Eitt af markmiðunum að daðra við landsliðið
– segir körfuknattleiksmaðurinn Veigar Páll Alexandersson sem hefur átt góðu gengi að fagna á yfirstandandi tímabili en þessi ungi Njarðvíkingur hefur vaxið með hverjum leiknum og er að sanna sig sem einn besti íslenski leikmaðurinn í Bónusdeildinni.
Farinn að banka á landsliðið
Veigar Páll er uppalinn í Njarðvík og aðeins sextán ára gamall var hann kominn inn í meistaraflokk Njarðvíkur. Veigar hefur leikið með öllum yngri landsliðum Íslands en hann hélt til náms í Bandaríkjunum eftir tímabilið 2021/2022. Veigar sneri aftur í Ljónagryfjuna fyrir ári síðan og skipar nú veigamikið hlutverk í liði Njarðvíkur.
Tímabilið hefur verið á stöðugri uppleið hjá Veigari. Hann byrjaði rólega en hefur bætt sig jafnt og þétt í hverjum leiknum á fætur öðrum. Heyrst hefur að farið sé að kalla eftir honum í landsliðið. Víkurfréttir heyrðu í Veigari að loknum sigri í fyrsta leik ársins en þar fór hann á kostum og skilaði 28 stigum í hús í tveggja stiga sigri á Þór Þorlákshöfn þegar liðin áttust við í IceMar-höllinni eftir áramót.
Þú ert bara hin rísandi stjarna íslensks körfuknattleiks.
„Heyrðu, það er búið að ganga ágætlega í síðustu leikjum,“ segir Veigar og bætir við að tímabilið hafi verið stigvaxandi hjá honum í vetur.
Áttu nóg eftir?
„Já, já. Verður maður ekki að segja það?“
Veigar Páll er uppalinn Njarðvíkingur, er eins grænn og þeir gerast, en hefur hann bara verið í körfubolta?
„Nei, ég var í fótbolta þangað til að ég varð tólf ára. Hætti því og einbeitti mér svo bara að körfunni. Var líka eitthvað í golfi en ekki af neinu viti – annars var það bara körfubolti.“
Búinn að spila með yngri landsliðum og er farinn að minna á sig í sambandi við A-landsliðið. Menn eru örugglega farnir að horfa til þín núna.
„Ja, ég vona það allavega. Það var eitt af markmiðunum fyrir þetta tímabil, að daðra við landsliðið.“
Eftir góða hvíld yfir hátíðirnar, hvernig líst þér á framhaldið?
„Bara ágætlega. Við höfum verið að glíma við meiðsli í liðinu en náum að vinna svona leiki þrátt fyrir að það vanti leikmenn, sem er mjög jákvætt. Þannig að mér líst bara vel á þetta og er spenntur að sjá þegar við verðum fullmannaðir og verðum bara betri þangað til kemur að úrslitakeppninni.“
Þið eruð nú með gæðahóp þótt þessa menn vanti.
„Já, eins og þú sást í síðasta leik þá voru aðrir að stíga upp og svo erum við líka búnir að fá nýjan leikmann [Evans Raven Ganapamo]. Hann var hörkugóður og er mjög flottur leikmaður sem passar vel inn í leikplanið hjá okkur.“
Veigar segir að þrátt fyrir að lykilmenn eins og Dwayne Ogunleye-Lautier og Khalil Shabazz séu að glíma við meiðsli þá sé liðið vel skipað og hafi sýnt mikil gæði í vetur en mestu skiptir að toppa á réttum tíma – í úrslitakeppninni í lok tímabils.
Leikmaður með sterkan haus
Veigar Páll sneri aftur til Njarðvíkur fyrir ári síðan eftir eins og hálfs árs dvöl í Bandaríkjunum.
„Ég tók þrjár annir úti en kláraði ekki námið og er núna í námi hérna heima. Þegar ég var í Bandaríkjunum var ég að læra sálfræði en núna er ég kominn í íþróttafræðina í Háskólanum í Reykjavík.“
Og stefnir þá kannski í íþróttasálfræði þegar fram líða stundir?
„Það er ekki ólíklegt, ég get sagt þér það. Ég mun virkilega skoða það.“
Það á kannski bara vel við þig. Þú virðist vera með sterkan haus sem leikmaður, með fínt jafnaðargeð.
„Ég leita einmitt sjálfur hjálpar til íþróttasálfræðinga og hef lært heilmargt af því – og unnið mikið í þessu. Þannig að ég væri alveg opinn fyrir því að hjálpa öðrum leikmönnum þegar verð búinn með þetta nám.“
Hvernig er með fjölskylduna þína, stunda þau einhverjar íþróttir?
„Bæði systkini mín spiluðu körfu en þau eru bæði hætt núna. Systir mín er að þjálfa og svo er mamma auðvitað að þjálfa líka. Pabbi er alltaf eitthvað í kringum félagið, var formaður einhvern tímann í Njarðvík. Karfa hefur alltaf verið númer eitt í þessari fjölskyldu – og allir Njarðvíkingar. Mamma var færð yfir þegar hún kynntist pabba,“ segir Veigar. „Hún hefur ekki hreint blóð, hún er úr Keflavík en er Njarðvíkingur í dag.“
Bylgja [Sverrisdóttir], móðir Veigars, og Eygló, systir hans, eru báðar á kafi í þjálfun hjá Njarðvík þar sem þær þjálfa stúlknaflokka félagsins.
Er þjálfun eitthvað sem þú ætlar að skoða?
„Já, algerlega. Ég tók enga þjálfun að mér í ár en eftir námið býst ég við að taka alltaf að mér einhverja flokka og svo þegar kemur að því að ég get ekki spilað lengur þá mun ég líklega koma mér inn í meistaraflokksþjálfun. Ég hef mikinn áhuga á því,“ sagði Veigar Páll að lokum.
Lúxus að fá að þjálfa svona gæja– segir Rúnar Ingi Erlingsson, þjálfari Njarðvíkinga.Veigar Páll er ótrúlegt eintak og sem Njarðvíkingur er ég bara afar stoltur af honum. Hann fékk allskonar mótlæti ungur að árum, sem dæmi ekki valinn í U16, en hann tókst á við það með aga og vinnusemi. Veigar er búinn að leggja svo mikið á sig til þess að vera á þessum stað í dag og þá er krafan fyrir mig sem þjálfara að veita honum traustið. Hann er ótrúlega vinnusamur og flottur varnarmaður, skorar körfur í öllum regnbogans litum og getur verið flottur sendingamaður – en helsti styrkleikinn er líklega að hann er meðvitaður um eigin styrk og veikleika og treystir mér til þess að vinna með honum í að bæta þá. Það er lúxus að fá að þjálfa svona gæja. |