Landsbyggðartúttan Una Steins

Una Steinsdóttir er kraftmikil Keflavíkurmær og hefur látið að sér kveða í bankageiranum og unnið hjá Íslandsbanka í þrjátíu ár.

Una Steinsdóttir er kraftmikil Keflavíkurmær og hefur látið að sér kveða í bankageiranum og unnið hjá Íslandsbanka í þrjátíu ár. Hún varð yngsti bankaútibússtjóri Íslandsbanka aðeins þrítug og hefur starfað hjá bankanum frá því hún var í framhaldsskóla. „Ég er landsbyggðartútta og held uppi merkjum landsbyggðarinnar eins mikið og ég get,“ segir hún stolt þegar Víkurfréttamenn heimsóttu hana ekki alls fyrir löngu. Hún var viðmælandi Sjónvarps Víkurfrétta í þáttaröðinni Suður með sjó en þátturinn er aðgengilegur á vf.is.

Una er dóttir hjónanna Steins Erlingssonar og Hildar Guðmundsdóttur og hún á systurina Dagnýju og átti bræðurna Guðmund og Einar en þeir eru báðir látnir. Sorgin hefur því barið dyra hjá fjölskyldunni og við ræðum það við Unu síðar í viðtalinu. En byrjum á því að spyrja hana út í bernskuna þegar við hittum hana á Garðskaga. Faðir hennar, Steinn Erlingsson, var með í för og hann blandar sér aðeins í viðtalið. Hann er uppalinn í Garðinum.

Í höfuðið á merkri konu í Garði

„Ég er skírð í höfuðið á Unu í Garði. Ég get stolt sagt frá því að ég er víst fyrsta Unan sem var skírð í höfuðið á henni og hún hélt á mér undir skírn. Una í Garði var fræg og þekkt fyrir ýmsa hæfileika á dulræna sviðinu. Hún var ekki frænka mín. Við vorum ekkert skyldar. Hún var afskaplega lágvaxin kona. Við fórum rosa mikið með pabba og mömmu í Garðinn í Sjólyst. Þar átti hún lítið, gult hús. Allt var rosalega lítið og þegar maður kom inn þá þurfti að beygja sig. Það var mikil dulúð yfir þessu en ég var nú stolt af því að vera skírð í höfuðið á þessari konu.“

Steinn: „Maður komst ekkert hjá því.“

Una: Við hliðina á Sjólyst var síðan Steinshús og þaðan er þessi karl hann pabbi, enda heitir hann Steinn.

Steinn: „Langafi minn hét Steinn Lárusson Knudsen og byggði þarna gamalt hús sem var eiginlega eins og Unuhús, eða nærri Sjólyst. Ég fékk þetta nafn, Steinn. Það vantar bara Lárus,“ segir hann og hlær.

Una: „Já, það er rosa mikið af Steinum í þessari fjölskyldu, Steinn, Steinunn og Þorsteinn, sem sagt mikið af grjótumt.“ Var æska hennar eitthvað í líkingu við þína, sem ungur strákur hérna Steinn?

Steinn: „Nei, það var ekkert í líkingu. Maður var ekkert með síma,“ segir hann og lítur á farsíma dótturinnar sem hún veifar í viðtalinu.

Una: „Hvað meinarðu?“

Steinn: „Það varð að fara upp á símstöð til að fá pantað símtal. Ekki alveg svoleiðis í dag.“

Una: „Það er ekkert svo rosalega langt síðan, pabbi. En við pabbi erum voða mikið að koma hingað því núna erum við alltaf að spila golf úti í Sandgerði. Hann segir að það sé svo gott að spila golf í Sandgerði því það er svo mikið logn af þessum vita hérna í Garðinum. Þetta er svo mikil vitleysa,“ segir hún og hlær meira.

Steinn: „Það er skjól í norðanáttinni hérna.“

Una: „Mér finnst bara svo gaman að koma hingað því maður kom hingað sirka sjö sinnum í viku þegar maður var að alast upp. Maður var náttúrulega dálítið heilaþvegin, keyrt hingað í hverri viku og svo átti maður að þekkja öll hús sem maður náttúrulega gleymdi strax aftur. En svo hef ég verið að reyna að muna þetta allt saman í seinni tíð.“

Þetta er nú einn af fallegri stöðum á Suðurnesjum.

Una: „Já, þetta er ofsalega fallegur staður.“

Steinn: „Þetta er það. Þetta er ómetanlegur staður.“

Una og Steinn faðir hennar á fjörukambinum neðan við Sjólist í Garði.

Þú varst í handbolta sem ung stelpa en ert komin í golfið núna.

Una: „Já, ég byrjaði að spila handbolta í Keflavík. Svo lagðist nú handboltinn niður. Ég var um þrítugt þegar ég hætti að spila handbolta þannig að ég gerði mitt þar. Svo þegar fór ég Reykjavíkur og spilaði bæði með Val og Stjörnunni í mörg ár, það var algjörlega mitt áhugamál. Alveg brjálæðislega áhugaverður og skemmtilegur tími. Þar kynnist maður fólki sem á eftir að fylgja manni alla leið. Það aldeilis víkkaði tengslanetið að vera í íþróttum. Ég ætlaði að byrja í golfi fyrir tíu árum en nú er ég byrjuð og það er gott að hafa pabba með.“

Þú varst góð í handbolta.

Una: „Já, ég var alveg ágæt. Ég á nokkuð marga landsleiki að baki en þeir voru ekkert margir landsleikirnir hjá stelpunum á þessum tíma.“

Það eru örugglega ekkert margar konur á Suðurnesjum sem eiga landsleiki í handbolta.

Una: „Nokkrar, þó nokkuð margar! Það var náttúrlega rosa flott handboltalið hérna á árum áður og maður gæti talið upp nokkrar. En auðvitað, klárlega hafa þær orðið færri eftir því sem tíminn hefur liðið“.

Það eru margir íþróttamenn og -konur sem segja þetta: „Ég vildi að ég hefði byrjað fyrr í golfi“.

Una: Já, algjörlega. Þetta er rosalega tímafrekt en þegar maður skipuleggur sig þá er allt hægt. Þetta er rosalega skemmtilegt sport og þegar maður hefur smá bolta í sér þá kemur þetta oft fljótar en hjá hinum. Þetta er ofsalega gaman og líka bara gaman að vera á Íslandi.“

Segðu okkur, Steinn, hvernig stelpa var þetta?

Steinn: „Hún var alveg indæl hún Una. Það var ekkert vandamál. Hún fór í skólann og kom heim. Þetta var allt voða reglubundið.“

Hún er leiðtogi. Kom það snemma í ljós?

Steinn: „Já, það gerði það. En því miður tókst mér ekki að fylgjast nógu vel með krökkunum því ég var svo mikið á sjónum í burtu. Ég hef verið meira með þeim núna, sem betur fer.“

Hún er búin að vera svolítið spræk þessi stelpa.

Steinn: „Já, þetta er svolítið í ættinni, að vera alltaf að, ekki að hanga yfir hlutunum. Hún hefur tekið það mjög ríkulega til sín. Það er mjög gaman og áhugavert þegar fólk er lifandi í því sem það er að gera, starfar þannig. Það er ekki öllum gefið.“

Una: „Svo vorum við pabbi saman í skóla þegar hann hendir sér í Tónlistarskólann svona á miðjum aldri og fer að leggja fyrir sig sönginn meira. Það var samt rosa erfitt að kenna honum tónfræði.“

Steinn: „Já, ég veit ekkert af hverju ég fór í þetta. En svona með tímanum þá hefur maður orðið var við það að þau sem eru að syngja er allt gott fólk. Þetta er svona sáluhjálp líka. Það hjálpar mér gríðarlega mikið að syngja.“

Mikilvægt að sjá tækifærin í breytingunum


Una er á heimavelli í höfuðstöðvum Íslandsbanka í Norðurturni Smáralindar í Kópavogi. Una er framkvæmdastjóri viðskiptabanka Íslands en hjá bankanum starfa yfir áttahundruð manns. Við spyrjum hana út í fækkun starfsmanna hjá bönkunum undanfarin ár.

„Þeim mun fækka en það er svo sem ekkert nýtt við það. Ég var einu sinni að stjórna þrjátíu útibúum, nú erum við með fjórtán. Við erum samt með fleiri viðskiptavini. Breytingarnar eru auðvitað mjög hraðar. Aðalatriðið er bara að fylgja þeim eftir, aðlaga okkur að þeim og sjá tækifærin í þeim líka. Það eru fullt af tækifærum í breytingum en þetta er ekkert auðvelt. Það er alltaf erfitt að takast á við breytingar.“

Áskorun í breytingaástandi

Hvað er viðskiptavinurinn að græða á öllum þessum breytingum í bankaheiminum?

„ Við vorum einmitt að gera eina breytingu á einu útibúi þar sem við áttum samtöl með fjölda viðskiptavina um það af hverju við værum að gera þetta og hlustuðum á hverjar væntingar þeirra væru til þjónustu. Viðskiptavinurinn vill bara fá góða, mannlega, persónulega þjónustu. Það er svo margt sem þeir gera í símanum sem er frábært og þegar þú byrjar að nota tæki og tækni þá vill maður ekki fara til baka. Það eru auðveldir hlutir sem þú vilt bara klára, millifærslur, sjá stöðuna og allt þetta en svo þarftu náttúrulega ráðgjöf. Þá geta þeir að sjálfsögðu talað við ráðgjafa sinn en þetta er að breytast rosalega hratt. Þetta breytist með nýju kynslóðunum sem eru að koma inn. Ég heimsæki mikið af fyrirtækjum og það eru allir að tala um það sama. Það er verið að breyta kerfum, setja upp sölu á netinu og reyna einhvern veginn að aðlaga þetta, velta því fyrir sér hvernig þeir eigi að tala við viðskiptavini og svo framvegis. Þjónustan hjá okkur er okkar sýn. Við ætlum að vera með góða þjónustu en það er auðvitað áskorun í svona miklu breytingaástandi. En við verðum að hugsa um viðskiptavininn, númer eitt, tvö og þrjú.“

Við höfum spurt viðskiptavini bankanna í Víkurfréttum hvort þeir fari í bankann og það var aðallega af tveimur ástæðum, að hitta ráðgjafa út af lánamálum og fara í hraðbankann. Þurfið þið allt þetta húsnæði þegar heimsóknum fækkar og þjónustan færist meira á netið?

„Við erum alltaf að minnka við húsnæðið. Um leið og útibúum hefur farið fækkandi þá hefur fermetrum verið að fækka. Við höfum líka verið að búa til minni útibú og svo framvegis þannig að við aðlögum okkur bara að breytingunum eins og við gerðum hér í höfuð­stöðvunum.“

En það verða alltaf bankar, útibú? Þetta verður aldrei allt á netinu.

„Bankinn verður alls konar dreifileiðir, síminn, ráðgjafinn, netbankinn o.s.frv.. Það verður alltaf bankaþjónusta en formið á henni er auðvitað að breytast mjög mikið. Fólk er ennþá mikið að koma í útibú til þess að greiða reikninga en það er alltaf að minnka. Ég myndi ekki setja þetta á eldri kynslóðina, það er líka fólk á miðjum aldri og jafnvel yngra. Það hefur alveg komið á óvart. Þú getur líka pantað mjólkina á netinu en þú ferð samt alltaf út í búð og nærð í mjólkina. Það er einhver skýring á þessu. Við erum bara að fylgja þessu og fara ekkert á undan viðskiptavininum. Við ætlum að gera þetta saman með honum.“

Mannfræðin góð

Hvernig varðst þú svona mikil bankamanneskja? Var þetta draumurinn?

„Ég fór í viðskiptafræði í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Svo þegar ég var að velja mér háskólanámið þá lá kannski beinast við að fara í viðskiptafræðina. Ég var í smá mótþróa í einhvern tíma. Ég ákvað að fara í mannfræði. Mér fannst það meira töff heldur en að fara í það sem allir hinir voru að fara í. Á þessum tíma, árið 1991, þá vorum við að ganga í gegnum niðursveiflu. Þá var voða mikið talað um það að það myndi enginn fá vinnu og allt var í einhverjum leiðindum. Ég fór í mannfræðina sem ég sé ekki eftir því það var alveg ótrúlega skemmtilegt og ég lærði mikið. Það hefur alveg hjálpað mér í starfi mínu, þú þarft ekki síst að vera félagsfræðingur þegar þú ert í svona starfi í banka og að takast á við svona breytingar eins og ég hef verið að gera undanfarin ár. En svo sá ég það að ég vildi fara í banka eða í fjármálastofnun og fór í viðskiptafræði. Til að fara svona milliveginn þá skrifaði ég ritgerðina mína um stjórnun á „non-profit“ listastofnunum. Ég hafði mikinn áhuga og hef alltaf haft á list og menningu.“

Hvert var fyrsta starfið þitt eftir það?

„Ég fór að vinna hjá Íslandsbanka, 1991, og fór þá að vinna í alþjóðadeildinni sem þá var í Ármúla í Reykjavík. Þar var ég í einhvern tíma áður en ég réði mig svo inn sem lánastjóra og fór að vera lánastjóri í höfuðstöðvum. Svo eignaðist ég stelpurnar, tvíburana Sóleyju og Stefaníu, og fór til Edinborgar. Þá fór Reynir, maðurinn minn, í MBA-nám. Ég tók mér ársleyfi. Það var æðislegt. Svo kom ég heim og tók að mér að leiða Íslandsbanka í Keflavík og var þar í tíu, ellefu ár. Það hafa verið færri fyrirmyndir fyrir stelpur í þessum geira sem ég er í. Það er nú búið að breytast mikið þó það megi alltaf betur gera en ég man að ég átti alltaf eina fyrirmynd þegar ég var að vinna í Verslunarbankanum með Fjölbraut. Þá var Jóhanna Reynisdóttir útibússtjóri og það þóttu nú alveg fréttir til næsta bæjar. Ég man að ég hugsaði alltaf: „Ég ætla að verða útibússtjóri líka“. Það er eins og sagt er, „If you can’t see it, you can’t be it.“ Það skiptir máli.“

Þú ert þarna ung kona að taka við bankastjórastarfi sem var náttúrulega mjög karllægt starf í gamla daga og hefur lengi verið. Fannstu eitthvað fyrir því þegar þú varst að byrja?

„Já, ég var fengin til að tala á ráðstefnu fyrir ungar konur, ég held það séu komin þrjú eða fjögur ár síðan. Ég átti að tala um ljónin í veginum og hvort þau væru fyrir einhverjar ungar konur sem væru að feta starfsframa sinn. Ég upplifði það aldrei að það hefðu verið ljón í vegi mínum. Þetta snýst auðvitað allt dálítið um hugarfar og hvernig þú ert sjálfur. Ég var ung og líklega með þeim yngri sem tók við þessu starfi en mér fannst það bara vera kostur. Mér fannst þetta svo skemmtilegt starf. Ég var bara brjálæðislega metnaðarfull og auðvitað var ég að hugsa um starfsframa minn. Mér leið ofboðslega vel í þessu starfi og fannst frábært að vera í Keflavík. Ég er náttúrulega Keflvíkingur. Ég segi alltaf, ég er bara landsbyggðartútta og það er líka mjög gott að hafa slíka fjölbreytni í framkvæmdastjórn eins og Íslandsbanki er. Eitt af þeim heimsmarkmiðum sem við vinnum eftir er til dæmis jafnrétti. Það skiptir mjög miklu máli, kyn, aldur, hvaðan þú kemur, hver uppruni þinn er og svo framvegis. Það var rosalega gaman að vera í Keflavík.“

Hvað fannst þér þú læra mest á þessum tíma?

„Að kynnast fólki. Í þjónustu, það að vera í banka, er fyrst og fremst það að kunna að þjóna fólki. Þjónustan er list og þú ert góður í þjónustu ef þú kannt að setja þig í spor annarra og skilja viðmælandann, skilja þann sem þú ert að tala við. Hvaðan er hann að koma? Hvað er viðkomandi viðskiptavinur að hugsa? Af hverju er hann að segja þetta? Það lærir maður mest. Mér finnst líka gaman í dag. Ég er búin að vera rúm þrjátíu ár í banka. Það er brjálæðislega skrýtið. Ég man það var gamall og góður bankamaður sem sagði við mig þegar ég var að byrja, þá var ég að koma með eitthvað lánamál fyrir lánafund og hann spurði mig eitthvað út í þá sem voru á bak við þetta fyrirtæki. Ég vissi það ekki og þá sagði hann: „Una, maður verður að vita hvað fólkið er, hvaðan það kemur og svo framvegis.“ Það skiptir máli. Maður á bara að þekkja fólk. Það er það sem mér fannst skemmtilegast, að þjóna, fara fram úr væntingum og vera bara skemmtilegur. En þetta er líka flókið. Þetta er ekki alltaf já, heldur líka nei. Það að kunna að segja nei er líka ákveðin þjónusta.“

Smá vandi líka, finnst manni.

„Já, þetta er ekkert alltaf stuð. Það er bara alls ekkert alltaf búið að vera stuð en þetta er ofboðslega fjölbreytt og skemmtilegt starf.“

Unga bankakonan

En svo fórstu til Reykjavíkur og fórst aðeins upp stigann eftir að hafa verið að stýra Keflavíkurútibúinu.

„Já, algjörlega. Mér var boðin framkvæmdastjórastaða 2007 og þá yfir útibúasviðinu. Það var bara alveg draumastarf fyrir mig. Það var engin spurning, ég tók þeirri áskorun. Þá fór ég að vinna í Reykjavík, í september 2007, svona korteri fyrir hrun. Ég hélt ég hefði verið svo rosalega hólpin að fá besta starf í heimi. Það breyttist aðeins.“

Þú varst áberandi sem ung kona, útibússtjóri í banka, og hefur alltaf verið mikil Suðurnesjakona. Nú fór svæðið frekar illa út frá margumtalaða hruni. Svæðið hefur gengið í gegnum miklar sveiflur. Hvernig finnst þér Suðurnesin í dag?

„Þegar ég var að byrja 1996 var niðursveifla á Íslandi og ég man það mjög vel á Suðurnesjum. Þetta kemur í rosa djúpum sveiflum. Það geta verið mjög ýktar sveiflurnar á Suðurnesjunum vegna þess að þetta er þannig samfélag, tengist fluginu og svo framvegis og ég held að það verði alltaf þannig, að þetta blási út og skreppi saman. Þess vegna skiptir svo miklu máli að horfa til lengri tíma og setja sér langtímamarkmið. Það finnst mér hafa tekist rosalega vel á Suðurnesjum. Við erum að sjá svo mikla fólksfjölgun og uppbyggingu sem er frábært. Við verðum náttúrulega bara vör við það í bankanum. Að sjá hvernig það hefur tekist að búa til þetta samfélag, þetta frumkvöðlasamfélag og þennan kraft t.d. á Ásbrú, á þessum þó stutta tíma, af því að herinn lét sig hverfa bara einn góðan veðurdag. Það var nú eitt áfallið. Við náðum að snúa þessari ógn í mikið tækifæri. Að snúa öllum breytingum og erfiðleikum í einhvers konar tækifæri hljómar kannski klisjukennt en það er bara þannig. Það er ótrúlega gaman að sjá uppbygginguna og hversu vel hefur gengið á Suðurnesjum. Maður tekur eftir því.“

Þannig þú ert bjartsýn fyrir hönd Suðurnesja?

„Að sjálfsögðu. Það er þessi fjölbreytileiki sem skiptir máli. Þetta snýst um okkur Ísland. Það er bara ótrúlega mikil uppbygging á Suðurnesjum. Ég er stolt af því að vera úr Keflavík.“

Þú kemur í bankann rétt fyrir bankahrunið. Hvernig var að fara í gegnum það?

„Þetta var bara svaka verkefni. Maður þurfti algjörlega á öllu sínu að halda, eins og öll íslenska þjóðin. Þetta var erfitt fyrir alla og þetta var líka erfitt fyrir bankafólk, ekki síst fólkið sem var í framlínu í beinum samskiptum við viðskiptavininn. Það var auðveldara að vera kannski upp á hæð í Kirkjusandinum en þetta var bara erfitt. En auðvitað er maður með svakalega reynslu í bakpokanum eftir þetta sem maður tekur svo með sér inn í framtíðina.“

Allir erfiðleikar blikna

Una er gift Keflvíkingnum Reyni Valbergssyni og þau eiga tvíburadæturnar Stefaníu og Sóleyju. Eins og lesa má í þessu viðtali hefur Unu gengið vel í vinnunni og í fjölskyldunni en hún hefur misst móður sína og báða bræður á stuttum tíma. Þeir létust báðir í vinnuslysum. Við spurðum Unu út í sorgina, sem hún hefur kynnst.

„Já, við höfum gert það. Það kynnast allir sorginni. Sorgin og gleðin, þetta eru systur. Hún kom óvænt til okkar, sorgin, 2010 þegar Gummi bróðir dó í sjóslysi. Svo lést mamma eftir stutt veikindi tveimur árum seinna. Fyrir tveimur árum lést svo elsti bróðir minn, hann Einar, í vinnuslysi. Þetta voru mikil áföll.

Hvaða áhrif hafði þetta á þig?

„Þetta var náttúrlega bara ótrúlega erfitt fyrir okkur öll í fjölskyldunni, pabba, Dagnýju systur, mágkonu mína og börn. Varla hægt að lýsa því. Allir erfiðleikar blikna í samanburði við eitthvað svona. Þetta var alveg rosalega erfitt. Lífið fer bara í allt annað samhengi. Maður botnar lífið og það eru svo margir sem eru að lenda í sorg alla daga en við lærum að lifa með sorginni og minnumst góðra stunda með fólkinu okkar sem er fallið frá.“