Myndarlegt heimili á Mánagötu
Fallegt heimili Sossu og Óla
Það er einstaklega reisulegt húsið á Mánagötunni þar sem listakonan Sossa Björnsdóttir og Ólafur Jón Arnbjörnsson skólastjóri hafa hreiðrað um sig. Hjónin keyptu húsið fremur óvænt árið 1995 en þau eru þriðju eigendur af því. Eignin, sem er 63 ára gömul, hefur gengið í gegnum þó nokkrar breytingar og enn er verið að betrumbæta. Falleg listaverk einkenna húsið en í stofunni er einstakt parket og stórfenglegur gluggi með milljón dollara útsýni.
Ungu hjónin voru að leitast eftir hæð eða íbúð í ákveðnum radíus frá æskuslóðum sínum í Keflavík en þau voru þá að flytjast frá Egilsstöðum á þessum tíma. Sossa er alin upp á Skólavegi 28 og Óli á Hafnagötu 36. „Við hittumst þá á miðri leið hérna á Mánagötunni,“ segir Óli en staðsetningin er góð í rólegri einstefnugötu. Guðrún gamla sem átti húsið vildi ekki selja hverjum sem er. „Við klæddum okkur upp áður en við fórum að hitta hana,“ segir Sossa. Upphaflega stóð til að kaupa bara hæðina og risið. Að lokum fór það svo að þau keyptu kjallarann líka enda leist gömlu konunni vel á skötuhjúin. Ástandið á húsinu var ekki gott og þau þurftu að ráðast fljótlega í framkvæmdir.
Húsið er byggt árið 1954 af Einari Norðfjörð, en hann byggði það fyrir sjálfan sig og bjó í því um skeið. Seinna seldi hann hjónunum sem bjuggu þarna á undan Sossu og Óla. Þau eru því þriðju eigendur af húsinu.
Veggir voru brotnir niður og herbergisskipan breytt á miðhæð. Búið er að skipta um alla glugga nema einn en þau hafa unnið að endurbótum smátt og smátt í gegnum árin. Óli sá sjálfur um að smíða alla gluggana. Sossa viðurkennir að karlinn geti verið nokkuð handlaginn.
Lagt var fallegt stafaparket á miðhæðina og var það sérstaklega teiknað upp af hönnuði, enda er það lagt á einstakan hátt. Þarna má svo sjá stólinn sem kom seint í leitirnar.
Einstakt eldhús
Eldhúsinnréttingin er algjörlega einstök en hún er hönnuð í gömlum stíl með halla á efri skápum og innbyggðum rekkum fyrir matardiska. Eyjan vakti nokkra athygli á sínum tíma en þetta þótti ekki jafn móðins árið 1995. „Hérna sitjum við, drekkum kaffi og borðum og tökum á móti gestum,“ segir Sossa. Matarboðin fara fram í bjartri borðstofunni. Stólarnir við stofuborðið fylgdu húsinu. Þau bólstruðu þá en áður var einhvers konar plast á þeim. „Þetta er örugglega eitthvað af Vellinum frá um 1950, svona Mánabarslegt“, segir Óli. Stólarnir voru fimm talsins en sjötti stólinn kom óvænt í leitirnar. Vinahjón þeirra voru þá á rúntinum í Garðinum og sáu sams konar stól í vigtarhúsinu við bryggjuna. „Ég fór á fund Magga bæjarstjóra og bauð honum stólaskipti. Hann stóð strax upp og bauð mér sinn stól og sagði að hann hefði alltaf langað að vera skólameistari,“ segir Óli og þau hlæja bæði.
Húsinu fylgdi bílskúr sem var ekki mikið notaður áður en þar er Sossa með vinnustofu sína. Viðbyggingin við skúrinn er falleg en hún er byggð í kringum aldarmótin síðustu. Þar er frábær birta fyrir listamanninn. „Mér finnst það nauðsynlegt að fara út úr húsi til þess að fara í vinnuna. Helst að smyrja nesti og fara út til þess að vinna,“ segir Sossa sem þarf að taka nokkur skref frá útidyrunum til þess að koma sér í vinnu sína.
Á vinnustofunni er frábær birta og mikil lofthæð. Finnur Björgvinsson hannaði bygginguna. Loftglugginn á vinnustofunni er mikið þarfaþing fyrir listamanninn Sossu. Hann tryggir frábæra birtu nánast sama hvernig viðrar.
Eins og gefur að skilja má finna áhugaverð listaverk um allt hús.Verk eftir Sossu má sjá víða á veggjunum en meðal annarra listamanna eru Stórval og Sólon Íslandus (Sölvi Helgason), Tolli og Kjarval.
Deila endalaust um gólfdúkinn
Gamall gólfdúkur er helsta þrætuepli þeirra hjóna. Dúkurinn liggur upp stigann og upp í risið. Óli er ákaflega hrifinn af dúknum á meðan Sossa vill ekki sjá hann. Blaðamaður hefur á orði að hann sé nú frekar skólalegur dúkurinn. „Það er kannski málið,“ segir Óli þá hugsi.