Bílasalinn sem festist í sumarstarfinu
Ævar Ingólfsson hefur selt Toyota bíla í 33 ár á Suðurnesjum.
„Ég var með bíladellu og sótti um sem bílasali í sumarstarfi hjá Bílasölu Brynleifs vorið 1986 og er enn að,“ segir Ævar Ingólfsson hjá Toyota Reykjanesbæ en kappinn er kominn á fjórða áratuginn sem bílasali. Nú rekur hann bílasölu, þjónustuverkstæði og bónstöð á Fitjum í Njarðvík. Hann er brattur eins og alltaf, léttur í lundu og Víkurfréttir buðu honum á rúntinn. Í nýrri Toyota, auðvitað, sem hann fékk að velja.
Enn nokkuð í rafmagnið
Ævar greip lyklakippu og við settumst inn í nýjan dimmrauðan RAV4 jeppling sem er ein vinsælasta gerðin hjá Toyota um þessar mundir. Ævar segir okkur það þegar við komum okkur fyrir í bílnum að það séu ansi fáir sem spyrji um svokallaða „sedan“ bíla sem var hinn dæmigerði fjölskyldubíll á árum árum. Þeir eru þó ennþá til. En hvað segir hann um allt þetta rafmagn í bílum?
„Toyota er að leggja ofuráherslu á Hybrid og byrjaði að framleiða Prius árið 1998. Síðan hefur verið stöðug aukning í því. Mengun bíla hefur minnkað mjög mikið. Til dæmis mengar 20 ára gamall dísiljeppi eins og 50 jeppar í dag. Það er mikil þróun og sérstaklega í því að minnka útblástur. Toyota segir að árið 2030 verði framleiðslan 20% rafmagnsbílar og 65% hybrid bílar. Ef það ætti að rafmagnsbílavæða alla Evrópu þyrfti að byggja 27 kjarnorkuver til að framleiða rafmagn þó það sé til meira rafmagn á Íslandi. Þannig að málið er þetta hybrid sem er blanda af bensíni og rafmagni. En á næstu árum heldur þróunin áfram og við erum líka að tala um vetni og metan sem aflgjafa. Staðan er einfaldlega þannig að rafmagnsbíll er í flestum tilfellum bara góður kostur í bíl númer tvö hjá fjölskyldunni. Innviðir á Íslandi eru ekki nægilega sterkir enn sem komið er og eins komast rafbílar takmarkaða vegalengd. Fólk spyr samt helling um þetta en blendingsbílar eða tvíorkubíll (hybrid) er eins og er mjög góður kostur. Bensíneyðsla er mjög lág og vélarnar kraftmiklar og menga lítið.“
Sá draumastarfið í VF-auglýsingu
Ævar starfaði áður en hann gerðist bílasali sem símsmiður hjá Pósti og síma og var helling á Keflavíkurflugvelli við slík störf. Það var í raun tilviljun að hann endaði sem bílasali þó svo ekki sé hægt að segja að það hafi vantað bíladellu í okkar mann, þá um tvítugt. „Ég sá auglýsingu frá Bílasölu Brynleifs í Víkurfréttum, en ekki hvar..(hlær) og ég ákvað að sækja um. Var ráðinn og hef ekki hætt síðan. Starfaði hjá Brynleifi Jóhannessyni heitnum í nokkur ár áður en ég keypti af honum bílasöluna sem þá var með umboð fyrir Toyota á Suðurnesjum. Árið 1998 urðu tímamót hjá mér þegar við opnuðum bílasöluna í nýju húsnæði á Fitjum í Njarðvík. Byrjuðum nýtt ár 5. janúar á nýja staðnum og höfum verið þar í rétt rúma tvo áratugi. Starfsemin hefur gengið vel en auðvitað líka í bylgjum. Við höfðum lítið fyrir því að selja bíla í góðærinu fyrir bankahrun og þá fóru margir bílar út með 100% lán á bakinu. Eigendur fengu það í bakið í hruninu og næstu ár á eftir voru erfið. Með aukningu í ferðaþjónustunni hefur okkur vaxið fiskur um hrygg. Selt marga bíla til bílaleiga á Suðurnesjum og eins hafa einstaklingar og fjölskyldur verið að endurnýja á undanförnum árum.“
Hvernig breyting varð eftir hrun?
„Nærri helmingur kaupenda í dag eru að nýta sér bílalán þannig að í dag á fólk meira í bílunum og mjög algengt er að það eigi um helming í bílnum sínum. Það er auðvelt að fá bílalán í dag en þrátt fyrir það eru vanskil mjög lítil, þekkjast varla.“
Þetta var ekki svona auðvelt í gamla daga?
„Nei, menn þurftu að fara í bankann og slá lán. Margir tóku víxil, eitthvað sem núverandi kynslóð veit varla hvað þýðir,“ segir Ævar og nefnir það að fyrir þrjátíu árum hafi verið dýrt að slá lán og vextir í hæstu hæðum. „Vextir voru í kringum 30% árið 1986. Þeir sem tala um háa vexti í dag ættu að rifja það upp. Auðvitað mættu vextir vera enn lægri en þetta var svakalegt á þessum tíma.“
Hefur bílasala breyst mikið, svona almennt?
„Já, mjög mikið og margt í starfseminni. Ég man þegar ég var að byrja var tölvan ekki komin til leiks og þá voru allir bílar skráðir á lítil handskrifuð spjöld. Svo mættu menn á bílasöluna og flettu spjöldunum sem var raðað upp í stafrófsröð. Önnur skemmtileg minning er hvernig við bílasalar nálguðumst kaupendur. Þá var farsíminn ekki kominn til sögunnar og því þurfti að hringja í fólk í hádeginu eða eftir vinnutíma. Hugsanlega mátti hringja í vinnusíma og þá var hringt til baka í kaffitímanum. Í dag er þetta mikið breytt og auðvelt að ná í fólk. Þá er netið komið sterkt inn. Það eru allir bílar á netinu í dag og við seljum mikið þannig. Þá er öryggi líka miklu meira núna. Skráning er allt önnur. Við sjáum feril bíla, veðbönd og annað sem var erfitt að finna í þá daga. Þannig að öryggið er miklu meira núna en var áður.
Nú hefurðu selt Toyota bíla á fjórða áratug en líka notaða bíla af öðrum gerðum. Hvernig er að vera bara með eitt vörumerki og treysta á það?
„Ég trúi því algerlega sjálfur að þetta sé besti framleiðandi sem til er. Ég trúi því og er stoltur af því að vera að selja þetta vörumerki og er með mjög góða reynslu af því.“
En eru bílar betri í dag en þegar þú varst að byrja í bransanum?
„Já, og mikill munur þar á. Bílar eru framleiddir í dag til að endast miklu lengur en áður var og því er allt í lagi að vera með langa fjármögnun. Það eru sumir hræddir við að taka bílalán í sjö ár en út frá gæðum bíla þá er það ekkert mál. Mætti vera lengra þess vegna. Toyota er t.d. með tólf ára ryðvarnarábyrgð og sjö ára ábyrgð eða upp í 200 þúsund kílómetra.“
Margir traustir viðskiptavinir
Ævar segir að hann sé með marga trausta viðskiptavini sem kaupa Toyota. Einn af vinsælum gerðum er t.d. Toyota Land Cruiser jeppinn. „Hugsaðu þér til dæmis með hann. Eyðsla á slíkum bíl er komin niður í sjö lítra á hundraðið á langkeyrslu. Í dag eru svokallaðir jepplingar vinsælastir eins og t.d. RAV4 bílinn en líka minni bílar eins og Yaris sem hefur verið einn mest seldi smábíll hér á landi í langan tíma.“
Hvað með almennan bílaáhuga fólks. Það hefur löngum verið talað um að það sé mikill bílaáhugi á Suðurnesjum. Er það ennþá?
„Þetta er eitt af því sem hefur breyst. Mér finnst færri með bíladellu. Í gamla daga fór unga fólkið á rúntinn, eins og þegar við vorum ungir. Hafnargötu rúnturinn í Keflavík var einn sá umtalaðasti á landinu. Ég hef reyndar ekki farið á rúntinn á Hafnargötunni í Keflavík í mörg ár og get því ekki alveg staðfest þetta en heyri ekki þessa umræðu mikið í dag. Sjálfur er ég með miklu minni bíladellu en þegar ég var ungur. Ég neita því þó ekki að þegar ég fer til útlanda þá skoða ég mikið bíla í ferðinni og læt byggingar og söfn alveg vera.“
En áttu ekki einhvern draumabíl í bílskúrnum, jafnvel ekki Toyotu?
„Þú nærð mér ekki þarna. Ég er þó með augun opin fyrir Toyota antikbíl. Land Cruiser heillar og HiLux 80 módelið. Væri til í einn svoleiðis, ljósdrappaðan. Kannski má finna einn slíkan í gamalli hlöðu einhvers staðar úti á landi eða í bílskúr í borginni. Ég er ekki mjög handlaginn og ég er ekki að fara að gera bíl upp sjálfur, hann þarf því að vera tilbúinn í skúrinn hjá mér. Ef einhver les þetta má hinn sami hafa samband ef hann á heillegan HiLux einhvers staðar,“ sagði Ævar.