Mánudagur 28. október 2024 kl. 11:37

Stórkostleg skemmtun í Frumleikhúsinu

Leikfélag Keflavíkur frumsýndi um helgina farsann Allir á svið í leikstjórn Rúnars Guðbrandssonar. Farsinn er eftir Michael Frayn og í leikgerð Gísla Rúnars Jónssonar.

Í spilaranum hér að ofan má sjá viðtöl við leikstjóra, tvo leikarar og formann leikfélagsins sem tekin voru fyrir frumsýningu verksins. Einnig eru stuttar klippur úr upphafi sýningarinnar, þar sem framvinda sýningarinnar er ætluð þeim sem kaupa sig inn á verkið.

Farsinn er sprenghlægilegur og fjallar um leikhóp sem er að setja upp leiksýningu sem heitir Nakin á svið. Fyrir hlé fá áhorfendur að fylgjast með generalprufu sýningarinnar, síðustu æfingu fyrir frumsýningu.

Áhorfendur fá annað sjónarhorn eftir hlé og fylgjast þá með því sem gerist baksviðs meðan á sýningunni stendur. Þegar þar er komið við sögu hefur sýningin gengið í mánuð og er komin norður á Akureyri og ýmislegt farið að ganga á í verkinu.

Þriðji þáttur verksins gerist svo þegar sýningin er komin aftur suður yfir heiðar og á Vík í Mýrdal. Þá er heldur betur allt komið í skrúfuna hjá leikhópnum og samstarf leikaranna orðið súrt, svo ekki sé dýpra tekið í árinni.

Þessi uppfærsla Leikfélags Keflavíkur er stórkostleg skemmtun og sýningin vinnur á eftir því sem líður á hana. Verkið reynir mjög á leikarana þar sem það er óstöðvandi framvinda á sviðinu í þrjár klukkustundir. Þetta er eitt af því betra sem Leikfélag Keflavíkur hefur gert í langan tíma!

Næstu sýningar á verkinu eru föstudaginn 1. nóvember kl. 20 og sunnudaginn 3. nóvember kl. 20. Miðasala er á tix.is

Fólkið á bakvið tjöldin
Leikstjóri: Rúnar Guðbrandsson
Höfundur: Michael Frayn
Leikgerð: Gísli Rúnar Jónsson
Ljósa- og hljóðhönnun: Þórhallur Arnar Vilbergsson
Leikmyndahönnun: Davíð Örn Óskarsson