Fréttir

Áhugavert fólk í Víkurfréttum vikunnar
Miðvikudagur 21. ágúst 2024 kl. 17:24

Áhugavert fólk í Víkurfréttum vikunnar

Víkurfréttir í þessari viku eru stútfullar af áhugaverðu fólki sem ræðir við blaðamenn um viðfangsefni sín. Hér er neðan má sjá innganga að nokkrum áhugaverðum greinum og viðtölum í blaði vikunnar frá Víkurfréttum

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Það er hægt að framkvæma nánast allar óskir, ég hef aldrei vísað neinum í burtu án þess að viðkomandi væri kominn með einhverja leið að hugmynd sinni,“ segir Vilhjálmur Magnússon, verkefnastjóri hjá Fab Lab á Suðurnesjum en á föstudaginn milli kl. 13 og 17 mun Fab Lab vera með sýningu á hljóðfærum sem hönnuð eru og smíðuð á staðnum, m.a. í þrívíddarprenturum. Sýningin fer fram í húsnæði Fab Lab í Fjölbrautaskóla Suðurnesja.

Hátt í 700 ungmenni í Reykjanesbæ störfuðu hjá Vinnuskóla Reykjanesbæjar í sumar. Vinnuskólinn er fyrir ungmenni í áttunda til tíunda bekk grunnskóla. Yngsta starfsfólkið skilar 60 vinnustundum en þau eldri 120 stundum. Þeir Viktor Emil Sigtryggsson, forstöðumaður Vinnuskólans í Reykjanesbæ og Hreggviður Hermannsson, umsjónarmaður samstarfsverkefna, tóku á móti blaðamanni Víkurfrétta og ræddu vinnuskólalífið.

„Ég vil frekar fylgja hjartanu í minni tónlistarsköpun í stað þess að gera það sem markaðurinn kallar eftir,“ segir verkefnastjórinn og listamaðurinn Daníel Hjálmtýsson en hann vakti athygli fyrr á þessu ári þegar hann kynnti til sögunnar spjaldtölvuforritið Fróðleiksfúsi í Þekkingarsetri Suðurnesja. Fróðleiksfúsi er fræðsluleikur um fugla og sjávardýr af öllum stærðum og gerðum en aðallega lífríkið á Suðurnesjum.

„Við leggjum mikið upp úr notalegu andrúmslofti, það telur ekki minna en bragðgóður matur að okkar mati,“ segir Arna Björk Unnsteinsdóttir, annar eigenda Sjávarsetursins en hún á og rekur staðinn ásamt eiginmanni sínum, Símoni Hauki Guðmundssyni. Staðurinn sem áður hét Vitinn og var lengi við lýði í Sandgerði, fékk nýja eigendur og nafn í miðjum COVID-faraldri, það voru fyrst tvenn hjón sem ráku staðinn en Arna og Símon hafa verið ein í rekstrinum síðan í fyrra. Fyrir utan að vera veitingastaður, er Sjávarsetrið líka pöbb Sandgerðinga en mikið er um alls kyns uppákomur, allt frá lifandi tónlist yfir í bingó.

„Það verður gaman að fá Háskólalestina í heimsókn til okkar,“ segir Bylgja Baldursdóttir, skólastjóri Sandgerðisskóla en skólahald hefst á morgun, fimmtudag. Sandgerðingar fengu nokkra Grindvíkinga í skólann til sín síðasta vetur og gengu umskiptin vel fyrir sig að mati Bylgju en nokkrir hafa horfið á braut en aðrir komið í staðinn. Sandgerðisskóli tekur þátt í bæjarhátíð Suðurnesjabæjar sem hefst í næstu viku og Bylgja er bjartsýn fyrir komandi skólaár, segist vera með einvala starfslið.

Paralympics 2024 hefjast í París þann 28. ágúst næstkomandi. Fimm þátttakendur fara til keppni á leikunum, þar á meðal sundmaðurinn Már Gunnarsson frá Reykjanesbæ. Fjögur keppa í sundi og einn keppandi er í kúluvarpi. Á meðan Már ætlar að mála París rauða fer hans hægri hönd, leiðsöguhundurinn Max, í íslenska sveitaferð og ætlar að njóta lífsins víðs fjarri skarkala Parísarborgar.

Við segjum einnig frá fjölskyldudögum í Sveitarfélaginu Vogum, vinnuskólanum í Suðurnesjabæ, flytjum aflafréttir, segjum frá skötumessu og íþróttum. Þá eru lokaorð skrifuð frá París og nýjustu íbúar Suðurnesja eru á sínum stað.

Rafræna útgáfu blaðsins má nálgast hér að neðan