Toyota stórsýning 25
Toyota stórsýning 25

Íþróttir

Gömul handboltakempa mætir næst í tippstríðið
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 10. janúar 2025 kl. 10:38

Gömul handboltakempa mætir næst í tippstríðið

Drummerinn Jóhann D Bianco hefur tekið örugga forystu í tippleik Víkurfrétta, er með 34 leiki rétta, sú næsta með 24 og munurinn á bara eftir að aukast þar sem Joey er ennþá á stalli. Hann vann Pool-arann Jón Newman í síðustu umferð næsta örugglega, 9-7 og til að reyna lækka í trommusettinu var farin ótroðin slóð í Reykjanesbæ, handboltakempan Einar Skaftason er næstur í röð áskorenda.
Einar fetaði ekki hina hefðbundnu slóð á sínum íþróttaferli.

„Ég var mest í handbolta þegar upp í meistaraflokk var komið en því skal samt haldið til haga að ég átti farsælan feril með Höfnum í fjórðu deildinni í fótboltanum. Ég er fæddur og uppalinn Keflvíkingur og einhvern veginn þróuðust málin þannig að ég sneri mér meira í átt að handboltum sem á þeim tíma var nokkuð öflugur hér á Suðurnesjum, um tíma voru þrjú lið hér í gangi, Keflavík, Njarðvík og Sandgerði. Við háðum blóðuga baráttu í neðri deildunum og eitt árið spiluðum við Keflvíkingar til úrslita um að komast upp í efstu deild. Þegar karfan náði svo að skjóta rótum í Keflavík þá fjaraði undan handboltanum nokkuð fljótt og hann lognaðist út af. Ef maður getur ekki unnið, þá verður maður bara að sameinast svo áður en varði var ég kominn á kaf í stjórnarstörf fyrir körfuknattleiksdeild Keflavíkur og var m.a. í stjórn þegar karlaliðið varð Íslandsmeistari þrjú ár í röð, 2003-2005.

Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á enska boltanum og hef verið nokkuð duglegur við að tippa. Byrjaði á að halda með Arsenal og bað mömmu um að kaupa búninginn í sportbúðinni hér í Keflavík hjá Frikka Ragnars. Frikki er Man Utd-maður og ég hef hann grunaðan um að hafa vilja sporna við stuðningi við Arsenal og hafi logið að mömmu að Arsenal-búningurinn væri uppseldur en hann ætti West Ham-búning. Þar með var ég kominn í það lið og hef haldið tryggð við það allar götur síðan. Við getum státað okkur af Evróputitli, það er meira en Arsenal-menn geta sagt undanfarin þrjátíu árin eða svo.

Toyota stórsýning 25
Toyota stórsýning 25

Mér líst vel á að mæta Drummernum, hann hefur flogið hátt að undanförnu í þessum tippleik og er auðvitað líklegur en það kemur alltaf að því á endanum að stórveldin falla. Ég held að komið sé að lokastöð hjá Drummernum og vil ég nýta tækifærið og þakka honum fyrir góða framgöngu í leiknum til þessa, hann hlýtur að koma til greina sem einn af fjórum efstu þegar kemur að lokabaráttunni og ég ætla mér að vera þar líka,“ sagði handboltakempan.

Mun Harpix-ið trufla?

 „Heyrðu, já þetta hefur bara gengið alveg skítsæmilega hingað til takk. Þetta stóð reyndar ansi tæpt í síðustu viku gegn Sir Newman þar sem mig vantaði þrjú mörk í þremur lykilleikjum og lítið eftir. Þannig að ég þurfti aðeins að biðja til bet-guðanna góðu og þeir svöruðu heldur betur kallinu með þremur mörkum á 93. mín.

Maður þarf að halda áfram með fullan fókus gegn Skaftasyni enda peyinn hokinn af reynslu og hefur marga fjöruna sopið. Vonum bara að hann geti slegið inn seðillinn fyrir öllu þessu harpix-i síðan á handboltaárunum. Við hendum svo kannski í eins og eitt hliðarbet okkar á milli með eina grimma President-dollu í boði," sagði Trommarinn geðþekki sem var að sigra flensuna þessa vikuna að auki.