Dominykas Milka

„Vakna á hverju degi til að gera foreldra mína stolta“

Viðtal: Jóhann Páll Kristbjörnsson
Ljósmyndir: JPK og úr einkasafni

Dominykas Milka hefur verið einn máttarstólpa deildarmeistara Keflavíkur í Domino’s-deild karla í körfubolta undanfarin tvö ár. Þessi stóri og öflugi miðherji er harður í horn að taka á vellinum en á bak við ógnvekjandi útlitið leynist hinn mesti ljúflingur. „Ég er ekki með þessa meðfæddu körfuboltahæfileika sem svo margir hafa – ég hef lagt hart að mér til að komast þangað sem ég er í dag,“ segir Milka í viðtali við Víkurfréttir.

Nei, ég er einkabarn. Mamma segir: „Eitt – en stórt.“ Já, ég var stórt barn ...

Dom vill frekar bjóða mömmu sinni í ferðalag en að gefa henni dýrar gjafir – þannig eignast þau minningar saman.



Leggur hart að sér



Foreldrar Dominykas unnu græna kortið og fluttu með Milka til New York í Bandaríkjunum þegar hann var þrettán ára. Þau voru bæði í góðri vinnu og höfðu það ágætt í Litháen en vildu að Milka ætti kost á betri framtíð.



Milka lauk B.A. og meistaraámi í endurskoðun frá St. Rose háskólanum, hann leggur hart að sér við það sem hann tekur sér fyrir hendur. „Þetta er fimm ára nám en ég lauk því á fjórum, ég fór í sumarskóla og sótti aukatíma því ég vildi vera viss um að ég hefði menntað mig áður en ég færi í atvinnumennsku. Ég átti aldrei von á að ég myndi fá tækifæri til að verða atvinnumaður í körfubolta, ekki fyrr en í háskólaboltanum. Ég gekk í mjög góðan framhaldsskóla [High School (fjórtán til átján ára)] sem ­Lebron James styrkir. Við höfðum gott körfuboltalið og unnum allt sem hægt var að vinna.

Ég fann á mér að hann myndi annast mig og eitt það fyrsta sem ég spurði hann var hvort ég gæti tekið sumarskóla. Hann sagði að það yrði ekkert mál og stóð við það. Fyrstu deildar liðin láta sína leikmenn ganga í sumarskóla því þeir vilja hafa þá á heimavistinni til náms og æfinga, það er ekki gert í annarri deild og þú ferð heim í tvo, þrjá mánuði á sumri ...

Ég var ekki með nema um sex stig að meðaltali á mínu fyrsta ári í háskóla, ég fékk ágætis spilatíma en var meiri varnarmaður, að taka fráköst og þess háttar – það voru aðrir sem sáu um að skora. Þegar ég var að velja úr háskólum bauðst mér að fara í fyrstu deildar lið en ég kaus að fara í aðra deild því ég vildi bæta mig sem leikmann. Ég leit þannig á málin að færi ég í fyrstu deild þá myndi ég verma bekkinn í eitt eða tvö ár. Síðan er þjálfarinn rekinn ef liðið er að tapa eða fær betra atvinnutilboð ef liðið er að vinna. Ég vildi ekki verða þessi gæi sem nýi þjálfarinn segist svo ekki hafa inn í myndinni því hann réði þig ekki. Ég held að um 1.500 leikmenn skipti um lið á hverju ári, það er bara í körfuboltanum.

Svo ég fór í St. Rose. Þjálfarinn þar hafði mikla og góða reynslu, var með einhverja 800 sigra undir beltinu, hafði unnið mót og fleira í þeim dúr. Hann er mér nokkurs konar föðurímynd sem lagði sérstaka áherslu á tvennt, fjölskylduna og að vinna leiki. Ég fann á mér að hann myndi annast mig og eitt það fyrsta sem ég spurði hann var hvort ég gæti tekið sumarskóla. Hann sagði að það yrði ekkert mál og stóð við það. Fyrstu deildar liðin láta sína leikmenn ganga í sumarskóla því þeir vilja hafa þá á heimavistinni til náms og æfinga, það er ekki gert í annarri deild og þú ferð heim í tvo, þrjá mánuði á sumri.“

Milka hefur leikið í Litháen, Japan, Sviss, Frakklandi, Íslandi og hér er hann að keppa í Eistlandi.


Milka segist hafa vilja leggja aukalega á sig til að tryggja sér menntun og verða betri körfuboltamaður. Það sést vel á tölfræði hans að vinnan bar árangur, á fyrsta ári sínu var Milka með sex stig að meðaltali í leik en fór í tólf stig á öðru ári. Hann var ekki í byrjunarliði fyrstu tvö árin því ákveðin hollusta var við eldri leikmenn liðsins. Á þriðja ári fór hann í átján stig og á lokaári sínu var Dominykas með 22 stig og þrettán fráköst.

„Ég lagði hart að mér og strax eftir fyrsta árið í háskóla voru umboðsmenn byrjaðir að setja sig í samband við mig og bjóða mér samninga. „Ég? Ég er ekki nógu góður til að verða atvinnumaður.“ Ég vildi bæta mig og nú hef ég leikið sem atvinnumaður í sjö ár.

Ég var svo lánsamur að geta bæði náð árangri sem körfuboltamaður og menntað mig á sama tíma. Þegar ég var í skóla var ég alltaf þessi óþolandi sem sat fremst í skólastofunni og spurði allra spurninganna. Hinir krakkarnir báðu mig að hætta þessu: „Gerðu það, hafðu hljóð.“ Ég svaraði bara á þann veg að ef þau vildu eyða þremur tímum af heimanámi sínu til að læra eitthvað þá væri það þeirra mál, ég ætlaði að nota þessar fjörutíu mínútur til þess. Þegar ég kæmi heim þyrfti ég bara að renna yfir efnið og þá mundi það sem kennarinn sagði.“

Dominykas Milka hefur verið einn af burðarbitum Domino's-deildarmeistara Keflavíkur í vetur. Hér eru Keflvíkingar að taka við deildarmeistarabikarnum fyrir tímabilið 2020–2021.
Mynd úr safni Víkurfrétta




Vill vera sá vitlausasti í salnum

Milka lýsir sjálfum sér sem fyndnum og opnum náunga sem hefur gaman af því að umgangast og spjalla við fólk. „Ég er opinn og oft hrókur alls fagnaðar en á sama tíma þykir mér gott að vera einsamall. Undanfarin sjö ár hef ég mikið verið einn. Ég bý einn, er ekki með fjölskyldunni og á ekki börn eða kærustu, þannig að maður lærir að vera með sjálfum sér. Þegar ég fer á æfingar tala ég mikið, þetta eru tveir tímar af skemmtun fyrir mér þar sem ég fæ að hitta skemmtilegt fólk. Hins vegar er ég menningarlega sinnaður og mikill tími fer í lestur hjá mér. Ég læri þá af öðru fólki eða sæki fræðslu frá ólíkum uppsprettum, þannig get ég talað við annað fólk um alls kyns málefni. Jafnvel þó ég viti ekkert um umræðuefnið þá get ég lært um það. Ég vil vera sá vitlausasti í salnum sem spyr vitlausu spurninganna. Þannig get ég lært af fólkinu í kringum mig. Ef þú ert gáfaðasti maðurinn í salnum ertu ekki að leggja þig fram við að verða betri en þú ert eða ert ekki umkringdur fólki sem getur haft bætandi áhrif þig. Það eru engar spurninga vitlausar ... nema þú spyrjir sömu spurningarinnar oft. Ef ég sýni þér hvernig þú átt að gera hlutina og þú endurtekur sömu mistökin aftur og aftur þá ertu annað hvort heimskur eða að sýna mér óvirðingu – bæði jafn slæmt. Fyrir mér skiptir ekki máli hversu gamall eða ungur þú ert, hversu gáfaður eða fáfróður. Fyrir mér skapar reynslan manneskjuna sem þú verður. Lífið er bara röð upplifanna sem mótar okkur sem góðar eða slæmar manneskjur. Við gerum öll mistök en lærum við af þeim? Mér var kennt að koma eins fram við alla, sama hvort þú ert forstjóri eða vinnur á gólfinu. Þú ert að leggja þig fram við að framfleyta fjölskyldunni og það er heiðvirt starf.

Milka er alinn upp sem kaþólikki en segist vera meira andlega en trúarlega þenkjandi. „Ég trúi því að það sé til æðra afl sem við kjósum að nefna ólíkum nöfnum. Ef við skoðum hin ýmsu trúarbrögð þá er þeirra boðskapur byggður upp á mjög svipuðum nótum – en það er lítill hluti fylgjenda trúarbragðanna, öfgasinnarnir, sem eyðileggur fyrir fjöldanum. Valdagræðgi og almenn græðgi spilar þarna inn í líka. Ég trúi að andlegi þátturinn og trúin á æðra vald sé manneskjunni mikilvægur. Ég tala um Jesú en aðrir um Allah, Búdda eða hvaða nöfnum sem tjáir að nefna. Fyrir mér er þetta allt einn og sami hluturinn, menn trúa á það sem þeir tengja við. Trúin er hins vegar notuð sem valdeflingartæki til að stjórna fólkinu. Þú getur skoðað mannkynssöguna, á hvaða menningarsamfélag sem hefur verið við lýði síðustu þrjú, fjögur þúsund árin. Það er alltaf hópur sem reynir að ráðskast með lýðinn og trúin er öflugasta vopnið til að ná tökum á honum. Þess vegna leyfa stjórnvöld ríkja á borð við Kína og Norður-Kóreu engin trúarbrögð, því þá fer fólk jafnvel að efast um þann boðskap sem valdhafar predika.“

Neyslusamfélagið

„Þjóðfélagið í dag er þannig sett upp að fólk er fast í ákveðinni hringiðu. Það vinnur frá átta til fjögur alla daga vikunnar, vanaferli sem það losnar ekki úr og hatar kannski líf sitt. Það þraukar út vikuna og slettir svo úr klaufunum um helgar, deyfir sig niður með vímugjöfum eins og áfengi eða að maður tali ekki um einhverju sterkara. Svo byrjar sami vítahringur aftur á mánudegi. Fyrir margt fólk er þetta það eina sem það upplifir á ævinni og það lærir ekkert nýtt. Þetta er kerfisbundið vandamál í samfélaginu, ef við lítum á börn þá spyrja þau endalausra spurninga en strax í leikskóla er farið að berja þessa fróðleiksfýsn niður og okkur kennt að svona hegðum við okkur ekki.

Fólk fellur í þá gryfju að trúa því að það þurfi að vinna fjörutíu tíma á viku. Af hverju þarf ég að gera það? Ef ég get unnið í fimm tíma á viku og náð árangri, ætti það ekki að vera nóg? Það er þetta sem ég vinn í áttina að. Þetta er það sem frumkvöðlastarfsemi snýst um, að skapa sér lífsviðurværi til að framfleyta sér og fjölskyldu sinni. Fólk þarf að vinna en svo vill það vera að kaupa hluti, alls kyns óþarfa. Það sekkur sér í vinnu af því að neyslusamfélagið segir fólki að það þurfi að eignast hluti. Það þarf að eignast nýtt sjónvarp, þarf nýjan iPhone – en ef þú átt iPhone X og hann virkar alveg, þarftu þá að eignast nýjustu útgáfuna? Mín lífsspeki er að fjárfesta í framtíðinni og eyða í upplifanir – eftir henni lifi ég. Ég er svo heppinn að fá að upplifa margt framandi sem atvinnumaður í körfubolta og þegar ég fékk fyrsta samninginn var pabbi mjög ánægður með það en mamma vildi að ég fengi mér alvöru skrifstofuvinnu. Þá spurði ég hana hvort hún vildi frekar, að ég væri hamingjusamur eða áskrifandi að launum og falla í sama vítahring og svo margir. Ég get unnið á skrifstofu eftir fertugt en núna langar mig að kynnast heiminum og upplifa nýja hluti.“


Samvera mikils virði


„Núna hefur henni snúist hugur, ég gef henni engar veraldlegar gjafir í dag. Í stað þess að gefa henni Gucci-tösku býð ég henni frekar í ferðalag. Hún á afmæli í desember og þegar ég var í Frakklandi átti ég frí á þeim tíma. Þá bauð ég henni til mín í stað þess að ég væri að fljúga heim. Við vörðum fjórum dögum í Frakklandi og heimsóttum Sviss. Þetta var mín gjöf til hennar – eitthvað sem við eigum eftir að muna bæði um ókomna framtíð. Þegar maður er orðinn gamall og grár man enginn eftir einhverjum hlutum sem þú keyptir þér en þú manst eftir samverustundunum og sameiginlegu upplifununum. Ég geri mér grein fyrir því að einn daginn verða foreldrar mínir farnir héðan, þannig gengur lífið fyrir sig, en minningarnar lifa áfram. Þú varðveitir hverja stund sem þú eyðir með manneskjum sem þér þykir vænt um.

Það sama á við um pabba minn. Þegar ég kem heim til Bandaríkjanna tekur hann sér frí frá vinnu og við eigum gæðastundir saman. Við ferðumst um landið, njótum samverunnar og sköpum minningar.

Dominykas bauð mömmu sinni til Íslands á síðasta ári – sú ferð átti eftir að vera afdrifarík en eftirminnileg.


Milka notar tækifærið sem körfuboltinn gefur honum til að kynna sér lönd og menningu þeirra
(smellið á myndirnnar til að stækka).


Vissulega var þetta óskemmtileg lífsreynsla en á svona stundum beiti ég frekar rökhugsun en að láta tilfinningar bera mig ofurliði. Auðvitað verð ég tilfinningasamur, það er bara mannlegt, en lífið er röð upplifana. Það sem hendir þig í lífinu er ekki eitthvað gott eða slæmt – það bara er ...

Mamma kom hingað til Íslands í fyrra og hafði virkilega gaman af. Hún ökklabrotnaði reyndar í ferðinni en naut hennar fram að því,“ segir Milka og hlær. „Þetta gerðist í fjallaferð sem við fórum og henni skrikaði fótur á ís. Hún varð mjög hrædd svona slösuð upp á hálendinu en ég sagði við hana að ég skildi að þetta væri sárskaukafullt og ógnvekjandi en fólk fæst við stærri vandamál en þetta á hverju degi. Fólk upplifir sársauka og missi á hverjum degi eins og Covid eitt og sér hefur sýnt okkur. Börn og fullorðnir fá krabbamein. Þetta er beinbrot, það jafnar sig. Þetta er erfitt og það er auðvelt að verða hræddur í þessum aðstæðum en þú hefðir getað fótbrotnað hvar sem er, úti á götu í New York. Vissulega var þetta óskemmtileg lífsreynsla en á svona stundum beiti ég frekar rökhugsun en að láta tilfinningar bera mig ofurliði. Auðvitað verð ég tilfinningasamur, það er bara mannlegt, en lífið er röð upplifana. Það sem hendir þig í lífinu er ekki eitthvað gott eða slæmt – það bara er. Gott fólk lendir í hræðilegum atburðum og hræðilegt fólk lifir til níræðs. Lífið er það sem við látum það verða, maður verður að taka því súra jafnt sem því sæta og halda áfram.


Ekki mjög íþróttalegt barn


Milka hefur m.a. leikið í Frakklandi.


„Þegar ég var barn var í raun ekkert íþróttalegt við mig. Þótt ég hafi byrjað átta ára í körfubolta var ég frekar þybbinn sem barn og vildi eyða mestum tíma í lestur, mér þótti fátt skemmtilegra en að lesa. Við höfðum þrjú bókasöfn og gátum tekið mest út fimm bækur á mánuði, ég var vanur að fara á öll söfnin og taka út fimmtán bækur í hverjum mánuði. Ég vildi ekki vera úti að leika mér, ég vildi vera inni og lesa. Það hefði ekkert þýtt að refsa mér með því að senda mig inn í herbergi ef ég gerði eitthvað af mér, það hefði þurft að reka mig út að leika.

Augljóslega var ég ekki að lesa bækur eins og Stríð og friður um tíu, tólf ára aldurinn en ég las góða bókmenntir eins og eftir Charles Dickens og fleiri. Ég hélt mikið upp á Harry Potter og hef lesið þær sögur þrisvar eða fjórum sinnum. Ef maður lítur á söguþráðinn í Harry Potter þá er verið að fjalla um baráttu góðs og ills. Hann berst við snák í annarri bókinni og hvern tengjum við við snákinn? Djöfulinn sjálfan. Ég hlusta mikið á hlaðvörp í dag og í einu slíku var verið að tala um Harry Potter og baráttu hans við innri djöfla. Allan tímann var hann með hluta af Voldemort, sem er holdgervingur hins illa, inn í sér. Hann var stöðugt að efast um sjálfan sig, sem er mannlegt. Við heyjum öll þessa innri baráttu um að breyta rétt eða rangt. Ég tel að því klárari sem þú ert því meiri er þessi innri togstreita. Því minni menntun sem þú hefur því einfaldara verður líf þitt. Þú þarft bara að geta sett mat á borðið. Lífið er bara vinna, borða og sofa. Um leið og þú menntar þig ferðu að sjá heiminn í nýju ljósi, þú sérð alla liti heimsins.“


Var tilbúinn að vinna launalaust


Milka hefur nýhafið störf sem sérfræðingur á fjármálasviði hjá Court­yard by Marriot hótelinu í Reykjanesbæ. Þar fæst hann við störf sem tengjast námi hans en Milka er ákaflega metnaðarfullur og vildi ólmur sækja sér starfsreynslu. Hann bauðst meira að segja til að vinna launalaust sem lærlingur á starfssamningi [e. internship] en forráðamenn hótelsins sögðu honum að það tíðkaðist ekki á Íslandi, væri reyndar ólöglegt.

„Ég fór í þrjú starfsviðtöl út af starfinu og þegar ég var búinn í öðru viðtalinu var mér sagt að valið stæði milli mín og einnar annarrar manneskju sem væri héðan af svæðinu – en þau höfðu mestar áhyggjur af því að ég myndi kannski staldra stutt við. Kannski yrði ég farinn annað eftir tvo, þrjá mánuði. Ég sagði bara eins og er – að ég væri nýbúinn að skrifa undir tveggja ára samning við Keflavík og er ekkert á förum.

Körfuboltalega séð er ég ánægður á Íslandi og hef möguleika á að vinna titla. Ég gæti vel hugsað mér að leika hérna út ferilinn – og hvað myndi gerast ef ég færi frá Keflavík? Þá væri líklegast að ég færi í lið á höfuborgarsvæðinu og það er ekkert mál að keyra á milli. Ég gæti áfram stundað mína vinnu hér suður frá.

Allt sem ég tek mér fyrir hendur vil ég gera vel. Ég er vinnusamur og vakna á hverjum morgni með það að markmiði að gera foreldra mína stolta af mér.“


Tilhlökkun til úrslitakeppninnar


Milka í leik með Keflavík gegn Grindvíkingum. Mynd úr safni Víkurfrétta


Í deildarkeppninni í vetur hefur Milka verið mikilvægur hlekkur í Keflavíkurliðinu, hann hefur skorað 22,8 stig að meðaltali í deildinni og tekið 10,7 fráköst. Milka er á sínu öðru tímabili með Keflavík og segist fullur eftirvæntingar fyrir úrslitakeppni í Domino’s-deildarinnar. „Þetta er búið að vera langt og strangt tímabil, í rauninni var þetta eins og þrjár deildarkeppnir með þremur undirbúningstímabilum.“

Keflvíkingar sýndu talsverða yfirburði í Domino’s-deild karla í vetur en það telur lítið þegar í úrslitakeppnina er komið. „Það er stefna okkar strákanna að klára þetta mót. Okkur hungrar í titilinn og við munum leggja okkur alla fram við að koma með hann til Keflavíkur. Við höfum trú á því að okkur takist það,“ segir Dominykas Milka að lokum.