Vilja leita að jarðhita fyrir baðlón á Fitjum
Erindi frá fyrirtækinu Í toppformi ehf. um heimild til jarðhitaleitar í tengslum við uppbyggingu hótels og baðlóns á Fitjum og þau álitaefni sem því tengjast var tekið fyrir á síðasta fundi atvinnu- og hafnaráðs Reykjanesbæjar.
Ráðið fól Halldóri K. Hermannssyni, sviðsstjóra atvinnu- og hafnarsviðs að vinna málið áfram á grundvelli þeirrar umræðu sem fram fór á fundinum en lögmaður Reykjaneshafnar sat einnig fundinn.
Þá hefur bæjarráð Reykjanesbæjar falið Halldóru Fríðu Þorvaldsdóttur bæjarstjóra og Guðnýju Birnu Guðmundsdóttur formanni bæjarráðs að vinna áfram í málinu.
Greint hefur verið frá því að stærsta heilsuræktarstöðvarkeðja landsins, World Class, mun hefja byggingu á 8400 fermetra húsnæði undir heilsuræktarstöð og heilsuhótel á Fitjum í Njarðvík. Þá verður starfsemin tengd baðlóni, útisturtum, heitu pottum, gufu og potti fyrir sjósund.
Heilsuhótelið verður fjögurra stjörnu og með 80 herbergjum og þar verður boðið upp á margvíslega þjónustu eins og snyrti- og nuddstofu auk veitingaþjónustu. Ætlunin að tvinna saman ferðaþjónustu og líkamsrækt.