Safnahelgi á Suðurnesjum sett í nýrri gestastofu á Reykjanesi
Safnahelgi á Suðurnesjum fer fram um komandi helgi, 25. til 27. október. Frítt er inn á öll söfn sem taka þátt í viðburðinum.
Safnahelgi á Suðurnesjum er haldin árlega, uppfull af skemmtilegum uppákomum og viðburðum um allan Reykjanesskagann. Safnahelgi er samstarfsverkefni safna, setra og sýninga á Suðurnesjum sem opna dyrnar sínar fyrir íbúum og gestum svæðisins. Dagskrá helgarinnar er fjölbreytt og skemmtileg fyrir alla fjölskylduna. Dagskrá helgarinnar má sjá á safnahelgi.is
Setningarathöfn fór fram í nýrri gestastofu sem er verið að opna við Reykjanesvita. Þar verður opin sýningin Leiðarljós í Lífhöfn og í gestastofunni í vitavarðarhúsinu er sýning um Reykjanesvita og vitaverðina. Á útisvæði er svo sýning á vegum Reykjanes jarðvangs.
Í myndskeiði með fréttinni er sýnt frá setningarathöfninni og tvö stutt viðtöl sem tekin voru við þetta tækifæri. Sýningum á Reykjanesi og gestastofunni verða gerð ítarlegri skil í Suðurnesjamagasíni vikunnar.