Njarðvíkingur tekur við skráningarkerfi af VÍS
VÍS og Áhættustjórnun hafa gert með sér samstarfssamning um atvikaskráningarkerfið ATVIK sem VÍS hannaði, þróaði og setti á markað árið 2013. Hluti samstarfssamningsins er að Áhættustjórnun taki yfir rekstur Atviks sem hefur í yfir 12 ár gegnt lykilhlutverki í að aðstoða stærri fyrirtæki og sveitarfélög við að grípa til forvarnaraðgerða og stuðla að úrbótum til að fyrirbyggja slys og tjón.
Njarðvíkingurinn Gísli Níls Einarsson, framkvæmdastjóri Áhættustjórnunar, tekur við kerfinu en hann er einn af höfundum þess og mun hann leiða áframhaldandi þróun og vöxt ATVIKS sem nú er í boði fyrir öll fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög í landinu.
Viðskiptavinir VÍS munu áfram njóta sérstakra kjara á ATVIK og þau fyrirtæki sem nú þegar eru að nota ATVIK halda áfram með kerfið í óbreyttu formi. Þessi yfirfærsla er hluti af því að styðja enn betur við ATVIK og tryggja áframhaldandi þróun á kerfinu til framtíðar.
„Við höfum séð gríðarlega góðan árangur fyrirtækja af notkun ATVIK. Gísli Níls var lykilmaður í þróun kerfisins á sínum tíma og ég er fullviss um að þróun þessa góða kerfis verður í góðum höndum hans. Með þessari yfirfærslu erum við að tryggja áframhaldandi vöxt og þróun á kerfinu sjálfu og höldum áfram að bjóða viðskiptavinum VÍS upp á einstök kjör í gegnum fyrirtækjasamninga VÍS“ segir Guðný Helga Herbertsdóttir forstjóri VÍS.
Gísli Níls Einarsson framkvæmdastjóri Áhættustjórnunar segist þakklátur VÍS fyrir að vera treyst fyrir áframhaldandi þróun á ATVIK sem sé nú aðgengilegt öllum fyrirtækjum og sveitarfélögum. „ATVIK er sannreynt og miðlægt atvikaskráningarkerfi sem getur þjónað öllum atvinnugreinum s.s. þjónustu, framleiðslu-, byggingariðnaði, sjávarútvegi eða ferðaþjónustu. Samvinna við notendur hefur verið lykillinn að framþróun kerfisins gegnum árin og munum við halda því áfram. Framundan eru spennandi nýjungar í ATVIK sem eiga eftir að efla öryggisstjórnun notenda til muna í samræmi við nútíma kröfur og lög“ segir Gísli Níls.