Segir Þórkötlu liggja á fjármunum Grindvíkinga eins og ormur á gulli
„Ég er tilbúinn að gera leigusamning við Þórkötlu en það jafngildir væntanlega afhendingu, hins vegar má Þórkatla ekki gera leigusamning við mig vegna pressu frá einhverjum yfirvöldum, og liggur því á mínum peningum eins og ormur á gulli,“ segir ónefndur Grindvíkingur en hann hugðist nýta sér þann möguleika sem Þórkatla bauð upp á seinasta ári, að geta leigt gamla húsið/íbúðina af Þórkötlu. Frá þeim tímapunkti breyttist hins vegar eitthvað og Grindvíkingum er ekki gefinn kostur á að gera slíkan leigusamning og þar sem leigusamningur jafngildir afhendingu á eigninni, heldur Þórkatla eftir 5% af kaupverðinu.
Kannar réttarstöðu sína
„Það er ótrúlegt að lenda í þessari atburðarás. Það hefur ýmislegt gerst í öllu þessu ferli og eins og ég segi stundum, það var nógu mikið áfall fyrir okkur Grindvíkinga að lenda í þessum hamförum og samfélaginu okkar tvístrað, en þurfa svo að glíma við yfirvöld.
Mér fannst þetta flott útspil hjá forsvarsfólki Þórkötlu að bjóða Grindvíkingum upp á að leigja húsið/íbúðina til baka og þar sem ég ætla mér ekkert annað en búa í Grindavík, hakaði ég við þann möguleika þegar ég gekk frá minni sölu í september. Í kaupsamningnum kom fram afhending 1. nóvember og ég beið eftir að Þórkatla myndi hafa samband. Loksins kom tölvupóstur frá Þórkötlu þar sem komið var inn á væntanlega afhendingu og mér boðið að svara ef ég hefði athugasemdir. Ég gerði það, sagðist ekki afhenda heldur ætlaði að gera leigusamning. Síðan þá hef ég ekki fengið neitt svar en ýtti á eftir þessu tvisvar sinnum um áramótin, í seinna skiptið eftir að mér hafði yfirsést skilaboð í gegnum Ísland.is varðandi afhendingu. Við erum nokkrar hræður í Grindavík og það var ekki hægt að taka upp símann og tala, heldur þurfti að senda skilaboð á þennan máta. Venjulegur tölvupóstur hefði ekki farið fram hjá mér. Loksins var hringt frá Þórkötlu og umræðuefnið þessi afhending mín og mér gefinn kostur á að fresta henni enn frekar því ekki er mögulegt að gera leigusamning. Ég sagðist þurfa að fá þessi 5% út úr sölunni en það er ekki mögulegt fyrr en við afhendingu eða eins og ég skil þetta, við gerð leigusamnings. Það hins vegar ekki í boði og því liggur Þórkatla eins og ormur á mínu gulli!
Þessi forræðishyggja yfirvalda ríður ekki við einteyming og nú er kominn tími til að breytingar verði á þessum málum. Ef að það á að reyna bjarga samfélaginu þá verður tónn Þórkötlu og yfirvalda að fara breytast, það er mjög mikið í húfi, Grindavík er mjög mikilvæg íslensku efnahagslífi og samfélagi,“ sagði þessi ónefndi Grindvíkingur að lokum.