Fréttir

Eldur í Benna Sæm GK
Lögregla og slökkvilið á vettvangi í morgun. VF/Hilmar Bragi
Fimmtudagur 12. september 2024 kl. 10:17

Eldur í Benna Sæm GK

Eldur kom upp í dragnótabátnum Benna Sæm GK þegar hann var á útleið frá Sandgerðishöfn skömmu eftir kl. 05 í morgun. Eldurinn kom upp í rafmagnskapli frá ljósavél í vélarrúmi. Rafmagn fór af bátnum við atvikið.

Hjálparbeiðni var send Neyðarlínunni kl. 05:13 og þá var Benni Sæm GK um hálfa sjómílu frá hafnarkjaftinum í Sandgerði. Báturinn var kominn að bryggju þegar slökkvilið Brunavarna Suðurnesja kom á vettvang. Þá voru skipverjar búnir að slökkva eldinn.

Slökkvilið Brunavarna Suðurnesja sendi niður reykkafara með hitamyndavél til að ganga úr skugga um að allur eldur væri slökktur. Það reyndist vera og var aðgerðum slökkviliðs lokið á um 45 mínútum.

Myndir á vettvangi tók Hilmar Bragi við Sandgerðishöfn í morgun.