Bikarhetjur Keflvíkinga
Þeir höfðu góðar fyrirmyndir en fengu líka óvænta en góða þjálfun frá Júgóslava. Kynslóðin sem vann bikartitla Keflavíkur 1997, 2004 og 2006 var kvödd með heiðursleik.
Keflvíkingar sem hafa verið í eldlínunni með knattspyrnuliði félagins undanfarna tvo áratugi voru heiðraðir á Nettó-vellinum sl. sunnudag en þá fór fram heiðursleikur þeim til handa gegn úrvalsliði Baldurs Sigurðssonar sem lék með Keflavík í nokkur ár. Um fjögurhundruð ungmenni sem voru sérstakir gestir á leiknum klöppuðu þessum goðsögnum, sem nú eru flestar búnar að leggja skóna á hilluna, lof í lófa. Nær öruggt er hægt að telja að í þeim hópi séu leikmenn sem eiga eftir að taka við keflinu fyrir Keflavík í framtíðinni.
Sigurður Björgvinsson, fyrrverandi leikmaður og þjálfari árin 1997 til 1990 og Kjartan Másson, fyrrverandi þjálfari hjá Keflavík, stýrðu þessu goðsagna-liði Keflavíkur í úrvalsleiknum. Þeir voru sammála um að þessir ellefu leikmenn sem verið var að heiðra hafi sett mjög sterkan svip á Keflavíkurliðið undanfarna áratugi en flestir þeirra léku sinn fyrsta meistaraflokksleik með Keflavík á aldrinum 16 til 19 ára og komu inn í hóp á árunum 1995 og næstu ár á eftir. Elstur í hópnum er Jóhann Birnir Guðmundsson en næst elstur er félagi hans, Haukur Ingi Guðnason, en hann lék einmitt fyrsta leikinn í meistaraflokki 1995 gegn Leiftri. Yngstir í þessum hópi eru þeir Hólmar Örn Rúnarsson, Guðjón Árni, Hörður Sveinsson og Jónas Guðni Sævarsson en þeir léku allir með félaginu í Inkasso-deildinni í sumar. Jónas hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna en hinir hafa ekki ákveðið hvort þeir spretti úr spori eitthvað meira á vellinum.
Engir „ganni-leikir“
Það var góð stemmning á Nettó-vellinum þegar heiðursleikurinn fór fram sunnudaginn 24. sept. Kjartan Másson og Sigurður Björgvinsson stýrðu liðinu og sá fyrrnefndi hélt góða ræðu fyrir leik og setti upp skipulag í búningsklefanum. „En strákar,“ sagði Kjartan, „það er ekkert sem heitir „gannileikur“. Við ætlum að vinna þennan leik.“ Undir það var tekið í klefanum þó allt hafi ekki gengið eins og til var sáð því „gannileikurinn“ tapaðist gegn úrvalsliði Baldurs Sig 2-3. Í því voru nokkrir kunnir kappar, m.a. markamaskínan Tryggvi Guðmundsson, en hann var í Eyja-liðinu sem varð Íslandsmeistari 1997 en tapaði fyrir Keflavík í bikarúrslitunum sama ár. En þarna voru líka þekktir Grindvíkingar eins og Skotinn Scott Ramsay, Grétar Hjartarson, Ray Anthony og Skagamaðurinn Gunnlaugur Jónsson. Svo auðvitað fyrrverandi Keflvíkingar eins varnarmaðurinn Guðmundur Mete og Þorsteinn Bjarnason sem var í markinu. Aldursforseti leiksins að nálgast sextugt en í flottu formi og stóð sig frábærlega í leiknum. „Eigið þið auka markmannshanska?“ spurði Steini og beindi orðum sínum til Ómars Jóhannssonar sem var í hinu markinu og varði mark Keflavíkur um árabil. Stuttu seinna kom hann með hanska handa Steina Bjarna. „Ég notaði ekki hanska árið 1979,“ sagði hann og hló, en hann fékk líka lánaða litríka fótboltaskó sem voru ekki til þegar hann var í markinu. „Þorsteinn nafni minn Ólafsson notaði aldrei hanska í gullaldarliði Keflavíkur,“ bætti hann við og sagði tímann í markinu með Keflavík hafa verið frábæran. Keflvíkingar voru mjög „ríkir“ af markvörðum í mörg ár og hafa oftast verið. Þorsteinn Bjarnason tók við af Ólafssyni og báðir léku þeir með landsliðinu eins og Bjarni Sigurðsson sem kom í kjölfarið og var alinn upp í Keflavík. Skagamenn nældu sér í hann. Á eftir þeim þremur komu fleiri góðir markmenn eins og Ólafur Pétursson og nafni hans Gottskálksson.
Fyrirmyndir mikilvægar
Sigurður Björgvinsson er einn litríkasti leikmaður í sögu Keflavíkur en þegar hann var að hætta að spila fótbolta fór hann fljótlega í þjálfun og tók við Keflavíkurliðinu af Kjartani Mássyni. Hann og Gunnar Oddsson tóku þá við þjálfun og gerðu liðið að bikarmeisturum 1997 en þá hafði ekki unnist titill í 22 ár eða frá bikarmeistaratitli 1975. „Strákar úr þessum hópi sem verið er að kveðja núna voru gríðarlega efnilegir og góðir ungir knattspyrnumenn. Maður sá það mjög snemma í yngri flokkunum. Hluti hópsins var í liðinu 1997 og það var gaman að hafa verið með þeim. Það var alltaf verið að bíða eftir nýju gullaldarliði hjá Keflavík en þarna kom fyrsti titillinn af þremur á næsta áratug. Eitt mikilvægasta málið í þessu fótboltauppeldi er að hafa fyrirmyndir og þessir strákar höfðu þær,“ segir Sigurður.
Bikarinn 1997 eftirminnilegastur
En þá aðeins að goðsögnunum sem eru nýlega hættar. Jóhann Birnir lék sitt síðasta tímabil með Keflavík í sumar, þá 39 ára gamall en á fertugasta ári. Hann hefur nú lagt keppnisskóna á hilluna en er hvergi hættur í fótbolta því hann stýrir yngri flokka starfinu hjá Keflavík.
„Bikarmeistaratitillinn árið 1997 er ógleymanlegur þegar þú spyrð mig út í ferilinn. Ég gleymi reyndar ekki árinu 2008 þegar við vorum með frábært lið en við misstum af Íslandsmeistaratitlinum í blálokin.“
Svo fórstu í atvinnumennsku og lékst m.a. með Watford í ensku úrvalsdeildinni og fleiri liðum annars staðar
„Það var mögnuð reynsla og afrek þó ég hafi ekki mikið hugsað út í það þá að komast í ensku deildina. Maður lærði mikið og upplifði atvinnumannadrauminn,“ segir Jóhann. Hann telur að það sé mikilvægt til framtíðar litið að halda mjög vel utan um yngri flokka starfið og fá góða þjálfara. „Í þremur bikarmeistaraliðum Keflavíkur (1997-2004-2006) voru að lang mestu leyti heimamenn. Það skiptir máli og er að gerast núna og sást vel í Inkasso-deildinni í sumar. Við erum með stóran hóp efnilegra knattspyrnukrakka í yngri flokkum og framtíðin er björt. Þess vegna skiptir máli að ungdómurinn hafi fyrirmyndir, líkt og við höfðum, eins og í Ragnari Margeirs, Sigga Björgvins, Óla Þór Magg og fleirum.
Ógleymanlegt hjá Liverpool
Haukur Ingi Guðnason fór eins og Jóhann Birnir í atvinnumennsku ungur að árum en 19 ára fékk enska stórliðið Liverpool drenginn og þar var hann í þrjú og hálft ár. „Þetta var mikil reynsla og ógleymanlegur tími, draumi líkast. Ég kynntist og spilaði með stórstjörnum eins og Robbie Fowler, Michael Owen og Steven Gerrard sem var að koma upp úr unglingaliði félagsins á þessum tíma,“ segir hann aðspurður út í atvinnumannadrauminn. Haukur er bjartsýnn á framtíð knattspyrnunnar í Keflavík.
„Uppbyggingarstarf gengur vel og vonandi styttist í næsta Íslandsmeistaratitil. Það eru margir ungir og mjög efnilegir leikmenn sem hafa alist upp hjá liðinu núna. Ég er mjög spenntur fyrir framtíðinni hjá Keflavík. Ég á ótrúlega góðar minningar og leið alltaf vel í Keflavík, átti frábæra tíma hjá félaginu og finnst alltaf gaman að koma í bæinn þó ég búi þar ekki lengur. Ég finn alltaf fyrir mikilli væntumþykju og hlýju þegar í kem í Keflavík. Mér þykir rosalega vænt um þennan bæ,“ sagði Haukur en hann og Guðmundur Steinarsson eru báðir synir Gullaldarliðsmanna Keflavíkur. Guðni Kjartansson var fyrirliði liðsins þegar það vann 3 af 4 Íslandsmeistaratitlum á tæpum áratug, var nýkominn í liðið 1964 og þjálfaði svo liðið 1975 þegar fyrsti bikarinn vannst í fyrsta skipti. Steinar, pabbi Guðmundar, var markahrókur liðsins á sama tíma og var í liðinu þegar það vann alla þessa titla nema árið 1964 en þá var Guðni nýkominn í hópinn. Steinar var lang markahæstur leikmanna Keflavíkur þangað til Guðmundur sonur hans tók þann titil en hann hefur skorað 102 mörk fyrir Keflavík í deild-, bikar- og Evrópukeppnum.
„Ferilskrá“ hvers og eins leikmanns:
Magnús Sverrir Þorsteinsson 1982. 277 leikir á 17 tímabilum. Bikarmeistari 2004, Bikarmeistari 2006, 7 Evrópuleikir. Lék á sínum tíma leiki með öllum yngri landsliðum Íslands.
Guðmundur Steinarsson 1979. 275 leikir á 15 tímabilum. Bikarmeistari 1997, Bikarmeistari 2004, Bikarmeistari 2006, 10 Evrópuleikir, 3 A-landsleikir. Markahæsti leikmaður í sögu félagsins með 102 mörk í Íslandsmóti, bikar- og Evrópukeppnum.
Haraldur Freyr Guðmundsson 1981. 225 leikir á 14 tímabilum. Bikarmeistari 2004, 2 leikir með A-landsliði.
Jóhann Birnir Guðmundsson 1977. 203 leikir á 14 tímabilum. Bikarmeistari 1997, 8 Evrópuleikir, 8 A landsleikir.
Hólmar Örn Rúnarsson 1981. 225 leikir á 13 tímabilum. Bikarmeistari 2004, Bikarmeistari 2006. 8 Evrópuleikir. Lék með U21 landsliði.
Guðjón Árni Antoníusson 1983. 233 leikir á 13 tímabilum. Bikarmeistari 2004, Bikarmeistari 2006, 11 Evrópuleikir, 1 A-landsleikur.
Þórarinn Brynjar Kristjánsson 1980. 189 leikir á 12 tímabilum. Fagnaði tvítugsafmæli sínu með 55 leiki og lék sinn síðasta leik aðeins 28 ára gamall. Bikarmeistari 1997, Bikarmeistari 2004, Bikarmeistari 2006, 6 Evrópuleikir. Lék með öllum yngri landsliðum Íslands.
Hörður Sveinsson 1983. 214 leikir á 12 tímabilum. Bikarmeistari 2004, 6 Evrópuleikir, Markahæsti leikmaður í Evrópukeppnum í sögu Keflavíkur með 5 mörk. Lék með U21 árs landsliði Íslands.
Ómar Jóhannsson 1981. 195 leikir á 11 tímabilum. Bikarmeistari 2006, 9 Evrópuleikir, fjölmargir U21 landsleikir.
Jónas Guðni Sævarsson 1983. 143 leikir á 8 tímabilum. Bikarmeistari 2004, Bikarmeistari 2006. 10 Evrópuleikir, 7 A-landsleikir.
Haukur Ingi Guðnason 1978. 94 leikir á 6 tímabilum, auk 16 leikja sem þjálfari. Bikarmeistari 1997, 4 Evrópuleikir, 8 A-landsleikir.
Búum að þjálfun Velimirs
„Það er hrikalega gaman að hafa náð þessum þremur bikartitlum á áratug. Skemmtilegasti titillinn af þessum þremur er sigurinn 2006 en þá unnum við KR í úrslitum en við höfum ansi oft eldað grátt silfur við þá. Við vorum miklu betri í leiknum og unnum sannfærandi sigur. Það var mjög sætt,“ segir Guðmundur og getur ekki annað en rifjað upp sorgarárið 2008 sem var að hans sögn frábært ár en með slæmum endi. „Ég man eftir því að við undirbjuggum okkur vel um veturinn og vorið fyrir tímabilið og okkur var spáð baráttu um miðja deild en annað kom á daginn. Við lékum frábæran fótbolta en misstum titilinn úr höndunum í síðustu umferðunum. Ég var lengi að jafna mig á því klúðri.“
Aðspurður segir Guðmundur að þessi hópur sem hefur náð góðum árangri undanfarna tvo áratugi sé góð unglingaþjálfun. „Það kom hingað júgóslavneskur þjálfari, Velimir Sargic, og hann kenndi okkur fótbolta, mörgum keflvískum árgöngum og við erum flestir sammála því að það sé lykillinn að góðum árangri sem þessi hópur hefur náð.“ Guðmundur segir unglingastarfið í Keflavík í góðum málum en hann er sjálfur núna aðstoðarþjálfari hjá Fjölni í Pepsi-deildinni. „Jú, ég er í skemmtilegu verkefni hjá Fjölni. Það verður eitthvað að mæta með þeim til Keflavíkur í Pepsi-deildinni á næsta sumri,“ sagði markarhókurinn og brosti.