Vilja gera bæinn sinn flottan
Fjórmenningar í byggingafyrirtækinu Reykjanes Investment í Reykjanesbæ eru með nokkra bolta og byggingakrana á lofti. Byggja nærri 300 íbúðir á þremur stöðum í Keflavík á nokkrum árum við sjóinn eða nálægt honum.
„Það er fullt af boltum á lofti og þetta getur alveg verið stressandi en það verður að hafa nóg fyrir stafni. Verkefnin á Hafnargötu og í Gróf eru umbótaverkefni í sveitarfélaginu og hópurinn okkar brennur fyrir því að gera hlutina fallega og vel,“ segja þeir Magnús Guðmundsson og Sigurgeir Jóhannsson hjá fyrirtækinu Reykjanes Investment. Þeir félagar eru tveir af fjórum eigendum fyrirtækisins sem er aðeins fjögurra ára gamalt. Með þeim eru feðginin Viktoría Hrund Kjartansdóttir innanhúsarkitekt og Kjartan Guðmundsson fjárfestir en hún hefur komið að hönnun og vali á innréttingum og fleiru í verkefnum fyrirtækisins.
Fyrirtækinu hefur vaxið fiskur um hrygg á stuttum tíma. Þeir Magnús, Sigurgeir og Viktoría eru á kafi í rekstrinum en faðir hennar fylgist með úr fjarska. Fastir starfsmenn auk þeirra eru á annan tuginn og þegar veltan eykst þarf fjármálastjóra sem verið var að ráða. Þau þrjú eru ung eða á milli þrítugs og fertugs. Eldmóðurinn er mikill, áhuginn líka og tengist því að gera bæinn sem þau eru alin upp í flottari. Víkurfréttamenn hittu þá Magnús og Sigurgeir við húsaflutning á Hafnargötu og notuðu tækifærið og ræddu við þá um framkvæmdirnar þar og starfsemi fyrirtækisins.