Framkvæmdir fyrir 15 milljarða við Keflavíkurflugvöll
Uppbygging Keflavíkurflugvallar er í fullum gangi og gengur vel. Útlit er fyrir að 2022 verði metár þegar kemur að framkvæmdum á flugvellinum og munu þær nema 15 milljörðum króna á þessu ári. Á síðasta ári nam sú tala um 5 milljörðum.
Framkvæmdir á þessu ári eru við nýja austurálmu flugstöðvarinnar en kostnaður við burðarvirki og veðurkápu hússins nemur 4,5 milljörðum. Verktakafyrirtækið Ístak var lægst í útboði sem opnað var í desember 2021. Byggingin er þrjár hæðir og 21 þúsund fermetrar. Burðarvirkið skiptist í djúpan, steyptan kjallara sem hýsir færibandasal. Á fyrstu hæð verður stækkun á töskusal fyrir ný færibönd. Verslunar- og veitingasvæði ásamt biðsvæðum farþega stækka um 4.000 fermetra. Miðað er við að þessum áfanga ljúki næsta vor.
Þá verða framkvæmdir við nýbyggingu við suðurenda flugstöðvarinnar og gerð nýrra flugakbrauta, samtals um 1.200 metra. Allar þessar framkvæmdir skapa mörg hundruð störf.