Suðurnesjamagasín: „Fyrir okkur er krían tákn sumarsins“
Vísindamenn frá fimm þjóðum hafa síðustu tvö sumur unnið að rannsóknum á kríu í landi Norðurkots í Sandgerði undir stjórn Dr. Freydísar Vigfúsdóttur sjávarlíffræðings og sérfræðings við Háskóla Íslands. Krían er merkilegur fugl. Kríur fara lengst allra fugla í sínu árlega fari. Þær eru heimsmeistarinn í farflugi sem núna er í fyrsta skipti skoðað með nýjustu tækni af mikilli nákvæmni.
MERKILEGT VERKEFNI
„Þetta er ótrúlega merkilegt verkefni og við erum í fyrsta skipti á Íslandi að setja út GPS-tæki á þessa athyglisverðu fugla. Þetta er líka í fyrsta skipti í heiminum sem við erum að skoða þetta far með tækjum sem gefa okkur þessa miklu nákvæmni. Kríur fara lengst allra fugla í sínu árlega fari. Þetta er heimsmeistarinn í farflugi sem við erum núna í fyrsta skipti að skoða með þessari nákvæmni. Krían hefur verið skoðuð áður með tækjum sem eru kölluð ljósritar en þau gefa bara 150-200 km. nákvæmni á meðan GPS-tækin segja okkur nákvæmlega hvar þær eru,“ segir Dr. Freydís í samtali við blaðamann Víkurfrétta, sem fylgdist með vísindafólkinu að störfum í heiðinni ofan við Norðurkot í Sandgerði í sumar.
„Nú getum við svarað spurningum um hvert þær fara nákvæmlega, hvar þær eiga stoppistöðvar á þessari farleið alveg suður á Suðurskautslandið. Stoppa þær í Vestur-Afríku eða stoppa þær í Brasilíu? Hvað eru þær lengi á Antartíkuskaganum og svo fram eftir götunum“.
Verkefni vísindafólksins er þríþætt. Einn þáttur þess, sem er mikilvægur fyrir okkur á Íslandi er hvar krían fer í æti. „Það er svo merkilegt við þau tæki sem við erum að nota í dag að þau gefa okkur gögnin í svokallaðan beini. Við erum með tæki sem við setjum á kríurnar og núna í morgun fengum við fyrstu niðurstöðurnar, þannig að við vitum hvar þær voru í æti í gær og í morgun. Þær flugu héðan frá Norðurkoti og allt upp í 20 km. út á Faxaflóa þar sem þær voru í æti og komu svo til baka og skiptu við makann sinn á hreiðrinu, þar sem þær eru ennþá að unga út eggjum,“ sagði Dr. Freydís þegar Víkurfréttir ræddu við hana 24. júní. „Þetta er í fyrsta sinn sem við fáum þessar upplýsingar fyrir Ísland. Þessi tæki með beini eru núna í fyrsta skipti notuð til að skoða far þessara fugla“.
KRÍAN ANNAST LOFTVARNIR FYRIR ÆÐARBÆNDUR
— Erum við að fá mun nákvæmari mynd af ferðalagi þessara fugla en áður var þekkt?
„Miklu nákvæmari mynd. Þetta er í fyrsta skipti fyrir vísindaheiminn og að þetta sé gert hér í Norðurkoti er bara dásamlegt“.
Einn þátturinn í verkefninu er að skoða þetta sambýli á milli æðarfugla, æðarbænda og kríunnar. Þar er velt upp spurningunni hvort það sé kostur fyrir æðarræktina að vera með kríur og er það kostur fyrir kríurnar að fá að verpa innan æðarvarpsins? „Fyrstu upplýsingar sem við erum að fá út úr þeirri rannsókn er að það er betri álega, fleiri egg í hreiðri og álegan fór fyrr af stað inni í æðarvarpinu heldur en hérna utan æðarvarpsins. Ég hugsa að æðarbændurnir veiti kríunni skjól. Og þar sem við höfum verið að tala við æðarbændur, þá er kostur fyrir þá að vera með kríunar sem loftvörn fyrir æðarvarpið sitt“.
— Er krían það skynsamur fugl að hún veit að hún fær verndina hér í æðarvarpinu?
„Já, ég er alveg sannfærð um það og svo eru Hanna Sigga og Palli svo dásamleg. Hver vill ekki vera hjá þeim?“ segir Dr. Freydís og vísar þar til Sigríðar Hönnu Sigurðardóttur og Páls Þórðarsonar sem eru æðarbændur í Norðurkoti en þau hafa skotið skjólshúsi yfir vísindafólkið.
MEÐ STUÐNING FRÁ NATIONAL GEOGRAPHIC
— Þú ert með fullt af fólki hérna með þér í þessu verkefni. Hvað ætlið þið svo að gera við þessar niðurstöður og hversu umfangsmikil er rannsóknin?
„Við erum að minnsta kosti fimm þjóðlönd komin hérna saman. Þetta byrjaði þegar ég var sjálf í starfi við Exeter Háskóla í Bretlandi og kynntist þar samstarfskonu minni, henni dr. Lucy Hawkes sem svo kynnti mig fyrir samstarfskonu sinni, dr. Söru Maxwell. Sara er við Washington-háskóla í Seattle í Bandaríkjunum. Hér eru svo tveir doktorsnemar frá Exeter háskóla. Svo eru meistaranemendur mínir hérna og einnig breskur fuglaljósmyndari sem hjálpar okkur að finna fótamerkin og tækin. Við erum í það minnsta átta hérna að vinna bara í þessu.
Við byrjuðum að vinna að rannsóknina í fyrra, fengum styrk frá National Geographic þannig að við gætum keypt svolítið af þessum tækjum. Ég fékk svo styrk frá Háskóla Íslands til að kaupa fleiri tæki sem við erum að setja út núna í ár. Sara fékk einnig styrk frá háskóla sínum.
Þetta er umfangsmikið verkefni, þvert á vísindalegt samfélag. Það fara talsverðir fjármunir í þessa rannsókn. Við erum að svara mikilvægum spurningum og það verður frábært þegar við náum tækjunum og upplýsingunum til baka. Þá kemur það í hlut okkar að leiðbeina doktorsnemum og meistaranemendum að skrifa góða pistla og vísindagreinar sem ég er sannfærð um að verði veigamikið fyrir vísindaheiminn og þessa þekkingu í vísindaheiminum.
Einnig fyrir samfélag okkar því fyrir okkur er krían tákn sumarsins. Hún er svo mikilvæg fyrir okkur eins og aðrir sjófuglar. Hún segir okkur hvað er að gerast í hafinu sem ávitar á heilbrigði hafsins. Hingað til hefur krían sagt okkur að miklar breytingar hafi átt sér stað í umhverfi sjávarins í kringum Ísland. Sérstaklega hér við sunnanvert landið þar sem sandsíli hefur hrunið og sjófuglum hefur gengið illa. Kríurnar gefa okkur þessar upplýsingar mjög hratt, þær munu gefa okkur þær ennþá hraðar og miklu betur með þessum tækjum. Hvert þær fara í æti, hvað þær eru lengi í ætisleitinni, hvað þær eru að koma með til baka og það sjáum við þegar þær koma aftur að hreiðrinu. Þessar upplýsingar eru bæði mikilvægar fyrir vísindasamfélagið og einnig okkar íslenska samfélag. Með þessum upplýsingum getum við betur tekið ákvarðanir um hvernig við ætlum að stjórna umhverfismálum og málefnum hafsins.“
KRÍAN LENTI Í KREPPU EINS OG ÍSLENSKT SAMFÉLAG
— Við sem ólumst upp við kríuvarpið sjáum að varpsvæði hennar hefur tekið miklum breytingum á fáum árum.
„Já. Það kemur að því sem ég sagði áðan með þessa krísu sem hefur verið hjá flestum sjófuglum, sérstaklega hér á suður- og vesturlandi þar sem sílið hefur verið af skornum skammti og sumir tala meira að segja um hrun. Ég hef oft talað um það að kríur séu í kreppu. Á sama tíma og kreppa kom yfir íslenskt samfélag þá kom kreppa yfir þessa sjófugla líka. Þær virðast ekki hafa rétt úr kútnum. Svæðisbundið virðast vera góð ætissvæði. Fyrir tveimur árum voru þau við Faxaflóa, einhver svæði fyrir norðan en heilt á litið hefur þetta verið afskaplega lélegt hjá flestum sjófuglum. Það er eitthvað sem gefur rannsóknum eins og þessum mikið vægi, að við séum ennþá að fylgjast með ástandinu. Rannsóknir með þessi tæki gefur okkur upplýsingar miklu hraðar, frekar en að verja mörgum árum í að fylgjast með viðkomu og stærðum sjófuglastofna, heldur líka að skoða hvað fuglarnir eru að gera og hvert þeir fara í æti. Þetta sem þú ert að lýsa rímar nákvæmlega við það sem við höfum verið að mæla. Þetta er eitthvað sem er alveg þess virði að halda áfram að fylgjast með.“
— Hvað gefur þessi búnaður ykkur langan tíma til að fylgjast með kríunni?
„Þessi GPS-tæki rita gögnin þannig að við þurfum annað hvort að fá sendinguna til baka í þennan beini hér við Norðurkot eða að ná tækinu til baka til þess að lesa af því. Með því að hafa það þannig í stað þess að senda upplýsingarnar upp í gervitungl, þá náum við að safna miklu fleiri gögnum, heldur en ef við værum með gervitunglatæki.
Við fáum gögn að minnsta kosti á 15 mínútna fresti á meðan þeir eru hérna í varpinu. Þann 1. september þá breytir tækið um dagskrá og tekur mælingu fjórum sinnum á sólarhring. Þá fáum við upplýsingar fjórum sinnum á sólarhring um hvar fuglinn er og hver hreyfingin er. Þetta gefur okkur nákvæmar upplýsingar um hvar kríurnar eru. Þessi upplýsingaöflun verður í gangi allan ársins hring þangað til þær koma aftur hingað til Hönnu Siggu og Palla næsta vor. Þá náum við tækjunum aftur eða hlöðum niður frá þeim í beininn og fáum heilt ár af þessum upplýsingum. Þá getum við tekið tækin aftur af kríunni og endurhlaðið þau, forritað upp á nýtt og sett þau aftur út. Ef að endurheimtan gengur vel, sem hefur gengið hingað til, þá getum við haldið áfram svo lengi sem við höfum rannsóknarpening, nennu og getu til að standa í þessu.“
— Hvað vitið þið um kríuna í dag, er hún trú varpsvæðum sínum?
„Það er alveg ótrúlegt hvað þær eru nákvæmar. Við erum búin að finna nítján fugla af þeim sem við merktum í fyrra á hreiðrum. Það hefur varla skeikað metra. Sumar fara nákvæmlega í sömu skálina og þær voru í í fyrra. Við erum með sérmerkt hreiður með GPS-merkingum og vitum nákvæmlega hvar þau voru. Af þessum nítján fuglum var aðeins einn fugl sem ákvað að færa sig og hann færði sig alveg um tvo metra,“ segir Dr. Freydís og brosir.
VERJA UNGVIÐIÐ AF ÖLLU AFLI
— Hvað er það við kríuna sem er að heilla þig svona mikið?
„Það er ansi margþætt. Ég kynnist kríunum fyrst sem krakki á Vestfjörðum og svo þegar ég var sjálf í doktorsnámi fyrir áratug og það var allt svona á varpstöðum. Árásargirni er það fyrsta sem mér kemur í hug og örugglega flestum Íslendingum. Ég ber svo mikla virðingu fyrir kríunni vegna árásargirninnar. Það sem þær eru fyrst og fremst að gera er að berjast fyrir ungviði sínu. Þær eru búnar að koma alla leið frá Suðurskautinu, alla leið yfir hnöttinn, og verpa hér. Ástæðan fyrir því að þær eru að verja varpið sitt, er að þær verða að koma þessum ungum á legg á svo rosalega stuttum tíma. Ég hef virðingu fyrir þeim að hafa getu til að gera þetta og að þær hafi þennan kraft til að passa upp á ungana sína og koma þeim á legg. Þetta er ekkert smá mikil vinna. Svo þessi virðing sem við höfum fyrir henni, sem erum að læra núna um ferðalag kríunnar alla þessa leið. Ég held því að mín tilfinning sé fyrst og fremst viðring.“
— Ef krían kemur ekki unganum á legg á tilsettum tíma, er það þá tilfellið að þær fari án hans?
„Já. Það er tilfellið með öll dýr sem eru langlíf og koma upp fáum ungviðum á lífstíð sinni, að þau fórna ekki sínu eigin heilbrigði fyrir ungana og geta því tekið þá ákvörðun að reyna bara á næsta ári. Það er það sem við sjáum með nánast allar sjófuglategundir, kríur eru ekkert öðruvísi. Þess vegna sjáum við það að þegar tíðin er slök þá verða þær bara að skilja eftir ungann og verða að halda áfram sínu fari og geta komið aftur og reynt á næsta ári. Það er oft nóg fyrir þessa sjófuglastofna til að halda viðkomunni að þurfa ekki að koma upp ungum á hverju einasta ári. Þessu er öfugt farið með ýmsa smáfugla sem hafa bara einhver fimm ár og þá er lífið búið og þurfa því að koma upp mörgum í einu. Sjófuglar lifa lengi og geta því sleppt ári.
Þetta gefur okkur tækifæri ef við fylgjumst vel með, að þetta segir okkur til um ástand sjávar. Ef þær eru að skilja ungana eftir þá er ekkert að gerast úti í sjónum, ekkert æti og þess vegna taka þær þessa ákvörðun.“
VORU VIKU OF SEINAR
Þegar við tókum viðtal við Dr. Freydísi voru ungarnir að byrja að skríða úr eggjum. Vísindafólkið hafði því verið við eggjamælingar í tíu daga.
„Þetta leit ekkert vel út í byrjun en það er líflegra yfir varpinu núna. Þær voru alveg viku of seinar miðað við mælingar í fyrra. Árið í fyrra var ekkert voðalega gott hér á Suð-Vesturlandi fyrir kríuna. Þó að krían sé sein, þá er lykilatriði fyrir hana að það sé æti til staðar þegar unginn klekst út.“
— Eruð þið að sjá hana koma með æti?
„Já, með tækjunum erum við að sjá hvert krían er að sækja æti og við fylgjumst svo með henni hér í varpinu þegar hún kemur í hreiðrið. Við erum svo með ljósmyndir af ætinu, þannig að þetta gæti ekki verið nákvæmara.“
KRÍAN GEFUR NÁKVÆMA MYND
— Og eru þessar upplýsingar nýtast mörgum stofnunum?
„Ekki spurning. Vísindastofnanir sem vinna með málefni sjávarins. Þetta nýtist þeim öllum. Þetta nýtist líka samfélaginu og yfirvöldum. Við fáum núna gríðarlega nákvæma mynd af því hvar kríurnar eru að fara í æti. Ef við komumst að því að þar eru einhverjar aðgerðir af okkar hálfu í gangi sem gætu haft áhrif á náttúruna, þá væri það slæm hugmynd. Þessi rannsóknaraðferð og þessi tæki og vinna, hún nýtist mjög vel við verndun hafsvæða og ákvarðanir sem við tökum um málefni hafsins, hvort sem það eru veiðar, verndarsvæði eða hvað það er sem við myndum ætla að setja upp á þessum hafsvæðum. Hvort sem það væru olíuborpallar eða annað, þá nýtast þessar upplýsingar vel við svoleiðis ákvarðanatöku.“
Ástandið hjá kríunni var mun skárra í ár en undanfarin ár. Henni virðist hafa tekist að koma ungviðinu á legg í sumar en Dr. Freydís segir það þó engin merki um að kreppunni hjá sjófuglunum sé lokið.
Krían er núna nær öll lögð upp í langferðina til Suðurskautslandsins en síðustu kríurnar eru þessa dagana að búa sig til brottfarar frá varpstöðvum við Norðurkot.
Ljósmyndir: Kristinn Ingvarsson, Hilmar Bragi Bárðarson, Dr. Freydís Vigfúsdóttir og úr safni Víkurfrétta.