Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 12. október 2024 kl. 06:17

„Þetta er ákveðið púsluspil“

Hjónin Rúnar Ingi Erlingsson, körfuknattleiksþjálfari, og Natasha Anasi-Erlingsson, landsliðskona í knattspyrnu, kynntust árið 2016 en upphaf þeirra kynna voru frekar óhefðbundin. Þau byrjuðu að spjalla saman á stefnumótaforriti og ákváðu eftir stutt kynni að hittast í raunheimum og eftir það var ekki aftur snúið. Í dag eru þau hamingjusamlega gift og hafa stofnað til fallegrar fjölskyldu með börnum sínum Harper Eyju og Óliver Daða. Víkurfréttir hittu Rúnar, Natöshu og Harper Eyju á heimili þeirra í Keflavík og spjölluðu við þau um annasamt líf íþróttafjölskyldunnar.

Skoraði í Meistarakeppni Evrópu

Það er mikið að gera hjá ykkur; Rúnar, þú ert tekinn við meistaraflokki karla í körfubolta hjá Njarðvík og Natasha, þú ert að spila með Val, íslenska landsliðinu og nýkomin heim úr atvinnumennsku – Harper; þú ert að æfa fótbolta, fimleika og ætlar að fara að æfa ...

„... körfubolta,“ svarar Harper að bragði.

Harper Eyja á æfingu með meistaraflokki kvenna í Njarðvík á síðasta tímabili.

Hvar finnið þið tíma fyrir þetta allt saman?

„Þetta er ákveðið púsluspil en við höfum ekki mikinn tíma í önnur hobbý eins og golf eða fara í útilegur eða sumarbústaðaferðir,“ segir Rúnar. „Þetta er svolítið lífið okkar og það sem við erum vön. Þetta hefur reyndar alltaf verið svona og þegar maður er ekki vanur öðru og hefur gaman af þessu, það er lykilatriði – okkur finnst þetta gaman.“

„Það er lykilatriði. Oft þegar við Harper höfum ekkert að gera þá förum við og kíkjum á æfingar hjá Rúnari,“ segir Natasha og skellir upp úr. „Okkur finnst gaman að vera í íþróttum, vera úti í fótbolta eða þau mæta snemma fyrir leikina mína bara til að spjalla við þjálfarana – okkur finnst bara gaman að vera í kringum íþróttir.“

Síðasta árið hefur Natasha verið að spreyta sig í atvinnumennsku hjá Brann í Noregi en á meðan voru Rúnar og Harper hér heima.

„Mér fannst þetta æði. Það var svolítið erfitt fyrst, ég meiddist og ég fékk líka leyfi til að koma heim svo við segjum að þetta hafi ekki verið svo erfitt í byrjun af því að ég var svolítið mikið heima og ég þurfti mikla hjálp frá Harper, Rúnari og Óliver. Svo þegar ég byrjaði að spila aftur þá var það líka mjög skemmtilegt af því það voru nokkur box sem ég vildi tikka í og ég náði að gera næstum allt sem ég vildi gera.

Það stærsta sem ég náði var að spila í Meistaradeildinni og mér tókst líka að skora í Meistaradeildinni. Svo ég held að það hafi gengið ágætlega úti, ég ætlaði að klára tvö ár en ég held að þetta eina og hálfa hafi verið nóg. Þegar kom að sumarglugganum fannst mér ég vera tilbúin að koma heim og þegar ég fór að spjalla um það við þau [Rúnar og Harper] fannst þeim ekki leiðinlegt að ég væri að koma aftur – og við létum verða af því.“

Natasha og félagar í Brann fagna sigurmarki hennar gegn St. Pölten frá Austurríki í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.

Natasha sneri því aftur heim og gekk til liðs við Íslandsmeistara Vals í júlí. „Ég vildi fara í lið sem myndi reyna að spila í Meistaradeildinni og ég sagði við Rúnar að mér litist vel á Val. Ég veit ekki af hverju, ég fékk bara þessa tilfinningu að ég myndi líka passa vel inn í liðið. Svo ég talaði við umboðsmanninn minn sem setti sig í samband við Val og það gekk bara upp.“

Hrotið í beinni

Natasha segir að sér hafi fundist hún ekki fá að spila nógu mikið og það hafi einnig haft áhrif á hennar ákvörðun. „Ég vildi spila meira, ég vissi líka að ég þyrfti að spila meira til að komast aðeins meira inn í landsliðið. Þannig að ég vildi koma heim til að fá meiri leiktíma og líka til að vera nærri fjölskyldunni. Það var svolítið erfitt að vera ein úti, eins gaman og það var að vera atvinnumaður og geta einbeitt sér að því á hverjum degi, þá var erfitt að koma heim á hverju kvöldi þegar það var enginn til að taka á móti mér.“

„Að vissu leyti var mikið að gera hjá okkur,“ segir Rúnar. „Börnin í sínum skóla og tómstundum og ég auðvitað í fullri vinnu og að þjálfa kvennalið Njarðvíkur í fyrra. Ég held að við höfðum varla tíma til þess að pæla í því hvort þetta var erfitt – vorum eiginlega of upptekin til að taka eftir því.

Dagarnir voru langir og strangir, bara koma heim og baða sig, klára heimalestur og fara svo jafnvel beint að sofa – svo byrjaði þetta bara upp á nýtt.

Maður fann kannski einhverjar mínútur, stundum upp í einhverja klukkutíma, þar sem tæknin hjálpar og maður gat verið á Facetime. Síminn á náttborðinu og áður en maður vissi af var maður farinn að hrjóta í beinni til Noregs. Við látum verkefnin ganga upp, hvort sem það var að búa í sitthvoru landinu eða tækla þau verkefni sem eru hér heima.“

Nýtt upphaf hjá körfuknattleiksdeildinni

Rúnar hefur þjálfað meistaraflokk kvenna hjá Njarðvík síðustu sex ár og náð góðum árangri með liðið á þeim tíma, m.a. fór hann alla leið og gerði liðið að Íslandsmeisturum árið 2022.

„Ég var fyrst í tvö ár sem aðstoðarþjálfari með frænda mínum, Ragnari Ragnarssyni, síðan fjögur ár sem aðalþjálfari. Sex ár er langur tími í íþróttum og fyrir þjálfara en samt alveg ótrúlega skemmtilegur tími. Tími sem hefur mótað mig að vissu leyti sem þjálfara, ég var tiltölulega nýkominn inn í þetta þegar ég fer að vinna með kvennaliðinu. Þetta búinn að vera ótrúlega skemmtilegur tími enda geggjaðar körfuboltastelpur í Njarðvík – og ég held að við séum búin að ýta menningunni upp og koma okkar kröfum á framfæri. Það voru töluvert fleiri atriði sem maður var að lenda í þarna fyrst, þegar það var verið að búa til standarda og venjur. Hlutirnir þurfa að vera á háu stigi, hvort sem það eru karlar eða konur. Það er líka búin að vera góð stjórn sem hefur viljað setja markið þangað.“

Rúnar lyftir Íslandsmeistarabikarnum þegar Njarðvík varð Íslandsmeistari kvenna árið 2022.

Rúnar segir að ef honum hefði ekki boðist að taka við karlaliði Njarðvíkur hefði hann sennilega tekið sér frí frá þjálfun. „Mögulega til að hafa aðeins minna að gera og geta kannski farið einhvern tímann í frí með fjölskyldunni en þegar tækifærið kemur til að taka við strákunum þá varð ég auðvitað spenntur að takast á við nýja áskorun – en líka þessir spennandi nýju tímar í Njarðvíkunum, að fara í nýtt íþróttahús og taka þátt í þeirri breytingu og ákveðnu nýju upphafi hjá körfuknattleiksdeildinni. Ég var ekki tilbúinn að stíga frá körfuboltanum í Njarðvík og fara í að vera bara stuðningsmaður akkúrat á þessum tímamótum, mig langaði til þess að taka þátt í því. Þannig að ég gerði tveggja ára samning og er spenntur að sanna mig á nýjum vettvangi.“

Ákvarðanir sem önnur pör þurfa ekki að taka

Natasha, sem gekk til liðs við ÍBV árið 2014, segist hafa orðið vör miklar framfarir í kvennaíþróttum á þessum tíu árum sem hún hefur búið á Íslandi.

Ef við snúum okkur aðeins aftur í tímann, hvernig kynntust þið?

„Það var í febrúar 2016, þá er ég að „svæpa“ á Tinder og sé myndir af þessari fallegu konu,“ segir Rúnar og Natasha hlær. „Ég viðurkenni svo sem alveg að ég hafði ekki hugmynd um hvort hún byggi á Íslandi eða ekki en ég hendi í ákveðið „súper læk“ og veit þá að hún fær tilkynningu um að mér hafi litist vel á hana – og er bara heppinn að hún samþykkti það til baka.

Ég sagði henni að ég væri að horfa á háskólaboltanum í körfu og úrslitakeppnin var að byrja og þá spurði hún mig hvort ég vissi hvað Duke University væri. Ég sagði henni að við hérna á Suðurnesjum, sérstaklega ef þú ert eitthvað tengdur körfuboltanum, erum meðvituð um margt sem tengist bandarískri menningu og íþróttamenningu. Þannig að ég bauð henni að koma og horfa á Duke – og hún tók Herjólf í skítaveðri og kom sér í bæinn. Ég sótti hana þangað og hér erum við í dag – og ég nánast flutti til Vestmannaeyja þetta sumarið, var þar í öllum vaktafríum.“

Rúnar segir að þetta sumar hafi hann mætt á alla leiki sem hann gat mætt á. „Sama hvort það var að keyra á Akureyri og horfa á undanúrslit í bikar eða eitthvað annað. Ég hef bara gaman að þessu og vil styðja við hana eins og hún við mig.“

Það var svo í lok þess sumars að Rúnar og Natasha stóðu frammi fyrir ákvörðun sem önnur pör þurfa alla jafna ekki að taka eftir einungis sex mánaða samband.

Brúðkaupsdagurinn 2. október 2018 (sem er líka afmælisdagur Natöshu). „Við eigum ennþá eftir að halda brúðkaupspartýveislu,“ segja hjónin.

„Við vorum búin að vera saman í hálft ár en hennar samningur var að enda og hún kannski með plön um að fara aftur til Ameríku og ekkert endilega að koma aftur til Íslands. Við stöndum þá á ákveðnum tímamótum og þurfum að taka stærri ákvörðun en önnur pör þurfa endilega að taka. Hún var tilbúin að taka séns á mér og setjast að á Íslandi – og núna eigum við þessa fallegu sjö ára stelpu og þetta fína heimili og erum bara búin að koma okkur vel fyrir,“ segir Rúnar en viðtalið í heild sinni má sjá í spilaranum hér að ofan.