Guðfaðir fótboltans í Garði

Sigurður Ingvarsson hefur verið rafverktaki í 50 ár og var 28 ár í hreppsnefnd Gerðahrepps.

Sigurður Ingvarsson mætir í viðtal við Víkurfréttir á þrjátíu ára fresti. Árið 1989 tók blaðamaður Víkurfrétta hús á Sigurði þegar hann var á kafi í knattsprnuþjálfun hjá Víði. Þá var hann að þjálfa yngri flokka hjá Víði. Viðtalið var tekið skömmu fyrir jól en sumarið eftir fór Sigurður með um tuttugu stráka úr 5. flokki Víðis til Færeyja að spila knattspyrnu. Það var vinsælt hér á árum áður að fara í fótboltaferðir úr Garðinum til Færeyja. Við hittum Sigurð Ingvarsson svo aftur núna í haust, 30 árum eftir fyrra viðtalið. Aftur var talað um knattspyrnu en einnig rafvirkjun, sem Sigurður hefur haft að ævistarfi, og sömuleiðis hreppspólitíkina í Garði en Sigurður sat til fjölda ára í hreppsnefnd Gerðahrepps, í þá daga sem Garður var ekki orðinn bær og löngu áður en menn fóru að ræða af alvöru að sameinast Sandgerði. Viðtalið sem við tókum í haust var birt í sjónvarpsþættinum Suður með sjó, sem Víkurfréttir framleiða og sýndur er á sjónvarpsstöðinni Hringbraut og vf.is.

Flestar frístundir í þjálfun yngri flokka hjá Víði

Sigurður er af mörgum talinn guðfaðir knattspyrnunnar í Garðinum, svo vitnað sé í 30 ára gamalt Víkur­fréttaviðtal við kappann. Hann vann einna ötulast að því að endurvekja starf Knattspyrnufélagsins Víðis, að öðrum ólöstuðum.

„Eins og flestum sem eitthvað fylgjast með íþróttum ætti að vera ljóst að það eru ekki mörg ár síðan stjarna Víðis fór að skína skært á himnum og Víðismenn stefna enn hærra,.“sagði Sigurður í viðtalinu 1989. Þarna má segja að hafi verið gullöld knattspyrnunnar í Garði. Á þessum tíma fóru flestar frístundir Sigurðar í að þjálfa litlu pollana í knattspyrnunni en Siggi rafvirki, eins og hann er yfirleitt kallaður í Garðinum, var á leið með fimmta flokkinn til Færeyja sumarið eftir.

Þegar Víkurfréttamenn hittu Sigurð í haust var fyrsta stefnumótið á sögufrægum velli Víðismanna á Garðskaga, þar sem gullaldarliðið háði orrustur sínar fyrir sæti í efstu deild knattspyrnunnar á Íslandi. Það tókst Víðismönnum haustið 1984 með sigri á Njarðvíkingum.

Túnin í Garði notuð til að leika knattspyrnu

„Við strákarnir vorum búnir að leika knattspyrnu á túnunum hér í Garði í þrjú eða fjögur ár áður en við létum til skarar skríða og endurvöktum félagsstarfið í Víði. Knattspyrnan á árunum í kringum 1967 var öðruvísi en við eigum að venjast í dag. Yfirleitt æfðum við bara og spiluðum þegar veður var gott, en eftir að til endurreisnar félagsins kom, var farið að æfa af fullri alvöru. Á þessum tíma var gert aðeins meira en að spila bara fótbolta, þvi við slógum einnig völlinn á knattspyrnuæfingum, þegar þess þurfti með,.“sagði Sigurður þegar við ræddum við hann árið 1989.

Í haust rifjaði Sigurður svo upp fyrstu knattspyrnuviðureignina sem átti sér stað á Garðskaga. Þá komu Valsmenn í heimsókn með 2. flokk á sjötta áratug síðustu aldar. Þá var Sigurður tíu ára og fylgdist með af hliðarlínunni á vellinum á Garðskaga.

„Þetta er hörkufínt gras hérna,.“sagði blaðamaður þegar hann gekk um gamla völlinn á Garðskaga í haust og ekki stóð á svari: „Hér er hægt að leika knattspyrnu allt árið. Önnur lið reyndu mikið að fá að vera hérna, á vorin sérstaklega. Þetta er svaka fínt tún,.“sagði Sigurður en Garðskagavöllur var eini grasvöllurinn á Suðurnesjum í árdaga knattspyrnunnar þegar algengt var að leikið væri á möl.

Garðskagi var ekki bara notaður fyrir knattspyrnuiðkun því þar voru einnig stundaðar frjálsar íþróttir og segist Sigurður muna sérstaklega eftir bæði Keflvíkingum og Njarðvíkingum við æfingar á Skaganum.

Veit ekki hvernig hann fór að þessu

Í viðtalinu á Garðskaga í haust var viðtalið frá 1989 rifjað upp og fyrirsögnin borin undir Sigurð þar sem sagði að hann væri guðfaðir knattspyrnunnar í Garði.

„Ég veit það ekki,.“sagði Sigurður og brosti. Hann sagði að eftir að knattspyrnufélagið Víðir var endurreist árið 1967 og Sigurður var kosinn formaður hafi honum fundist það skylda sín að koma starfi í gang í öllum flokkum. „Einhvern veginn lenti ég inni í þessu. Ef þjálfarar mættu ekki þá hringdu þeir í mig og báðu mig að stjórna æfingunni. Þannig varð þetta til. Ég var að þjálfa mikið og ég veit ekki hvernig ég fór að þessu og upp úr 1974 þá bættist hreppsnefndin við. Þetta var svoldið mikið en það er konan mín sem lét þetta ganga, hún var svo þolinmóð,.“segir Sigurður.

Sigurður tók þátt í gullaldarárum knattspyrnunnar í Garði. Hann var liðsstjóri þegar Víðismenn komust fyrst í efstu deild og hann tók þátt í þjálfun strákanna í gullaldarliðinu þegar þeir voru í yngri flokkum Víðis á sínum tíma.

Árangur Víðis varð ekki til úr engu

Sigurður blæs á það þegar sagt er að strákarnir í gullaldarliði Víðis hafi ekki verið í yngri flokkum í Garði. Það er alls ekki rétt og Sigurður segir að þetta Víðislið hafi ekki orðið til úr engu. Árangur Víðis hafi verið starf margra. Hann segir strákana í Víði hafi verið samstilltur hópur sem náði alla leið.

Standandi á gamla vellinum á Garðskaga rifjar Sigurður það upp með blaðamanni hversu stór stund það hafi verið þegar Víðismenn náðu þeim frábæra árangri að komast í efstu deild. „Þetta var alveg rosalega gaman og allt upp frá því,.“segir Sigurður en Víðisliðið var allt byggt upp á heimamönnum, sem var alls ekki algengt með lið á þessum tíma sem léku í efstu deild.“

Í viðtalinu fyrir 30 árum sagði Sigurður að vera Víðis í efstu deild hafði mjög góð áhrif fyrir byggðarlagið. Garðurinn hafi verið með öllu óþekktur t.d. hjá fólki af höfuðborgarsvæðinu þar til Víðir fór að láta að sér kveða í knattspyrnunni. „En félagið varð ekki til á einni nóttu. Strákarnir sem nú eru í eldlínunni hafa í gegnum tíðina alltaf leikið saman og oft komist í úrslit í sínum flokkum. Við það að félagið náði þetta langt komu fleiri til starfa hjá félaginu og lögðu á sig mikla vinnu fyrir það, sem verður seint þakkað,.“sagði Sigurður þá.

Spurður um knattspyrnuna í dag segist Sigurður ekki vita hvernig þetta eigi eftir að fara. „Þegar ég var að þjálfa í gamla daga voru að mæta 20-25 krakkar á æfingu. Nú þykir gott að ná 15 á sameiginlega æfingu hjá Garði og Sandgerði.“ Hann segir stöðuna í fótboltanum á Suðurnesjum alls ekki góða og það að ekkert lið sé í efstu deild frá Suðurnesjum sé alls ekki gott.

Sigurður segist ennþá fylgjast vel með fótboltanum þó svo hann fari alls ekki á alla leiki Víðis eins og áður.

Byrjaði átján ára á síldarplani á Raufarhöfn

Af gamla fótboltavellinum á Garðskaga var farið á rafverkstæð SI RAF við Iðngarða í Garði. Þar er fyrsta spurningin hvernig hafi staðið á því að Sigurður hafi farið að læra rafvirkjun. Sigurður segir að átján ára gamall hafi hann starfað á síldarplani á Raufarhöfn eitt sumar. „Ég lenti í því þar að hjálpa rafvirkjum frá Selfossi sem voru að vinna þarna. Þegar það voru einhverjar skemmtanir þá þurfti einhver að leysa af en það var lítil ljósavél keyrð þarna fyrir planið því þarna voru vatnsdælur og annað sem þurfti að ganga. Og þar sem ég var reglumaður var ég fenginn til að vera þarna og þannig varð upphafið. Ég byrjaði svo árið 1960 að vinna hjá Sigurði H. Guðmundssyni í Ljósboganum og lærði hjá honum. Ég tók sveinsprófið árið 1964 og þetta er búið að vera aðalstarfið síðan. Ég ætlaði mér svo alltaf að verða rafverktaki, því þá var enginn starfandi rafvirki í Garðinum.“


Sigurður segir að á þessum árum sem hann hefur starfað við rafvirkjun hafi orðið gríðarlegar breytingar. Það sem var þá sé ekkert í líkingu við það sem er í dag og tæknin í dag sé þannig að Sigurður segist ekki ná að fylgjast með henni lengur.


Ekkert markmið að hætta að vinna

Sigurður er nýlega orðinn 78 ára gamall og er enn að vinna.

- Þú átt að vera löngu hættur að vinna.

„Þeir segja það. Ég ætla ekkert að hætt að vinna. Það er ekkert markmið hjá mér, ég ætla að vera hérna á meðan hausinn er í lagi. Ég er alltaf kominn hér korter fyrir sjö á morgnana og yfirleitt síðastur heim. Þetta er bara vani og á meðan maður á þetta og er engum háður þá verð ég hérna. Þetta er bara hluti af lífinu.“

Sigurður segir að menn eigi að fá að vinna eins lengi og þeir vilja. Hann sé óhræddur við að taka menn til vinnu þó svo þeir séu farnir að nálgast ellilífeyrisaldurinn. Hann segir að menn eigi að ráða því hvenær þeir vilja hætta eftir 67 ára aldurinn.

Sigurður Ingvarsson fagnaði því á haustmánuðum að hann hafði verið 50 ár í rekstri. Áður rak hann Raflagnavinnustofu Sigurðar Ingvarssonar heima í bílskúr. Síðar var byggt yfir starfsemina við Heiðartún. Fyrir nokkrum árum komu svo dætur og tengdasynir Sigurðar og Kristínar inn í reksturinn þegar hann var gerður að einkahlutafélagi og starfsstöð fyrirtækisins var flutt í húsnæði við Iðngarða við innkomuna í Garðinn. Hann segir reksturinn alla tíð hafa gengið vel. Þá segist hann aðeins einu sinni á ferlinum hafa fengið bréf frá lögfræðingi. Auk raflagnaþjónustu þá rak fyrirtækið verslun í Garðinum og svo einnig í Keflavík þar sem verslað var með raftæki frá Siemens og íþróttavörur. Verslunarrekstri hefur verið hætt og nú er áherslan á rafmagnið.

Með stærstu verkefnum sem Sigurður Ingvarsson hefur tekið að sér var raflögn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar við byggingu hennar en þá stofnaði hann félag með öðrum sem bauð í rafmagnsvinnuna og fékk. Sama gerist nokkrum árum síðar þegar Icelandair byggði flugskýli sitt á Keflavíkurflugvelli. Aftur var Sigurður í félagi við aðra og fékk verkið. SI RAF, eins og fyrirtækið heitir í dag, hefur einnig tekið þátt í mörgum stórum verkefum á höfuðborgarsvæðinu og er í dag með tíu rafvirkja að störfum í verkefnum þar.

Þakklátur eiginkonunni

Sigurður hefur alltaf haft nóg fyrir stafni og í samtali hans við blaðamenn Víkurfrétta kemur nokkrum sinnum fram að hann hafi í raun ekki hugmynd um hvernig hann hafi farið að því að púsla saman deginum og þeim verkefnum sem hann hafi tekið sér fyrir hendur. Hann sé þakklátur eiginkonu sinni, Kristínu Guðmundsdóttir, sem hafi staðið með honum í öll þessi ár. Árið 1974 skellti Sigurður sér í hreppspólitíkina í Garðinum, sem þá var Gerðahreppur. Sigurður var í hreppsnefndinni frá 1974 til 2002. Sigurður játar því að oft hafi gustað um pólitíkina í Garði og stundum hafi verið gaman og stundum leiðinlegt.

„Það var leiðinlegt þegar það voru mikil læti en oft var gaman. Það stefndu allir að sama markmiði, að gera byggðarlagið betra. Það var gaman að taka þátt í því að byggja íþróttahús og sundlaug, stækka Gerðaskóla og standa að gerð á nýjum knattspyrnuvelli í Garðinum. Maður hafði brennandi áhuga á því að gera byggðarlagið betra. Það var gaman að sjá vegi malbikaða og loftlínurnar sem voru um allan Garð teknar niður. Þá sá maður breytingar á milli daga, hvað það breyttist mikið. Maður hafði metnað fyrir byggðarlaginu.“

Hefði frekar viljað stærri sameiningu

- Nú hefur Garðurinn sameinast Sandgerði í Suðurnesjabæ. Varst þú sameiningarsinni?

„Nei, en ég tók þá ákvörðun að ég ætlaði ekki að skipta mér neitt af því. Þegar ég hætti í pólitíkinni þá hætti ég. Ég ákvað að ég ætlaði ekki að vera maðurinn sem kæmi til að kenna hinum sem tóku við. Ég hefði sjálfsagt verið á móti sameiningunni.“

- Út af hverju?

„Ég held að það hefði sjálfsagt verið betra að sameina bara allt, stærri sameiningu.“

- Hvaða tilfinningu hefur þú fyrir sameiningunni í Suðurnesjabæ?

„Ég veit það ekki, ég held að þetta sé að ganga ágætlega. Þetta eru breyttir tímar og krafa um það að sveitarfélög stækki. Það koma peningar með þessu og verkefni sveitarfélaga eru alltaf að verða flóknari og flóknari. Það er meira lagt á sveitarfélögin í dag, en ég ætla ekki að dæma um þetta.“

Aðspurður hvort hann sjá fyrir sér frekari og stærri sameiningar, þá heldur Sigurður að svo verði.

- Hefðir þú stutt stærri sameiningu?

„Ég hugsa að ég hefði gert það en ég ákvað að hafa þetta bara fyrir sjálfan mig hvað ég var að hugsa.“

Sonarmissir erfiður tími

Viðtalið við Sigurð Ingvarsson endum við að Útskálum en í mörg ár hefur Sigurður séð um jólalýsingu í kirkjugarðinum á aðventunni. Gjaldið sem hefur verið innheimt fyrir tengingar á ljósakrossum hefur runnið óskipt til góðra málefna en það hafa Sigurður og Kristín gert í minningu um son sinn, Sigurð, sem lést ungur að árum eftir veikindi.

„Við misstum son okkar 22. desember 1985. Það var erfiður tími en þá kom í ljós að við áttum marga vini sem hjálpuðu okkur í gegnum það,.“sagið Sigurður Ingvarsson.