Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
laugardaginn 28. september 2024 kl. 06:15

Sauðfjárbúskapur lífsstíll Grindvíkinga

Grindvíkingar smöluðu um síðustu helgi og réttir fóru fram í Þórkötlustaðarétt á sunnudag. Þetta er mögulega í síðasta sinn í eitthvern tíma sem réttir verða þar. Það er ekki þar með sagt að grindvískir bændur séu að bregða búi eða leggja árar í bát. Réttir verða að ári nær sumarhaga kindanna og svo verður örugglega á meðan yfirstandandi náttúruvá er í og við Grindavík.

„Þetta hefur gengið ágætlega. Smalið gekk vel og niðurreksturinn gekk vel. Við fengum frábært veður í þetta í dag en síðasti vetur var okkur erfiður. Það er erfitt að vera með þetta flakkandi hingað og þangað. Ég held að við höfum flutt þær fjórum sinnum síðasta vetur, alltaf á sitthvorn staðinn. Það er vonandi að sjá fyrir endann á þessu,“ segir Ómar Davíð Ólafsson, sauðfjárbóndi, sem rekur félagsbú kennt við Bjarmaland með félaga sínum, Bjarka Sigmarssyni.

En hvernig verður framhaldið?

„Það er góða spurning og fer eftir því sem móðir náttúra gerir. Ef þetta verður svona áfram og kemur upp á þægilegum stað þarna uppfrá þá erum við alveg hólpin hérna niðurfrá. Þá höfum við meiri áhyggjur af nágrönnum okkar í Vogum. Þetta verður allt í lagi, held ég.“

Grindvíkingar voru með tæplega 500 fjár á vetrarfóðrum og það hafi komið um 700 af fjalli. Það séu aðeins færri kindur í ár en í fyrra og verði örugglega færri á næsta ári.

Ómar Davíð Ólafsson, þessi í lopapeysunni, með gott tak á einni Bjarmalandssnót.

Ómar Davíð segir Matvælastofnun fylgjast með frístundabændum í Grindavík. „Við reynum að vanda okkur. Við erum engir dýraníðingar. Ef það steðjar hætta að fénu þá förum við með það.“

Finnst þér vera skilningur á því sem þið eruð að gera?

„Alls ekki. Hvorki hjá Matvælastofnun né Almannavörnum. Á þessu svæði sem við erum núna hér í Þórkötlustaðarétt er allt ósprungið og því skil ég ekki af hverju við megum ekki vera hér.“

Ómar Davíð og Bjarki Sigmarsson hafa verið með félagsbúið Bjarmaland. Bjarki ætlar að bregða búi núna en Ómar ætlar að halda ótrauður áfram. „Bjarki kemur kannski öflugur inn þegar jarðhræringum linnir. Það eru búnar að vera kindur á mínum bæ samfleytt í nær 100 ár. Það væri synd að hætta því núna. Það er svo rosalega mikil hefð fyrir þessu núna á þessu svæði.“

Hvað er þetta að gefa þér annað en gott á grillið?

„Þetta er að gefa mér ánægju og mikla vinnu. Það er gaman af þessu og að halda í hefðina. Þetta er lífsstíll.“


Nánar er fjallað um réttirnar og rætt við fleiri sauðfjárbændur í Suðurnesjamagasíni vikunnar.

Sauðfjárbúskapur lífsstíll Grindvíkinga | Þórkötlustaðarétt 22. september 2024