Hestar hafa svo þægilega nærveru

Hestamennskan er lífsstíll

Viðtal: Jóhann Páll Kristbjörnsson
Ljósmyndir: JPK og úr einkasafni

Gunnar Eyjólfsson er formaður Hestamannafélagsins Mána og hefur verið það í fimm ár. Hann byrjaði í hestamennsku árið 1972 með pabba sínum, þá áttu þeir saman einn hest sem þeir héldu í hesthúsi við gömlu bæjarskemmurnar en þær stóðu nyrst í Keflavík. Þeir feðgar byggðu hesthús á Mánagrund 1981 og þar heldur Gunnar nú sex hesta með fjölskyldu sinni. Víkufréttir spjölluðu við Gunnar um hestamennsku þá og nú en Hestamannafélagið Máni var stofnað þann 6. desember 1965 og er því eitt af elstu íþróttafélögum Reykjanesbæjar.

Knaparnir og stofnfélagarnir Þórður Guðmundsson (t.v.) á hestinum Mána frá Stafholtsey og Guðmundur Elísson á Kára.
Hestamannafélagið Máni er nefnt í höfuðið á hestinum Mána sem var stjörnóttur og eins og sést myndaði stjarnan hálfmána.


Ódýrara en að reykja


– Eru hestaíþróttir vinsælar í dag?

„Já, það er búin að vera töluverð nýliðun hérna. Sem betur fer. Það er nýliðunin sem stendur hesta-íþróttum í landinu helst fyrir þrifum, þetta er dýrt sport til að byrja í. Þú þarft að kaupa þér allan pakkann; hest, hnakk og leigja þér eða byggja hesthús. Þetta er dýrt sport en eins og var sagt við mig þegar ég var tvítugur: „Það er ódýrara að eiga einn hest og reka hann heldur en að reykja.“ Það er ennþá viðmiðið og á ennþá við. Svo er hægt að moka í þetta endalaust eins og annað sport, hvað á hesturinn að vera dýr og þar frameftir götunum.“

Félagar í Mána eru um 300 og reiðhöllina glæsilegu byggðu þeir sjálfir og eiga skuldlaust. Mánahöllin var formlega vígð í maí 2009. „Við höfum rekið hana með myndarlegum styrk frá Reykjanesbæ,“ segir Gunnar, „og bærinn lýsti líka upp reiðleið fyrir okkur hér innan okkar svæðis í vetur, Trippahringinn svokallaða. Við erum ofboðslega ánægð með þessa framkvæmd. Nú ríðum við hérna allan ársins hring innan hverfis og þetta er líka svo mikið öryggisatriði.“

Reykjanesbær lýsti upp reiðleið inn á svæði Mána sem Gunnar segir hafa mikla þýðingu fyrir öryggi knapa og hesta þeirra í skammdeginu.

Vélhjól og hestar eiga enga samleið á reiðstígum:

Stórar skepnur með lítið hjarta

Gunnar ræddi lítillega um hættuna sem skapast þegar fjórhjól og önnur vélhjól aka um reiðvegina og mæta knapa og hesti. „Við höfum ekki verið í miklum vandræðum með þau en þó kemur alltaf af og til fyrir. Ég man ekki eftir slysi hér en það varð nýlega í Hafnarfirði og þá var það reiðhjólamaður sem hesturinn fipaðist undan. Hesturinn fælist allt svona, meira að segja skokkandi fólk sem klæðist svona skærlituðum flíkum – hestarnir eiga til að fælast undan þeim. Allt svona sem hesturinn er óvanur að sjá á reiðstígunum, annað en ríðandi mann á móti, hann verður hvekktur.“

Gunnar segir að svona árekstrar séu fátíðir en þeir hafi færst í aukana undanfarið. Yfirleitt dugar einfaldlega að ræða málin og útskýra hættuna sem getur stafað af vélknúnum farartækjum á reiðvegunum. „Það er leiðinlegt að standa í þessu því þetta eru vegir sem við höfum lagt mikla vinnu og fjármuni í fyrir hestamenn. Það sem hefur stundum gerst hérna, þegar vélhjólamenn mæta reiðmanni og sjá að hesturinn snarneglir niður, að þá snúa þeir við á punktinum og þeysa í burtu. Það gerir í raun bara illt verra. Ef hestur fælist þá er það eina sem hann kann er að hlaupa í burtu frá hættunni – sama hvort þú hangir á eða ekki. Það skársta sem hægt er að gera í stöðunni er að stoppa bara og drepa á hjólinu – bíða bara.“


Æskulýðsstarfið í miklum blóma


Ungir Mánafélagar stoltir með fána félagsins. Mynd af Facebook-síðu Mána

Máni leggur mikinn metnað í æskulýðsstarfið og félaginu hefur verið veittur Æskulýðsbikar Landssambands hestamannafélaga í tvígang fyrir framúrskarandi æskulýðsstarf ...

„Hérna eru námskeið í höllinni allan veturinn og svo eru sumarnámskeiðin alltaf umsetin. Það er heill hópur af krökkum sem fer hérna í gegnum sumarnámskeiðin, þau eru gríðarlega vinsæl og vel haldið á spöðunum þar – eins og öllu æskulýðsstarfi hér. Við erum að fá einn og einn krakka í hestamennskuna úr þessum námskeiðum, þ.e. ef fjölskyldan er ekki í hestamennskunni fyrir, það eru þessi allra þrjóskustu sem hætta bara ekki að suða. Við höfum dæmi um það að krakkar komið hingað í reiðskólann og hafi svo dregið allt gengið með sér í hestamennskuna.“

Máni leggur mikinn metnað í æskulýðsstarfið og félaginu hefur verið veittur Æskulýðsbikar Landssambands hestamannafélaga í tvígang fyrir framúrskarandi æskulýðsstarf. Þá hefur Máni verið fyrirmyndarfélag ÍSÍ síðan 2003. Félagið var eitt af fyrstu fyrirmyndarfélögum og var fyrsta hestamannafélagið sem hlaut þá viðurkenningu. Á aðalfundi Mána þann 20. nóvember 2019 fékk félagið síðast endurnýjun en félagið hefur endurnýjað viðurkenninguna á fjögurra ára fresti. Sigríður Jónsdóttir, varaforseti Íþróttasambands Íslands, afhenti formanni Mána, Gunnari Eyjólfssyni, viðurkenninguna ásamt fána Fyrirmyndarfélags ÍSÍ.


Atvinnumennska eða áhugamál


Það eru núna að minnsta kosti fimm uppaldir Mánafélagar með fulla atvinnu af þessu ...

Keppendur á vetrarmóti Mána 2021. Mynd af Facebook-síðu Mána.



– Er mikið um keppni í hestasportinu í dag?

„Já, það er orðið mjög mikið um það. Með tilkomu reiðhallanna eru reiðhallamótin orðin gríðarlega vinsæl yfir veturinn þegar aldrei voru neinar keppnir. Það er keppt í áhugamannadeildum, atvinnumannadeild og allskonar deildum vestan-, sunnan- og norðanlands – það er keppt út um allt land. Ég dæmi t.d. í Vesturlandsdeildinni, eða var að dæma þangað til hún stoppaði út af Covid. Sama var upp á teningnum í fyrra. Menn koma hingað að norðan með hrossin til að keppa í Meistaradeildinni.

Það er mikil gróska í þessu og við erum búin að ala upp þónokkra afreksreiðmenn, það eru tveir frá okkur í landsliðinu og ætli það séu ekki fjórir með kennararéttindi. Þetta eru orðnir svolítið margir. Svo höfum við átt fulltrúa á síðustu þremur heimsmeistaramótum sem eru uppaldir hérna í Mána.“

Gunnar með dótturinni Bergeyju og systrunum Hátíð og Eldey frá Litlalandi.


– Hversu stór hluti félaga tekur þátt í svona keppnum, eru ekki bara að þessu sem hobbí?

„Keppnisfólkið gæti verið um tíu prósent, stærsti hlutinn er almennt útreiðafólk en þetta blandast svolítið. Þetta fléttast saman en hérna eru svona 280 virkir félagar og það er mikið líf hérna allt árið um kring. Sérstaklega eftir að höllin kom, það er alltaf eitthvað í gangi á hverjum degi.

Það var þannig áður fyrr að í júní, júlí hvarf eiginlega öll hestamennska héðan af svæðinu. Þá voru menn að fara með hrossin austur á beit en núna eftir að höllin kom eru menn með þetta á litlum stykkjum hérna, hingað og þangað, og nota svo höllina til að frumtemja. Þetta er heilsárssport. Ég sleppi hrossunum í svona einn og hálfan mánuð á ári.

Svo erum við með innanfélagsmót, kölluð karla- og kvennatölt, sem eru mót í léttari kantinum. Við höfum einnig verið með opin mót hérna í byrjun maí, þau eru þá opin öllum. Það er stefnt á 1. og 2. maí núna í ár en maður veit ekkert hvað verður, við þurftum að blása það af í fyrra.“

Háskólinn á Hólum hefur verið brautryðjandi í fagkennslu á sviði reiðmennsku, reiðkennslu, tamninga, hestahalds og í raun alls sem viðkemur íslenska hestinum. Á vefsíðu skólans segir m.a. um nám í hestafræðum: „Í náminu er lögð mikil áhersla á verklega þjálfun í formi einkakennslu, hópkennslu og sýnikennslu. Samhliða námsleiðinni BS í reiðmennsku og reiðkennslu er boðið upp á þá möguleika að útskrifast með diplómu að loknu einu námsári (leiðbeinendapróf) eða tveimur (tamningapróf). Jafnframt er boðið upp á meistaranám í hestafræðum við deildina þar sem áherslan er á rannsóknarnám með sterkan fræðilegan bakgrunn.“ Það lá því beinast við að spyrja Gunnar hvort fólk sé að hafa fulla atvinnu af hestamennsku í dag.

„Já, já. Það eru núna að minnsta kosti fimm uppaldir Mánafélagar með fulla atvinnu af þessu. Einn er starfandi hérna, svo eru börnin hans tvö atvinnumenn fyrir austan og annað þeirra er útskrifað frá Hólum. Þetta er orðið miklu meira en fólk gerir sér grein fyrir. Svona hús eins og reiðhöllin okkar eru út um allt land í einkaeigu, bæði Íslendinga og útlendinga í bland. Stór hrossaræktarbú sem hafa verið byggð upp á síðustu árum.“

Smellið á myndirnar til að sjá þær í fullri stærð.


Hestamannafélagið Mána hefur verið í samstarfi við Hæfingarstöð Reykjanesbæjar í vetur og boðið upp á reiðkennslu fyrir fullorðið fatlað fólk á Suðurnesjum. Þjónustunotendur Hæfingarstöðvarinnar fara á tveggja vikna fresti í Mánahöllina þar sem Guðrún Ólafsdóttir, reiðkennari, tekur vel á móti þeim fyrir hönd Mána. Máni leggur til aðstöðuna án endurgjalds og Guðrún þekkingu, einnig endurgjaldslaust. Framtakið hefur heppnast afar vel og allir þátttakendur hafa skemmt sér konunglega.


Riðið norður í Skagafjörð og til baka


Reiðtúrar og -ferðir hafa löngum skipað stóran sess í íslenskri hestamennsku. Lengri og skemmri ferðir eru sérstaklega vinsælar yfir sumartímann enda sennilega fátt yndislegra en að ferðast á baki ferfætlinga um fallega og óspillta náttúru Íslands.

Hestamennsku getur öll fjölskyldan notið saman. Mynd af Facebook-síðu Mána.


Ég held að fáir átti sig á því hvað það er gaman að ríða út um Reykjanesið, eða bara ganga. Fólk er að keyra um landið þvert og endilangt en svo höfum við allt þetta hérna í heimahögunum ...

– Eru ekki skipulagðir reiðtúrar farnir hjá ykkur?

„Jú, það var nú þannig að við riðum alltaf á móti Grindvíkingum en það er eiginlega hætt. Þetta hefur breyst með tilkomu þess að nú eiga svo margir orðið flottar kerrur sem taka kannski fjögur, fimm, sex hross. Núna eru farnar tvær til þrjár kerruferðir. Þá er hrossum smalað á kerrur og farið upp í Mosfellsbæ eða Hafnarfjörð og riðið þar út. Svo förum við um hverja páska og ríðum út í Garð og svona styttri ferðir hérna um svæðið – en það hefur ekki verið farið í vor eða fyrravor út af Covid.“

– Þið ætlið ekki að ríða upp að gosstöðvunum, væri það ekki tilvalið?

„Það gæti gerst í sumar, ég ætla ekki að sverja fyrir það – en það voru alltaf farnar ferðir héðan og á Vigdísarvelli. Þá riðum við Meradali og þar inn úr. Þessar ferðir voru alltaf farnar á Jónsmessu, þetta eru um 45 kílómetrar hugsa ég. Þá var lagt af stað héðan upp úr hádegi á föstudegi og snæddur kvöldverður í Grindavík, við voru svo komnir um tíuleytið inn á Vigdísarvelli þar sem var gist um nóttina. Svo var yfirleitt farinn góður rúntur um svæðið með leiðsögumanni, Gauja í Vík. Hann þekkir hvern einasta stein á svæðinu, það er alveg ofboð að sjá þarna. Ég held að fáir átti sig á því hvað það er gaman að ríða út um Reykjanesið, eða bara ganga. Fólk er að keyra um landið þvert og endilangt en svo höfum við allt þetta hérna í heimahögunum. Hér eru hverasvæði, Grænavatn, Höskuldarvellir og fleiri náttúruperlur – þetta er feiknarflott svæði og þarna er yfirleitt mjög fátt fólk á ferðinni. Fólk virðist alltaf þurfa að fara eitthvað langt í burtu til að sjá eitthvað, leita langt yfir skammt.

Undantekningin frá þessu er auðvitað fólksfjöldinn sem er að fara að til skoða gosstöðvarnar núna, ég er búinn að fara einu sinni og stefni á að fara aftur núna í vikunni. Sitja þá fram á kvöld og sjá þetta í ljósaskiptunum. Það kom mér á óvart þegar ég fór þarna síðast, það er alltaf verið að tala um illa búið fólk en það var algjör undantekning. Það virtust allir vera mjög vel útbúnir. Kannski er það bara eftirlitið hjá björgunarsveitinni að skila árangri.“

Gunnar við gosstöðvarnar.


– Ferð þú sjálfur í lengri reiðferðir yfir sumarið?

„Já og núna í júlí ætlum við að ríða Tindfjallahringinn. Þá byrjum við fyrir ofan Hellu og ríðum inn í Tindfjöll, í áttina að Emstrum, og komum svo niður í Fljótshlíð hjá Einhyrningi og þar. Við fórum þetta fyrir nokkrum árum, þá riðum við reyndar öfugan hring – fórum úr Fljótshlíðinni í átt að Emstrum og tókum svo boga niður að Gunnarsholti og þar.

Lengsta ferðin sem ég hef farið var reyndar félagsferð. Þá riðum við héðan frá Mánagrund, norður í Skagafjörð og hingað aftur. Þá var landsmót á Vindheimamelum og menn áttu ekki þessar stóru kerrur og þá byrjuðu nánast allar ferðir hér á Mánagrundinni. Við riðum ströndina og inn á Þingvelli, svo Húsafell, norður Arnarvatnsheiði og ofan í Skagafjörð – fórum svo Kjöl heim. Þetta var 1982 og var heljarmikið ferðalag, ég var tvítugur þá og man ekki alveg hve langan tíma ferðin tók.“

Sá orðrómur hefur löngum loðað við hestamennskuna að henni fylgi mikill drykkjuskapur. Gunnar segir það vera víðs fjarri sanni í dag. „Á þessum tímum voru þetta karlaferðir og þá var pelinn gjarnan hafður meðferðis. Núna eru ferðirnar yfirleitt farnar með konunum og börnunum svo þetta er liðin tíð sem betur fer. Maður sér bara ekki lengur að menn séu að fá sér á hestbaki. Það er kannski einn og einn bjór tekinn yfir grillinu eins og í öðrum útilegum. Þetta sport hefur líka tekið miklum breytingum. Það eru mikil verðmæti í hrossunum og öllu sem þeim tengist. Þetta er eiginlega lífsstíll.“

– Hvað finnst þér svo best við hestamennskuna?

„Bara að fara út í hesthús og slökkva á vinnuheilanum, hestar hafa svo þægilega nærveru. Ríða út og vera með vinunum og fjölskyldunni. Þetta er bara lífsstíll sem erfitt er að slíta sig frá,“ segir hestamaðurinn Gunnar Eyjólfsson að lokum.