SSS
SSS

Mannlíf

Svo ólýsanlega skemmtilegt og endurnærandi
Sunnudagur 28. júní 2020 kl. 12:23

Svo ólýsanlega skemmtilegt og endurnærandi

Svanbjörg Helena Jónsdóttir:

Ég ólst upp í Keflavík og þar var ýmislegt brasað. Afi minn starfaði sem bókbindari á efri árum og mér þótti afskaplega gaman að fylgjast með honum að störfum. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á handverki án þess að hafa sinnt því að nokkru ráði.

Viðreisn
Viðreisn

Ég er með B.A. gráðu frá Háskóla Íslands og bætti svo við mig nokkrum fögum í viðskiptafræði við sama skóla. Það var svo ekki fyrr en ég fór á kvöldnámskeið í leirrennslu hjá Myndlistaskólanum í Reykjavík árið 2014 að púslin röðuðust rétt saman og ég vissi hvað mig langaði að verða þegar ég yrði stór.

Það er eitthvað við það að vinna með leir sem er svo ólýsanlega skemmtilegt og endurnærandi. Auðvitað getur það tekið á að vinna að hönnun og gerð hlutanna en afraksturinn er alltaf erfiðisins virði.

Ég hafði unnið í markaðsdeild í banka rúm 11 ár þegar ég ákvað að taka stökkið og fara í diplómanám á keramikbraut Myndlistaskólans í Reykjavík. Keramikbraut er tveggja ára nám þar sem þú lærir að vinna með leir, gifs og postulín og öðlast fræðilega þekkingu á faginu. Rík áhersla er lögð á hugmyndavinnu og nemendur eru hvattir til fjölbreyttra rannsókna og tilrauna með miðilinn. Þó svo það hafi verið ótrúlega erfið ákvörðun að hætta í bankanum þar sem ég var í frábæru starfi og vann með einvalaliði samstarfsfólks þá fannst mér ég þurfa að slá til og reyna að læra eins mikið um keramik og hægt væri hér á Íslandi. Ég útskrifaðist svo úr MÍR núna í vor og hef öðlast góða reynslu og þekkingu á faginu.

Hneita

Hluturinn sem ég gerði ber nafnið Hneita og er óður til salts, einni af undirstöðu lífs á jörðu. Þrátt fyrir að Ísland sé umlukið sjó þá bjuggu Íslendingar við saltskort allt fram á 18. öld þar sem ekki var hægt  að vinna salt úr sjó sökum skorts á eldiviði. Hneita er ílát sem samanstendur af tveimur hlutum sem staflast hvor ofan á annan og hafa fjölþætt notagildi. Framreiða má salt og pipar í efri hlutanum og olíu eða annað meðlæti í þeim neðri. Innblástur ílátsins er fenginn frá mynstrum salthella og lögunin endurspeglar lífræn form þeirra ásamt fögrum og ávölum línum alls þess sem hafið hefur sorfið frá örófi alda.