Mögnuð jólagleði á HSS
Á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja er sannkallað jólaland. Heimahjúkrun vann jólaskreytingakeppnina.
Mögnuð jólagleði er á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja en efnt var til jólaskreytingakeppni milli deilda á stofnuninni í byrjun mánaðarins. Víkurfréttir voru kallaðar til leiks til að dæma og finna sigurvegara. Það verk var erfitt því metnaðurinn í jólaskreytingum var mikill en Heimahjúkrun sigraði.
Sjúklingar og gestir stofnunarinnar njóta nú jólaandans á Heilbrigðisstofnun því hver einasta deild er mikið skreytt, sama hvert litið er. Konurnar í Heimahjúkrun voru vel að sigrinum komnar. Þær settu upp jólaheimili ef svo má segja með öllu tilheyrandi, jólaskreytt matarborð með sérhönnuðu gömlu matarstelli sem kom frá Vestmannaeyjum.
„Við fórum ýmsar leiðir í skreytingavinnunni. Við höfum margar unnið saman í mörg ár og samheldnin er því mikil og það kom vel fram í þessu verkefni. Það var haldinn einn fundur í upphafi og svo var haldið af stað, fengin húsgögn og hlutir og eiginmenn nýttir,“ sagði Margrét Blöndal, deildarstjóri Heimahjúkrunar. Halldóra Jóhannesdóttir sem unnið hefur á HSS í fjörutíu ár sagði að hún hafi aldrei upplifað jafn mikla gleði og fjör frá því hún hóf störf.
Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum og í Suðurnesjamagasíni vikunnar var metnaðurinn í jólaskreytingum magnaður. Allar deildir lögðu mikla vinnu í skreytingar og víða má sjá sérhannað jólaskraut.
Keppnin var hörð og í 2.-3. sæti voru D-deildin og Skólahjúkrun. D-deildin státaði af lifandi jólasveini, engum öðrum en Skyrgámi, þekktasta jólasveini Suðurnesja. Skólahjúkrun gerði m.a. sérhannaðan jólasvein úr plastglösum sem hvert og eitt var skreytt með glimmer. Algerlega magnað. Í 4. sæti var Heilsugæslan en á göngum hennar má sjá teiknaðar myndir af nokkrum læknum stofnunarinnar og jóla-hjartalínurit. Þá vakti beinagrind í jólaklæðum athygli í röntgen.
„Ég kom þessu bara af stað. Mér datt bara í hug að gera eitthvað skemmtileg sem minnti á jólin og hafa gaman saman. Það er frábært starfsfólk á HSS og það hefur komið berlega í ljós í þessu dæmi. Mikill samkeppnisandi og skemmtilegheit. Ég hef ekki unnið á vinnustað þar sem svona mikil gleði ríkir,“ sagði Ólafur Sigurðsson, matreiðslumaður stofnunarinnar en hann hóf nýlega störf á HSS og átti frumkvæðið að þessu fjöri sem allir starfsmenn fögnuðu og tóku virkan þátt í. Nú njóta starfsmenn, sjúklingar og gestir afrakstursins. Jólaskreytt Heilbrigðisstofnun Suðurnesja svo eftir er tekið.