Keflavík vann Suðurnesjaslag kvöldsins
Það var mikil eftirvænting í loftinu þegar Suðurnesjaliðin Keflavík og Grindavík mættust í kvöld í Blue-höll þeirra keflvísku. Eftirvæntingin tvöföld má segja, Keflvíkingar með nýtt þjálfarateymi og Grindavík skartaði nýjum bandarískum og leikmanni frá Venesúela en sú leikur á spænsku vegabréfi. Keflvíska þjálfarateymið þarf varla að kynna, gömlu brýnin Sigurður Ingimundarson og Jón Halldór Eðvaldsson. Grindvísku nýliðarnir þær Daisha Bradford og Mariana Duran. Leikar fóru svo að Keflavík vann 88-82 eftir að staðan í hálfleik hafði verið jöfn en þegar u.þ.b. þrjár mínútur lifðu leiks stefndi allt í Grindavíkursigur, þær voru 9 stigum yfir en Keflavík vann lokakaflann 15-0!
Grindavík byrjaði betur og í stöðunni 9-15 og tæpar fimm mínútur búnar af fyrsta leikhluta, tók nýja þjálfarateymi Keflvíkinga leikhlé. Stigaskorið drefiðist mjög jafnt hjá gulum, Daisha var komin með 5 stig og þrír leikmenn eitthvað aðeins minna. Á sama tíma voru bara Thelma og Jasmine búnar að skora 5 og 4 stig. Leikhléið skilaði tímabundnum árangri, Keflvíkingar jöfnuðu 17-17 en þá skyldu leiðir á ný og lokaspretturinn var Grindavíkurkvenna, staðan eftir fyrsta fjórðung, 27-32 og það meira að segja þótt Sara Rún skoraði lokastigin og auk þess brotið á henni og hún kláraði vítið. Kanar liðanna voru atkvæðamestar, báðar komnar með 12 stig eftir fyrsta opnunina.
Það var greinilegt að ræðan milli leikhluta virkaði hjá Sigga og Jonna, vörn Keflvíkinga hrökk í gang og gestirnir áttu í hinu mesta basli með að sjá körfuna. Á endanum tók Lalli, þjálfari Grindavíkur, leikhlé. Fyrstu 10 stig annars leikhluta voru heimakvenna en Daisha náði loksins að svara með erfiðum þristi úr horninu, hennar þriðji og búin að nýta öll þrjú þriggja stiga skotin. Við þetta vöknuðu grindvískar og þegar fjórar mínútur lifðu fyrri hálfleiks voru þær komnar í forystu, 40-43. Liðin skiptust á körfum það sem eftir lifði áður en haldið var í búningsklefana í hálfleik, staðan 48-48. Jasmine og Sara Rún voru atkvæðamestar hjá Keflavík, með 16 og 13 stig og hjá Grindavík var nýi Kaninn komin með 20 stig, búinn að hitta úr ⅘ í þristum og þeir sem fóru ofan í snertu ekki hringinn! Frábær leikmaður hér á ferð við fyrstu sýn.
Seinni hálfleikur byrjaði eins og sá fyrri, Grindavík var skrefinu á undan og áttu auðveldara með að finna leiðina að körfunni. Keflavík var einungis búið að skora eina körfu eftir fimm mínútna leik. Þær náðu síðan vopnum sínum og liðin leiddust út leikhlutann, staðan 61-63 fyrir Grindavík og allt útlit fyrir hörku lokafjórðung!
Grindavík byrjaði síðasta fjórðunginn betur, Daisha datt aftur í gang fyrir utan þriggja stiga línuna auk þess að skora aðrar körfur og eftir að Hulda fyrirliði setti þrist og staðan 71-78, tóku þjálfarar Keflavíkur leikhlé. Það virtist ekki ætla skila neinu en þá setti fyrirliði Keflavíkur, Anna Ingunn, í gang með tveimur þristum og Jasmine jafnaði svo með öðrum þristi og allt á suðupunkti! Grindavík gat ekki keypt sér körfu á þessum tíma og þegar tæp mínúta lifði leiks kom Sara Rún Keflavík einu stigi yfir, nýtti bara annað vítaskotanna. Grindavík skoraði ekki og hin pólska Julia Bogumila Niemojewska setti þrist, fjögurra stiga munur og einungis 12,3 sekúndur eftir, ótrúlegar lokamínútur sem Grindvíkingar vilja gleyma sem fyrst! Lokatölur urðu 88-82 og Keflavík vann því síðustu þrjár mínúturnar u.þ.b. 15-0!
Þetta var liðssigur Keflavíkur, margar lögðu í púkkið en Jasmine Dickerson var hlutskörpust með 37 stig og 10 fráköst. Sara Rún skoraði 16 stig og 7 fráköst og fyrirliðinn Anna Ingunn sem steig svo flott upp í lokin, endaði með 11 stig og þrjár stoðsendingar.
Hjá Grindavík var Daisha Bradford frábær með 34 stig og 16 fráköst. Hinn nýliðinn, Mariana Duran, virðist vera flottur leikmaður en hafa ber í huga að hún spilaði leik með öðru liði á sunnudaginn og flaug til landsins í gær og náði varla æfingu með liðinu. Hulda og Ísabella skiluðu góðu framlagi, voru með 15 stig hvor og það voru greinileg batamerki á Grindavíkurliðinu eftir ansi erfiða síðustu mánuði.
Njarðvíkurkonur voru líka að keppa og lentu í kröppum dansi gegn Aþenu á útivelli en höfðu sigur, 66-70, eftir að hafa verið undir í hálfleik, 39-33. Brittany Dinkins var atkvæðamest eins og oft áður, skoraði 25 stig, tók 8 fráköst og gaf 6 stoðsendingar. Emilie Hessendal náði tvennu, 16 stig og 10 fráköst og Ena Viso skoraði 13 stig, tók 5 fráköst og gaf 4 stoðsendingar.