Óvænt heimsókn Katrínar til Jónatans
Katrín mætti í lopapeysunni góðu og Tani klæddist sinni
„Við værum ekki hér inni ef ég hefði ekki tekið af skarið,“ sagði Jónatan Jóhann Stefánsson þegar hann tók á móti Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra og formanni Vinstri hreyfingarinnar grænt framboð, á hjúkrunarheimilinu Víðihlíð í Grindavík í síðustu viku. Vísaði Jónatan þar til þess þegar ákveðið var að stofna VG og hann hefði orðið stofnfélagi númer eitt ef hann hefði ekki þurft að fara í bakarí og kaupa vínarbrauð og bókabúð til að kaupa stílabók sem nota átti til að rita stofnfundargerð hreyfingarinnar.
Katrín hefur verið dugleg að heilsa upp á Jónatan eða Tana á ferðum sínum Suður með sjó. Þetta er þó í fyrsta skipti sem hún heimsækir kappann á hjúkrunarheimilið í Grindavík, þangað sem Jónatan er nýlega fluttur. Hann bjó í Miðhúsum í Sandgerði þegar Katrín tók síðast hús á honum. Þar var Tani með myndarlegt sjóminjasafn á heimili sínu og Katrín sagði að skrifstofur VG minni oft á útibú frá Sjóminjasafni Íslands en Tani hafi í gegnum árin verið duglegur að gefa ýmsar sjóminjar á skrifstofurnar. „Það blikkar á okkur viti þegar við fundum á skrifstofunni,“ segir Katrín og hlær. Katrín gerði sér ferð til að heimsækja Tana og fyrst hún var komin til Grindavíkur falaðist hún eftir fundi við bæjarstjóra og bæjarstjórn Grindavíkur en sagt er frá þeim fundi á öðrum stað í blaðinu. Fyrir fundinn með Tana heilsaði Katrínu einnig upp á eldri borgara í Grindavík í Víðihlíð og fór vel á með þeim.
Tani er hreinn og beinn og kann vel að meta vináttu sína við forsætisráðherra. Hann gaf henni lopapeysu merkta VG sumarið 2020, sem afhent var með viðhöfn í forsætisráðuneytinu og greint hefur verið frá í Víkurfréttum. Myndskeið frá því má sjá í rafrænni útgáfu Víkurfrétta. Katrín mætti í lopapeysunni til fundarins við Tana og svo skemmtilega vildi til að Tani klæddist sinni. Það var alls ekki skipulagt, enda hafði heimsókn Katrínar til Tana verið haldið sem háleynilegum viðburði. Margeir Elentínusson var í heimsókn hjá Tana þegar forsætisráðherra kom í heimsókn en Margeir sá um að skutla Tana til ráðherra sumarið 2020 þegar peysan var afhent formlega. Ásmundur Friðriksson fylgdi Katrínu til Tana en Ásmundur og Margeir eru miklir félagar Tana og heimsækja hann reglulega og fara með í ferðir um Suðurnes, þar sem komið er við í bakaríinu og til fundar við mæta menn og konur.
Ástæðan fyrir óvæntu peysugjöfinni á sínum tíma er skemmtileg en þegar Katrín mætti með félögum sínum í Vinstri grænum í heimsókn til Suðurnesja rétt fyrir COVID-19 hreyfst hún af rauðri lopapeysu vinar síns á fundi hennar á Hótel Keflavík. Jónatan tók hana á orðinu og fékk saumakonuna Kristínu Kristjánsdóttur í Sandgerði til að prjóna peysu á Katrínu. Svo þegar hún var tilbúin var pantaður tími hjá forsætisráðherra sem sagðist taka glöð á móti vini sínum. „Ég fór bara strax að huga að því að láta prjóna á hana svona peysu,“ sagði Jónatan þegar hann afhenti peysuna en hann var spenntur að vita hvort hún passaði ekki á Katrínu.
Jónatan trúir Katrínu einnig fyrir ýmsum málum og upplýsti forsætisráðherrann um hvað þurfi að gera þegar kallið kemur, en Jónatan glímir við heilsubrest. Hann er stálminnugur og bílnúmer, bátanöfn og jafnvel vélarhljóð eru hans sérgrein. Þá man Tani dagsetningar ýmissa viðburða. Tani sagði í heimsókn Katrínar forsætisráðherra til sín að það væri ekki spennandi hlutskipti að muna ekkert stundinni lengur. Hann afhenti Katrínu því myndir og upplýsingar sem hann vildi að yrðu í útfaraskránni sinni þegar kallið kæmi.
Það er annars að frétta af gestagangi hjá Tana að daginn áður en Katrín heimsótti hann hafði Steingrímur Jóhann Sigfússon einnig heimsótt sinn mann.
Fjallað var um heimsókn Katrínar til Jónatans og bæjaryfirvalda í Grindavík í Suðurnesjamagasíni vikunnar og má sjá innslagið hér að neðan.