bahram er búinn að nálgast þig á Facebook.“ Bara við það að sjá nafnið þá vissi ég – því þetta var nánast sama nafnið.
Allir hættu að gera það sem þeir voru að gera og stelpurnar sögðu: „Kíkjum,“ og við förum auðvitað inn á Facebook hjá manninum og hann skrifar að honum hafi verið bent á að ég væri að leita að manneskju og biður mig að senda sér símanúmerið mitt í gegnum WhatsApp því hann sé lítið sem ekkert inni á Facebook.“
Sigrún segir að eðlilega hafi þær skoðað Facebook-síðuna hjá manninum þar sem var að finna gamlar myndir af honum og dætur hennar sögðu: „Mamma. Þú ert alveg eins og hann.“

Var undirbúin fyrir höfnun
„Ég sagði bara: „Nei, þetta er ekki hann,“ því ég var náttúrulega svo stressuð, þetta var of gott til að vera satt. Ástæðan fyrir því að ég leitaði ekki fyrr var að ég var búin að undirbúa mig fyrir höfnun. Ég var búin að búa mig undir höfnun og var alveg sátt við það. Núna var ég á þeim stað að mér var alveg sama. Ég á góðan pabba hérna á Íslandi. Mig langaði bara að vita. Hvernig lítur hann út? Er hann á lífi? Við hvað vinnur hann? Á ég systkini? Bara eitthvað. Þetta er það sem hefur alltaf verið mér efst í huga.“
Skömmu síðar sagði Sylvía, yngsta dóttir Sigrúnar, við mömmu sína að það væri annar aðili með sama eftirnafn þarna. „Af því að þetta var ekki vinur minn á Facebook þá tók ég ekki eftir því, svo ég kíki inn og þá er það bróðir hans líka að senda mér. „Sæl, ég heiti Alex. Hérna er símanúmerið mitt, endilega hringdu í mig eða sendu mér myndirnar og ég skal komast að því nákvæmlega hver er á þessum myndum.“
Ég sendi honum myndirnar og sagði: „Hæ, þetta er Sigrún frá Íslandi.“ Tuttugu mínútum síðar kemur svar: „Sæl, ég heiti Alex. Gaman að kynnast þér. Ég mun áframsenda þessar myndir á bróður minn.“ Þá var ég alveg pottþétt.“
Daginn eftir fékk Sigrún skilaboð frá Bahram og hann segist vera maðurinn á myndunum. Upp úr því fór hann að hafa reglulega samband og Sigrún segir að sér hafi fundist þetta vera orðið ofboðslega mikið á tímabili, hún réði varla við þetta.
„Ég ætlaði upphaflega ekki að láta hann vita af mér. Forvitnin var svo mikil að mig langaði að vita eitthvað en ég ætlaði aldrei að láta hann vita af mér af því að ég var hrædd um að eyðileggja einhverja fjölskyldu þarna úti og koma einhverjum leiðindum af stað. Ég var alltaf hrædd um það.“
Fram að þessu höfðu samskiptin farið fram í gegnum tölvu en það kom að því að Bahram vildi fá að tala við Sigrúnu í síma og spurði hvaða tími hentaði henni. Þau fundu tíma og Sigrún fór ein inn í herbergi og lokaði að sér því hún gat ekki hugsað sér að neinn væri að hlusta. Það fyrsta sem hún heyrði var: „Finally I hear your voice.“

Sigrúnu hafði kviðið fyrir að segja Ingólfi, íslenska pabba sínum, að hún væri búin að hafa upp á blóðföður sínum en þær áhyggjur voru ástæðulausar, hans viðbrögð voru þá þann veg að segja: „Frábært!“
Hér er Sigrún á milli feðra sinna, Bahram og Ingólfs.
Eru komin með númer
Bahram tók að segja Sigrúnu frá sjálfum sér. Hann væri ekkill, ætti þrjár dætur og tvö barnabörn – og hann sagði henni jafnframt að hann ætli sér að koma til Íslands og bróðir hans vildi líka koma.
„Ég var ekki alveg tilbúin að fara þangað og spurði hvort við gætum aðeins bakkað,“ segir Sigrún sem var augljóslega brugðið við hve hratt hlutirnir væru að þróast. „Bíðum eftir DNA og ákveðum ekki neitt. Síðan spurði ég hann hvort stelpurnar væru sáttar við þetta.
„Þær verða það, hafðu ekki áhyggjur,“ svaraði hann en ég sagði honum að ef þær væru það ekki þá vildi ég ekki vera í sambandi. Ég ætlaði ekki að skemma hjá einhverri fjölskyldu, ekki séns.“
Sigrún segir að Bahram hafi kunnað að meta þessa hugulsemi en hann sagði henni að hafa engar áhyggjur. „Það verður ekki svoleiðis. Fjölskyldan mín er alveg yndisleg og ég er alveg pottþéttur á því að þú ert dóttir mín. Ég bara sé það núna.“
Þarna voru þau að bíða niðurstöðu DNA-rannsóknarinnar og Bahram tjáði Sigrúnu að hann væri á leið til Kína og hugsanlega gæti hann lítið verið í sambandi en á meðan hann er í flugvélinni á leiðinni til Kína þá fékk Sigrún svar frá Ancestry. „Father!“
Sigrún sagði að fram að því hafi hún verið í afneitun og hún var búin að búa sig undir að þetta yrði ekki niðurstaðan – en þarna fékk hún það svart á hvítu. Hún tók skjáskot af skilaboðunum, sendi það til Bahram og fékk til baka: „Congratulation!“ Í stað þess að fá höfnun eins og Sigrún hafði búið sig undir þá má segja að þetta eina orð hafi stækkað fjölskyldu hennar í einni svipan.
„Hún stækkaði mikið,“ segir Sigrún. „Þeir voru sex bræðurnir, elsti er látinn og hann og tvíburabróðir hans eru yngstir. Þeir númera eftir fjölskyldunni, elsti bróðirinn er númer eitt, hann er númer fimm. Svo eru það börnin og barnabörn, allt komið inn í þetta. Við erum komin með númer, allt eftir hvenær maður kemur inn í fjölskylduna og makar líka. Ef þú ert giftur inn í fjölskylduna þá færðu númer. Við erum orðin sjötíu og tvö held ég. Bara frá honum og bræðrum hans – þetta er alveg slatti.“

Þú ert langlíkust pabba

Eins og Sigrún sagði þá höfðu hlutirnir þróast hratt, hraðar en hún í raun réði við og í ofnálag höfðu allir bræður Bahram ákveðið að koma til Íslands. Það varð því úr að hún ákvað að fljúga ein til New York til að hitta blóðföður sinn í fyrsta sinn augliti til auglitis.
„Málið er það að þegar þeir vildu koma þá sagði ég þeim að ég væri ekki alveg tilbúin að fá þá alla hingað án þess að ég væri búin að hitta hann. Þá væru þeir allir að horfa á mig, fjölskyldan mín öll að horfa á mig. Ég get þetta ekki og spurði hvort ég mætti koma fyrst ein til hans í smá stund.
Þannig að ég fer út til hans í maí og hann tekur á móti mér. Ég fékk auðvitað mígreni dauðans í flugvélinni og var ég eiginlega bara frosin þegar ég hitti hann. Svo förum við heim til hans og ég var búin að segja honum að ég vildi ekki hitta marga.“
Sigrún gisti heima hjá Bahram en hann býr í stóru húsi og hafði nóg pláss. „Fyrsta kvöldið kom nágranni hans yfir því hún hafði tekið eftir að Bahram hafði gleymt að drepa á bílnum og hringt til að láta vita. Hann bauð henni að kíkja yfir því dóttir hans væri komin. Þegar hún kom fékk hún hláturskast og sagði: „Guð minn góður hvað þið eruð lík.“ Svo vorum við að tala saman og hún fékk aftur hláturskast af því að ég gerði víst eitthvað með augunum eins og hann gerir. Ég veit ekki enn hvað það var sem ég gerði,“ segir Sigrún og hlær.
Sigrún hitti föður sinn í fyrsta sinn á fimmtudegi en á föstudögum heldur fjölskyldan gjarnan kvöldverð í tilefni sabbath [hvíldardags] en þau eru Gyðingar.
Á föstudeginum hitti Sigrún svo tvær systur sínar ásamt mökum þeirra í sabbath-kvöldverði. „Þá elstu og þá yngstu, þessi í miðjunni var stödd í Puerto Rico með manninum sínum. Svo koma þær og taka utan um mig, svo horfa þær á mig og segja: „Vá, þú ert langlíkust pabba.“ Svo er ákveðið að hringja myndsímtal í miðjusysturina og hún segir: „Vá, þú ert svolítið lík mér,“ og maðurinn hennar tók undir það.“

Með systrum sínum. Nora, Nika, Neda og Sigrún.
Myndin var tekin í veislu sem var haldin þegar verið var að umskera son Niku.
Á laugardagskvöldinu bauð Bahram tveimur bræðrum sínum í kvöldverð og Sigrún átti mjög góðar stundir með föður sínum og fjölskyldu hans þessa fyrstu daga sem þau hittust. Það er óhætt að segja að Sigrúnu hafi verið tekið vel og fyrstu kynni hennar af fjölskyldunni hafi verið góð og þau halda áfram að styrkjast enda mikill tími sem þarf að vinna upp.
Allt viðtalið við Sigrúnu má heyra og sjá í spilaranum efst á síðunni.