Föstudagur 11. október 2024 kl. 16:52

Óhefðbundin kynni, höggmyndir og varðskipssaga í Suðurnesjamagasíni

Suðurnesjamagasín er komið á vef Víkurfrétta. Þetta er þáttur númer 482 úr smiðju Sjónvarps Víkurfrétta af þessum þjóðlífsþætti Suðurnesja. Í þætti vikunnar eru þrjú viðfangsefni.

Hjónin Rúnar Ingi Erlingsson, körfuknattleiksþjálfari, og Natasha Anasi-Erlingsson, landsliðskona í knattspyrnu, kynntust árið 2016 en upphaf þeirra kynna voru frekar óhefðbundin. Þau byrjuðu að spjalla saman á stefnumótaforriti og ákváðu eftir stutt kynni að hittast í raunheimum og eftir það var ekki aftur snúið.

„Ég byrjaði á höggmyndalist í kringum 2010, er búinn að gera 98 skúlptúra og er alls ekki hættur, besta verkið er alltaf eftir“ segir höggmyndalistamaðurinn Helgi Valdimarsson en hann er að taka þátt í sýningu í Norræna húsinu ásamt öðru listafólki og var vörubíll í hlaðinu að sækja fimm verk þegar blaðamann bar að garði.

Áhöfn og velunnarar safnskipsins Óðins kíktu suður í Garð og í braggann til Ásgeirs Hjálmarssonar í vikunni. Í bragganum er einstakt safn gamalla muna og meðal annars munir sem tengjast sögu Landhelgisgæslunnar. Góðar sögur spretta fram við það eitt að sjá gamla ljósmynd og Ingólfur Kristmundsson vélstjóri mætti með eina af því þegar varðskipið Ægir strandaði á Selskeri úti fyrir Ingólfsfirði í desember 1971.

Þátturinn er í spilaranum hér að ofan.